12.01.1943
Neðri deild: 30. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég gat þess við 1. umr. þessa máls, að mikið væri undir því komið, á hvern veg tækist að skipa þetta fyrirhugaða viðskiptaráð og hvernig þau verkefni færu úr höndum þeim mönnum, sem væri falið það mikla og mjög vandasama starf. Þetta held ég, að sé í raun og veru þungamiðja málsins, því að flestir munu vera á einu máli um það, að æskilegt sé að hafa undir einum hatti nokkuð náskyld mál, sem dreift hefur verið til þessa milli margra n., án þess að á milli þeirra hafi verið nokkurt sérstakt samstarf. Nú hefur því verið hreyft hér á Alþ. og líka manna milli, hvort eðlilegra væri, að stj. skipaði sjálf þetta ráð, eða farið væri að því á þann veg, sem stundum hefur tíðkazt áður á Alþ., að ráðið sé að meira eða minna leyti kosið af Alþ. Það má að sjálfsögðu telja báðum aðferðunum nokkuð til gildis, en ég skil hins vegar mjög vel sjónarmið hæstv. stj., sem telur, að nokkuð mikið sé undir því komið, að valdir séu í þetta ráð menn, sem að hennar áliti séu vandanum vaxnir og þá ekki síður menn, sem líklegir væru til að geta starfað saman og geti starfað með stj. að framkvæmd málsins.

Þó að það sé að nokkru leyti rétt hjá hv. 2. þm. Reykv., að það sé alls ekki ábyrgðarlaust af hálfu þ., hvernig tekst til með ráðið með því að gefa stj. umboð „in blanko“, ef svo má segja, til að skipa menn í þetta ráð, þá er það víst, að það er nokkuð á annan veg af hálfu þ. um afstöðu til framkvæmdarinnar, eftir því, hvort stj. sem nýtur ekki fastákveðins stuðnings þ., útnefnir ráðið, eða ef það er gert af þ. Með ,því að sjálft Alþ. tilnefni menn í ráðið, hefur það að vissu leyti sjálft tekið ábyrgðina, a.m.k. hver þingflokkur á þeim fulltrúa, sem hann hefur til þess valið. En ef ráðið er skipað af stj., þá er það fyrst og fremst á stj. ábyrgð, og afstaða þ. til hæstv. stj. getur nokkuð mikið á eftir utan þessa máls mótazt af því, á hvern hátt henni hefur tekizt með skipun ráðsins og á hvern hátt störf ráðsins hafa farið því úr hendi. En þar sem ekki liggur fyrir nein brtt. um þetta atriði, sé ég ekki ástæðu til að fara nánar út í það, hvort réttara sé, að stj. eða þing skipi ráðið, en vil aðeins nefna þetta atriði í sambandi við skipun ráðsins. Það er svo, að a.m.k. einn þáttur af starfi ráðsins snertir mjög verulega hag allra neytenda í landinu, sem er verðlagsákvæðið. Hins vegar er vitað, að þær stéttir manna og þeir menn, sem aðallega hafa lífsuppeldi sitt og afkomu af dreifingu varanna út meðal landsmanna, hljóta eðli málsins samkvæmt að hafa áhuga fyrir, að álagningin sé á þá lund, að hagnaður þeirra geti orðið sem mestur. Það er a.m.k. eðlileg hugsun og almennur breyzkleiki, ef svo mætti að orði kveða, að hugsa svo um sinn hag. Hins vegar er það sums staðar svo, þar sem ég hef spurnir af í nágrannalöndunum, að þegar trúnaðarmenn hafa verið skipaðir til að hafa með höndum verðlagsákvæði, hafa þeir ekki verið réttgengir til slíkra starfa, ef þeir hafa haft sérstakra hagsmuna að gæta um að halda uppi vöruverði. Þetta er í raun og veru rétt hugsun. Þessir menn eiga að vera óvilhallir dómarar um vöruverð. Þegar innflutningur er lítill, gætu þeir, sem annast dreifinguna, dregið sér óþarflega mikinn hagnað, en þeir, sem annast verðlagseftirlitið, eiga að hafa það sjónarmið, að vörurnar geti verið sem ódýrastar á markaðnum, þó með hliðsjón af því, að þeir, sem flytja inn og selja vörurnar, geti haft af því sómasamlegar og viðunandi tekjur. Ég vil því beina því til hæstv. stj., að hún athugi vel, að þeir menn, sem sérstaklega eiga að hafa verðlagseftirlitið með höndum, að það er óeðlilegt, að þeir hafi samkvæmt stöðu sinni tilhneigingu til, að gróðinn verði sem ríflegastur meðal þeirra stétta, sem sjá um dreifingu á vörum.

Það má segja um suma aðra málaflokka, sem eiga að heyra undir viðskiptaráð, að þeir eru svipaðs eðlis, svo sem hvaða vörur eru fluttar inn. Það er áreiðanlegt, að það er tilhneiging hjá mörgum, sem eru kaupsýslumenn, til að flytja frekar inn þær vörur, sem mikils gróða má vænta af, en það er almennt viðurkennt, að á hinar svokölluðu óhófsvörur, skraut- og skartvörur, er leyfð mest álagning. Þær stéttir, sem hafa hagsmuna að gæta um slíkan innflutning, hafa nokkra tilhneigingu til að ota fram tota þeirra, sem hafa hagnað af slíkum innflutningi. Þar kemur aftur að því, að þeir, sem væru náskyldir þeim atvinnustéttum, sem annast slíka dreifingu, eru ekki óvilhallir dómarar, sem alþjóð fær fyllilega til að halda sanngjarnlega niðri vöruverði í landinu. Svipað mætti segja um aðra þætti, sem víðskiptaráði eru ætlaðir.

Ég vil því beina því til hæstv. stj., um leið og ég ítreka það, sem ég hef áður sagt um, að val manna í víðskiptaráð hefur geypimikla þýðingu um það, hvort frv., ef að l. verður, kemur að fullu gagni, að hún taki vel til athugunar, að val þessara manna verður að miðast við það, að þeir hafi ekki sérhagsmuna að gæta í því að halda uppi vöruverði og láta flytja til landsins lítt nauðsynlegar vörur, sem gefa betri vonir um aukinn hagnað.

Ég get vel gert ráð fyrir, að við 3. umr. komi fram brtt. við þetta atriði, og mér heyrðist hálfpartinn á h.v. 2. þm. Reykv., að hann væri að boða það, en það fer nokkuð eftir því, hvað hæstv. stj. segir nú um þetta atriði, en það gæti verið ástæða til að bera fram brtt. um það, að þeir einir séu réttgengir til vissra starfa í Viðskiptaráði, sem hafa ekki sérhagsmuna að gæta, sem ekki féllu saman við hagsmuni almennings.

Ég vil aðeins segja að lokum, ef það verður niðurstaðan, að ríkisstj. skipi þetta ráð, sem ég vel skil, að hún óski eftir, og með því mæla gild rök, þá er óendanlega mikið undir því komið, að hæstv. stj. í einu og öllu gæti þess, að ef vel á að fara, verður að vera samvinna og gagnkvæmur skilningur milli þings og stj. Störfin geta aldrei farið vel úr hendi, ef ekki tekst að gæta vel þeirrar samvinnu, sem þarf að vera í þessu máli eins og öllum öðrum. En ég vil líka segja, að það er skylda Alþingis að gefa hæstv. stj., meðan hún situr, öll tækifæri, sem hún óskar eftir, til að framkvæma nauðsynleg málefni og láta ekki standa á hjálp sinni til að veita stj. vald til að framkvæma slík málefni, sem geta miðað til almenningsheilla.