27.08.1942
Sameinað þing: 8. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (904)

66. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Ég flutti ásamt hv. 4. landsk. þm. (ÁkJ) frv. til l. um sama efni, sem þessi þáltill. er um, sem sætti þeirri eðlilegu meðferð, að því var vísað til hv. fjhn. Sömu meðferð hlaut frv. frá tveimur hv. þm. í Ed. um þetta efni. Mér fyndist eðlilegt, að hv. alþm. sameinuðust um eina till. í málinu í stað þessara frv. beggja. En ég tel þáltill. þá, sem hér liggur fyrir, að ýmsu leyti lakari en það frv., sem ég flutti ásamt hv. 4. landsk. þm. á þskj. 10. Meginatriðin, sem ég vil benda á, eru, að í fyrsta lagi tel ég óeðlilegt að leysa þetta mál með þáltill., en álít, að það ætti heldur að gera með lagasetningu. Í öðru lagi var í okkar frv. lagt til að gera breyt. á grunnlaununum, sem væru varanlegar. Í þriðja lagi eru þær launabætur, sem um er talað, nokkru ríflegri í okkar frv. á lægstu launum. Samt sem áður tel ég þáltill. þessa, sem fyrir liggur, viðunandi. Og tel ég ekki hægt eftir atvikum að fá betri lausn á málinu nú heldur en með því að samþykkja hana. Er ég því meðflm. að þessari þáltill.

Ég vil benda á það viðvíkjandi því, hvernig launabæturnar reiknast, að mér virðist rétt og vel við eigandi, að sett sé formúla fyrir því í einföldu, uppsettu reikningsdæmi, sem mér virðist að væri vel viðeigandi að prenta í Alþt. Sú formúla yrði þá á þessa leið:

v = vísitalan.

a = sá hluti mánaðarlaunanna, sem er lægri en 200.01 kr.

b = sá hluti mánaðarlaunanna, sem er yfir 200 kr., en undir 650.01 kr.

c = sá hluti mánaðarlaunanna, sem er yfir 650 kr. og undir 833.34 kr.

d = sá hluti mánaðarlaunanna, sem er yfir 833.34 kr.

Þetta er náttúrlega ekki mjög skemmtileg formúla að heyra hana lesna. Það er satt. En hún tekur af allan vafa í þessu efni, svo að misskilningur á því, við hvað er átt í l., er alveg útilokaður með því að setja hana upp, t. d. í lögin.

Vegna tilmæla hæstv. forseta skal ég svo ekki lengja mál mitt meira, en vil taka það fram, að ég er fylgjandi brtt. hv. þm. Snæf. (BjBj) á þskj. 123.