25.11.1943
Efri deild: 56. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (1968)

172. mál, verðlækkunarskattur

Fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Út af fyrirspurn hv. 6. þm. Reykv. til mín viðvíkjandi þál., er hér var á ferðinni fyrir nokkru, um atriði í starfi sex manna n., þá skal ég upplýsa, að ég sendi þetta verkefni strax til hagstofunnar og hagstofustjóri tjáði mér fyrir fáum dögum, að þetta væri vel á veg komið, stæði aðeins á upplýsingum um eitt atriði. Skilst mér því, að innan skamms tíma sé von á áliti hagstofunnar um þetta. Aðrar upplýsingar get ég svo ekki gefið.

Viðvíkjandi því máli, sem hér liggur fyrir, vildi ég taka fram, að ég hef hugsað mér að blanda mér ekki í umræður þess að svo stöddu, en bíða, unz það kemur úr n. Ég tek aðeins fram, að vilji þingið halda dýrtíðinni í skefjum svipað og verið hefur og ætli það að greiða áfram uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, eins og virðist liggja fyrir, þá verður að skapa ríkinu auknar tekjur fram yfir það, sem nú er tiltækilegt. Eins og hv. þm. er kunnugt, er þegar búið að hlaða svo á fjárlfrv. það, sem nú bíður afgreiðslu, að litlar líkur eru til, að það gefi tekjuafgang.

Ég vildi aðeins láta þetta í ljós, en ræði þetta mál e. t. v. betur, er það kemur úr n.