30.03.1943
Neðri deild: 86. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í C-deild Alþingistíðinda. (3260)

122. mál, tímarit til rökræðna um landsmál

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Allshn. hefur ekki getað orðið á eitt sátt um afgreiðslu þessa frv. Við þrír úr n. leggjum til, að frv. verði samþykkt. Þó áskiljum við okkur rétt til að bera fram brtt., ef okkur lízt svo við eiga, og eins að fylgja brtt., er fram kunna að koma. Tveir nm. hafa ekki getað orðið okkur sammála og leggja til, að frv. verði fellt.

Eins og tekið er fram í hinu stutta nál. meiri hl., teljum við, að í frv. þessu felist sú hugmynd, að við fyrir okkar leyti viljum fylgja því, að öllum landsmönnum gefist kostur þess að fylgjast með öllum umr. almennra stjórnmálaflokka um þau mál, sem efst eru á baugi á hverjum tíma og sæta mestum rökræðum. Teljum við eðlilegt, að ríkisvaldið styrki það nokkuð, að svo megi verða, og teljum það í fullkomnu samræmi við anda og eðli lýðræðisins. Til þess að lýðræðið geti borið þann ávöxt, sem rétt er, er það næsta mikil nauðsyn. að rök og ástæður allra stjórnmálaflokka fyrir sínum skoðunum nái samtímis til allra aðila, sem hlut eiga að máli, sem eru kjósendurnir í landinu á hverjum tíma. Á þessu hefur af eðlilegum ástæðum verið misbrestur allt frá upphafi til þessa dags hvað snertir stefnur eða einstök mál. Mikill hluti landsmanna kaupir aðeins tiltölulega lítið af þeim blöðum eða ritum um landsmál, sem út koma, og mjög fáir lesa öll blöð og rit allra flokka, sem þátt taka í deilunum um landsmálin. Það er líka eðlilegt, að svo sé, því að það er næsta erfitt fyrir alla menn, hvar sem þeir búa á landinu, að verja til þess fé að kaupa öll þau málgögn, sem gefin eru út af flokkunum, enda eru þau málgögn oft mest sniðin við ákveðin byggðarlög, t.d. dagblöðin við bæina, og þau blöð, sem í sveitirnar fara, eru fyrst og fremst miðuð við það, að þau séu lesin af þeim, mönnum, sem í dreifbýlinu búa, en minna gert til þess að gera þau að aðlaðandi lestrarefni fyrir þá, sem búa í þéttbýlinu. Þetta hvort tveggja, fyrirkomulagið og örðugleikar landsmanna á að kaupa öll þau blöð og tímarit, sem um stjórnmál fjalla, gerir það örðugt að fylgjast með þeim deilum, sem á hverjum tíma eru háðar í rituðu máli. Nú er það einnig svo, að stjórnmál íslenzku þjóðarinnar eru oft rekin með óvenjulegri óvægni og bardaginn háður á þá lund, að þess er ekki allt af gætt að fara með rétt rök eða fara nákvæmlega rétt með staðreyndir. Má því búast við — og er kannske mannlegt —, að menn, sem gefa út blöð og rit, sem þeir vita, að fara til manna, sem ekki sjá önnur blöð, freistast til þess að hafa málflutninginn einhliða, vægast sagt hagræða staðreyndunum, ef þeim ekki er stundum snúið við. Af þessu leiðir svo, að fjöldi manna, einkum út um breiðar byggðir landsins, fær ekki réttar upplýsingar um það, hvað deilt er um í landsmálum, og ekki réttar upplýsingar um eðli málanna og staðreyndir þær, sem fyrir liggja, þegar deilt er um málin. Þetta er ekki hollt þjóðinni, enda mála sannast, að mikið skortir á það meðal íslenzku þjóðarinnar, að pólitísk menning sé á svo háu stigi, sem við vildum, sem hyllum lýðræðið og óskum þess, að hin pólitíska menning stæði á svo háu stigi, að andstæðingar þeirrar stefnu, sem við teljum holla og eðlilega, gætu ekki veitzt að henni með réttum rökum.

Það var talið til forna, ef tveir menn áttu í vopnaviðskiptum eða voru í bardaga, að ekki væri heppilegt, að spjótin eða sverðin væru mislöng, og annar aðili hefði meiri og traustari vopn en hinn, og mátti alltaf búast við því, að hvað sem leið hæfileikum þeirra, sem á vopnunum héldu, að sá aðilinn, sem lengra spjót eða sverð hafði, gengi með sigur af hólmi. Það má segja, hvað viðvíkur því að koma skoðunum sínum á framfæri í blöðum sé misjöfn aðstaða. bæði vegna þess, hvernig er háttað landshögum, og einnig af þeirri ástæðu, að flokkarnir, sem eru uppi á hverjum tíma, hafa mjög mismunandi fjárráð og geta mismunandi mikið lagt í kostnað til að útbreiða kenningar sínar. Má segja, að flokkarnir berjist með mjög misjöfnum vopnum og mismunandi löngum spjótum, og þá eru það kannske ekki málefnin, sem valda úrslitum, heldur aðstaðan og misjöfn löngun til að halda uppi drengilegri og heiðarlegri baráttu.

