07.04.1943
Efri deild: 91. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

176. mál, samflot íslenzkra skipa

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Fyrir alllöngu síðan komu um það tilmæli til ríkisstj. frá stéttarfélögum sjómanna, að l. yrðu sett, sem heimiluðu ríkisstj. að fyrirskipa samsiglingu skipa frá Íslandi til Stóra-Bretlands og frá Stóra-Bretlandi til Íslands aftur. Um þetta urðu umr. milli fulltrúa stéttarfélaga sjómanna og stj. annarsvegar, og fulltrúa útgerðarmanna og stj. hinsvegar. — Fulltrúar útgerðarmanna lýstu yfir því, að þeir mundu vilja stuðla að því svo sem í þeirra valdi stæði, að öryggi sjómanna yrði sem mest á hafinu, en beindu þeirri ósk sinni til stj., að hægt yrði að leysa þetta atriði án lagasetningar. — Urðu um þetta viðræður um stund milli aðila, og þótt í ljós kæmi fullur vilji útgerðarmanna til þess að leysa þetta mál, þá sýndi það sig fljótt, að ýmsir „tekniskir“ örðugleikar væru í vegi fyrir því, að hægt yrði að útkljá þetta, án þess að um það yrðu sett lög.

Nú er svo málum komið, að ríkisstj. hefur lagt fram frv. til l. um þetta atriði, og hefur hún lagt það fram sem frv. til heimildarl. Hins vegar get ég gefið þá yfirlýsingu, að stj. mun strax og frv. þetta verður samþ. notfæra sér heimildina, sem í því felst. Ríkisstj. hefur og birt hér sem fylgiskjal með frv. uppkast að reglugerð, sem hún hefur lagt fyrir fulltrúa sjómanna og útgerðarmanna, og þeir samþ. fyrir sitt leyti, að þessi reglugerð yrði svo sem hún birtist hér. — Ef því hv. Alþ. vildi fallast á að samþ. þetta frv., mun ríkisstj. gefa út reglugerð sem þá, er hér er birt og fulltrúar stéttafélaga sjómanna og útgerðarmanna hafa fyrir sitt leyti tjáð sig samþ., en það eru forsvarsmenn þeirra aðila, er munu búa við þessa reglugerð.

Ég vildi að svo mæltu óska þess, að hv. Alþ. vildi samþ. þetta frv. og það sem fyrst, til þess að reglugerðin geti verið gefin út hið skjótasta.