25.01.1943
Neðri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (3224)

107. mál, sala á jarðeignum ríkisins

Sigurður Þórðarson:

Herra forseti. — Ég ætla að lýsa því yfir, að ég er fylgjandi þessu frv., því að vegna kunnleika minna á bændum veit ég það, að bændur óska þess eindregið að eiga sjálfir ábýlisjarðir sínar. Það er enn fremur staðreynd, að slíkar jarðir eru betur setnar. Þetta vita allir, sem þekkja nokkuð bændastétt landsins. Mér virðist það því ærið einkennilegt, að þeir menn, sem beita sér á móti þessu frv., skuli þykjast reka erindi bænda. Það er vitað mál, að jarðir ríkisins níðast mjög fljótt niður, og það er mjög erfitt að fá fé til þess að halda þeim við. Ég þekki t.d. bónda í mínu héraði, sem býr á ríkisjörð. Hann hefur þrásinnis beðið um framlag úr ríkissjóði til þess að byggja upp 70 ára gamlan bæ, en það hefur ekki fengizt.

Ég veit, að það er eins satt og ég stend hér, að allir bændur vilji eiga ábýlisjarðir sínar, en ég viðurkenni þó, að jarðakaupasjóður hafi verið þarfur og réttmætur á sínum tíma. En er það ekki jafnréttmætt, að ríkið gefi ábúendum jarðeigna jarðakaupasjóðs tækifæri til þess að kaupa aftur þessar jarðir, þegar þeir óska þess og eru þess megnugir? Ég vil taka það fram, að ég tel æskilegt, að 8. gr. frv. væri breytt þannig, að jarðirnar yrðu skilyrðislaust gerðar að ættaróðulum. (BÁ: Þá væri frv. óþarft, því að það er heimild til þess í l. um erfðaábúð og óðalsrétt að selja ríkis- og kirkjujarðir, séu þær jafnframt gerðar að ættaróðulum. — GSv: Þetta er misskilningur, og er ekki hægt að jafna því saman. — Forseti (hringir): Ekki samtal. Menn verða að biðja um orðið, ef þeir vilja láta álit sitt í ljós). Ég er ekkert fipaður, þótt hv. þm. tali saman, en það virðist svo sem margt gerist hér í þingsölunum, sem við eigum ekki að venjast á fundum úti á landi.

Ég vil svo enn lýsa því yfir, að ég mæli með framgangi frv., en ég vil láta nema burtu ákvæði 7. gr. þess um, að bændur skuli — skilyrðislaust greiða jarðirnar út í hönd. Ég álít það enga áhættu að nema burtu þetta ákvæði, því að það gæti verið fulltryggt með fyrsta veðrétti í jörðunum, að ríkið tapaði engu. Annars vænti ég, að þessir agnúar verði sorfnir af frv. í landbn., og vona fastlega, að það nái fram að ganga.