Það má að vísu segja, að þetta hafi nokkuð lagazt við það, að útvarpið hefur verið tekið til umræðna um landsmál, og má segja, að vegna þessa gefist fólki stöku sinnum kostur á að hlusta á hið lifandi orð frá flokkunum, en bæði er það, að þetta er ekki oft um hönd haft, og hitt, að hið lifandi mál, þó að það berist á öldum ljósvakans, hefur ekki kosti hins ritaða máls. Ritað mál hefur það umfram, að það er hægt að grípa til þess á hverri þeirri stund, sem hentar, og hægt að lesa upp aftur það, sem erfitt er að skilja og vill í mæltu máli fara fyrir ofan garð og neðan. Þetta á einkum við, þegar um tölur eða fjárhagsleg málefni er að ræða, sem menn vilja kynna sér og komast að sinni eigin niðurstöðu um. Það er ekki einhlítt, að útvarpið sé notað til umræðna um landsmál, þó að það sé spor í rétta átt. Það, sem stefna ber að, er það, að allir landsmenn, sem áhuga hafa á landsmálum, eigi þess kost, hvar sem þeir búa á landinu að kynnast rökræðum um þau mál, sem fram eru flutt á hverjum tíma af stjórnmálaflokkunum.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er lagt til. að ríkisstj. sé heimilað að gefa út tímarit til þess að rökræða um landsmál. Í þessu tímariti eiga að birtast greinar frá öllum þeim flokkum, seim eiga ákveðna fulltrúatölu á Alþingi, og er miðað við, að það séu minnst 3 fulltrúar, sem hver flokkur eigi að eiga. Það er gert ráð fyrir því í frv., að algert jafnrétti ríki milli allra flokka til þess að ráða efnisvali, og hafi hver stefna fyrir sig jafnmikið rúm í hverju riti. Við, sem erum í meiri hl., teljum að þetta miði í rétta átt, sérstaklega þegar það er lagt til í frv., að hið opinbera kosti útgáfu þessa rits, prentun, pappír og útsendingu, en hins vegar sjái flokkarnir um ritstjórn og ritlaun, að svo miklu leyti, sem þau kunna að verða goldin. Þessa hugsun teljum við rétta, sanngjarna og eðlilega. Þó að ríkið kynni að leggja nokkuð í kostnað við þetta, teljum við, að ekki beri að sjá eftir þeim kostnaði, ef hann gæti orðið til þess, að menn alls staðar á landinu ættu þess sem jafnastan kost að fá að fylgjast með og velta fyrir sér skoðunum og málflutningi allra þeirra stjórnmálaflokka, sem uppi eru á hverjum tíma í landinu. Fyrir þessar sakir viljum við í meiri hl. leggja til, að þetta frv. verði samþykkt, af því að við höllumst að þeirri hugmynd, sem þetta frv. ber uppi, og viljum, að allir landsmenn fái sem jafnastan aðgang að því að heyra frá öllum stjórnmálaflokkunum um þau mál, sem um er rætt og um er deilt.

Um það má svo deila, hvernig því formi verði bezt fyrir komið, sem á að umlykja þetta. og mætti í því efni sjálfsagt benda á eitthvað, sem er betra en það, sem hér er gert ráð fyrir. Þess vegna höfum við í meiri hl. áskilið okkur rétt til þess að flytja brtt. við frv. og eins hitt, að fylgja brtt., ef fram kunna að koma. Frá okkar sjónamiði er aðeins um það að ræða, að hugmyndin verði framkvæmd. Jafnvel þótt hugmyndin reynist, þegar til á að taka, vera eitthvað gölluð, væri fljótlegt að bæta úr því með betri skipulagsháttum, og vildum við í meiri hl. gjarnan standa að þeim breyt., ef það mætti verða til þess, að tilgangurinn næðist betur með breyttu formi en ella. T.d. má telja vafamál, hvort á að binda, eins og gert er í 2. gr., hver skuli vera hlutföllin milli greina í ritinu, og vel mætti vera, að það ætti fremur að vera reglugerðaratriði, en þó held ég, að ekki saki, þó að þetta sé lögfest óbreytt, jafnvel þótt síðar kæmi á daginn, að þessu atriði og fleiri mætti skipa á betri veg, ef reynslan sýnir galla á fyrirkomulaginu.

Þessi almennu orð vildi ég láta falla sem rökstuðning okkar meiri hl. manna fyrir því, að sú hugmynd, sem kemur fram í frv., nái fram að ganga, hvernig sem forminu verður hagrætt hér í sölum Alþingis. Það er frá okkar sjónarmiði miklu meira aukaatriði.