10.04.1943
Efri deild: 95. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

176. mál, samflot íslenzkra skipa

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Í tilefni af ummælum hv. 1. þm. S.-M., þar sem hann benti á að orðalagið á athugasemdunum við frv. væri ekki nákvæmt, þá verður að viðurkennast, að það hefði verið betra, ef staðið hefði, „fulltrúar stéttarfélaga sjómanna og útgerðarmanna í Rvík og Hafnarfirði“ og er rétt að biðja afsökunar á, að svo er ekki. Hins vegar lít ég svo á, að ríkisstj. hafi ekki átt þess kost að hafa færari fulltrúa á fundi en þá, sem fjölluðu með henni um þetta mál.

Út af þeim athugasemdum, sem hv. þm. hefur gert viðvíkjandi undanþágumöguleikum fyrir skip, sem sigla frá höfnum utan Rvíkur, verður að viðurkennast, að við samningu reglugerðarinnar hefur ekki verið tekið nægilegt tillit til þessa. En eins og ég sagði áður, skal það verða tekið til yfirvegunar, þegar reglugerðin er útbúin, svo að ekki þurfi að leita til Rvíkur með slíka undanþágu, a.m.k. ekki í hvert skipti. Eins og ég sagði áður, þá verður leitað ráða hjá fulltrúum sjómanna og útgerðarmanna, áður en endanlega er gengið frá reglugerðinni. Um hitt, hvort frv. skuli breytt úr heimild í skyldu, þá verður hv. d. að meta, hvað er æskilegt og hvers er þörf. En ég vil benda á, að það er eindregin ósk sjómanna, að þessari lagasetningu sé hraðað sem mest. Og að gefnu tilefni vil eg taka það fram, eftir að hafa kynnt mér málið síðan ég talaði hér fyrr í dag, þá yrði slík breyt. til að seinka málinu. Það eru því vinsamleg tilmæli til hv. d., að hún athugi, hvort ekki sé hægt að afgreiða frv. í því formi, sem það er, til þess að tefja það ekki, og vísa ég til þeirrar yfirlýsingar, sem ég hef gefið um, að það muni verða tekið tillit til þeirra ábendinga, sem hér hafa komið fram, við samningu reglugerðarinnar.

Hins vegar, ef hv. d. álítur, að ákvæðin séu ónóg til að tryggja öryggi sjómanna, þá verður d. að ráða þar um. En það sýnist ljóst, að það er meiri trygging í því, að þessi l. fái afgreiðslu á þessu þingi, en hinu, hvort þeim er breytt úr heimildarlögum í skylduform.