06.02.1943
Efri deild: 49. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (3323)

129. mál, rafvirkjun fyrir Dalasýslu

Flm. (Þorseinn Þorsteinsson):

Herra forseti. — Þessi þáltill., sem hér liggur fyrir, er í raun og veru svo einföld og óbrotin, að ekki er ástæða til þess að fjölyrða um hana miklu frekar heldur en gert er í grg.

Ég vil aðeins beina því til hv. d., að það, sem hvatti mig mest til þess að koma fram með þessa þáltill. nú þegar, var það, að bæði eru hreyfingar miklar komnar um það að rafvirkja í sveitum landsins, en hins vegar hefur þetta hérað í þessu tilliti fengið litla eftirtekt og lítil athugun gerð í sambandi við það með tilliti til fallvatna í landinu til rafvirkjana. En nú stendur fyrir dyrum rafvirkjun í stórum stíl á fallvötnum í Borgarfirði. Og þá getur orkað tvímælis, hvort ekki sé réttara, heldur en að ráðast í vafasama virkjun í héraðinu, að fá leiðslu frá virkjun í Borgarfirði og inn í þetta hérað, Dalasýslu, þegar til kemur. Gæti það e.t.v. orðið kostnaðarminna. Og í raun og veru þarf að vera búið að athuga þetta mál, áður en farið er að reisa aflstöðvarnar við Andakílsfossana. Þess vegna þarf að fá úr því skorið, hvaða aðferð væri heppilegust til þess rað fullnægja rafmagnsþörf þessarar sýslu. Ég tel nauðsynlegt, að þetta verði athugað og úr þessu skorið, og að þessi athugun fari fram á næsta sumri.

Ég sé ekki ástæðu til að óska eftir frestun á þessari umr. um þáltill. eða að hún fari til n., því að ég býst við, að málið sé svo einfalt, að það þurfi ekki neitt nál. um það. Og hygg ég, að hv. þd. hafi ekkert að athuga við þessa þáltill. mína.