09.12.1943
Neðri deild: 60. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (2256)

186. mál, tekjuöflun vegna dýrtíðarráðstafana

Stefán Jóh. Stefánsson:

Þegar lagt er fram skattafrv. eins og þetta, eru alltaf á því tvær hliðar, sem hljóta að móta afstöðu manna. Er skattanna réttlátlega aflað? Og til hvers á að nota skattpeninginn? Það er bezt að reyna að gera sér grein fyrir báðum þessum hliðum. Þegar við athugum þá hlið málsins, hvort öflun skattanna á að fara fram á réttlátan hátt, er tvennt, sem kemur til greina, annars vegar hækkun á aðflutningsgjöldum eða tollum á öllum vörum með því kostnaðarverði, sem vörurnar standa í komnar í íslenzka höfn, og í öðru lagi er gert ráð fyrir að leggja ákveðið hundraðsgjald, 15%, ofan á tekjuskattinn, sem greiða ber samkv. gildandi l. Fyrri þátturinn er frá sjónarmiði okkar Alþfl.-manna alveg forkastanlegur, svo að nægja mundi til, að við snerumst gegn frv. Einmitt á tímum, þegar nokkuð er auðvelt að afla tekna hér á landi, á sízt að fara út á þá braut að tolla brýna nauðsynjavöru almennings. Og það á að leggja þetta ekki aðeins á innkaupsverð vörunnar, heldur ofan á þau gífurlegu farmgjöld, sem við búum við. Og það er ekki nóg með þetta, heldur leggja þeir, sem annast dreifingu varanna, ákveðinn hluta ofan á kostnaðarverðið, eins og það er, þegar varan er komin í þeirra hús. Það er ekki of hátt að áætla, að þá bætist þriðja prósentan á vöruborðið.

Ég vil víkja að því, hve skynsamleg dýrtíðarráðstöfun þetta er til lækkunar. En sú meginregla að leggja ákveðið hundraðsgjald ofan á allar vörur er frá sjónarmiði okkar algert ranglæti og til að auka misrétti og magna dýrtíðina.

Þá er hinn þátturinn, álagningin á tekjuskattinn. Það er þó annars eðlis, því að þar er um hækkun á beinum sköttum að ræða, en lendir bara harðast á þeim, sem verst verða úti í dýrtíðinni, lág- og miðlungstekjufólki. Það eru nóg rök fyrir því, að tekjuöflunin er óréttlát. Þetta atriði út af fyrir sig nægir til þess, að Alþfl. er á móti þessu frv.

Þá er vert að líta á það atriði, til hvers eigi að verja þessu fé, því að enginn hefur leyfi til að leggja skatta á skattanna vegna. Skattaálögur eiga að þjóna einhverjum skynsamlegum tilgangi. Skattaálögur út af fyrir sig eru ekkert gleðiefni, en hitt er annað mál, að sé þörf á að afla tekna í sameiginlega sjóði, þá á að afla þeirra á þann réttlátasta hátt, sem fyrir finnst. En svo að ég snúi mér nú aftur að atriðinu varðandi það, í hvaða tilgangi á að verja þessu fé, þá skildist mér af orðum hæstv. fjmrh., að fyrst og fremst ætti að afla þessa fjár í því skyni að greiða verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir. (Fjmrh.: Þetta er misskilningur). Ég man vel, að hæstv. ráðh. sagði, að á leiðinni væri stór útgjaldaliður til þess að greiða uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, og setti ég þetta þá í samband við þetta frv. eins og það liggur fyrir, en í grg. þess er ekkert um þetta sagt, hvorki til né frá. Hvort sem svo er eða ekki og að ég hafi misskilið orð hans, þá tek ég orð hans góð og gild. Hins vegar er mönnum kunnugt um það, að ekki þarf að leita lengra en til umr. frá s. l. nótt, því að þá kom fram till. frá meiri hl. fjvn., sem miðaði að því að auka útgjöld ríkissjóðs um 10 millj. kr. og sem 28 þm. hafa skrifað undir, að nota eigi til þess að verðuppbæta afurðir bænda, sem út eru fluttar, og upp í það verð, er sex manna n. ákveður á þessum vörutegundum: Þess vegna hlýtur þetta að standa órjúfanlega í sambandi vð áætlun stj. um stórútgjöld ríkissjóðs, sem kom í ljós nú við 3. umr. fjárl. Og hvort þessar milljónir verða teknar úr fjárhirzlum ríkissjóðs til þess að greiða þessar uppbætur eða til þess að halda niðri verðinu á innlendum markaði, þá skiptir það okkur engu máli. Aðalatriðið er það, að fyrir höndum liggur að greiða tugi milljóna í verðuppbætur á útfluttar afurðir landsmanna, og við Alþfl.menn teljum, að á þessum málum hafi verið haldið á þann veg, að við getum ekki hjálpað til við þessar greiðslur, eins og frá þeim er gengið, bæði með ákvæðum sex manna n. og allra sízt í samræmi við það, sem 28. þm. hafa skrifað undir í byrjun þessa þings.

Við Alþflmenn viljum vissulega láta íslenzku bændastéttina njóta fulls réttar og réttlætis í þjóðfélaginu, en við teljum ekki ástæðu til þess að taka þessa einu atvinnustétt út úr og tryggja henni með tugum milljóna úr ríkissjóði langtum hærri tekjur en öðrum sambærilegum atvinnustéttum landsins. Þetta teljum við óréttlæti og ofrausn, sem íslenzka ríkið fær ekki undir staðið, eins og nú standa sakir. Að því athuguðu, hvað liggur bak við frv., og að öðru leyti, til hvers á að verja þessu fé, þá sjáum við ekki neina hvetjandi ástæðu til þess að fylgja frv., eins og það liggur fyrir.

Í grg. segir, að fé þessu skuli varið til dýrtíðarráðstafana. Ég hef minnzt á þetta og tel engum vafa bundið, að það séu sannarlega engar dýrtíðarráðstafanir að setja tolla á nauðsynjavörur almennings, en það hefur óhjákvæmilega í för með sér, að vöruverð á aðfluttum vörum hlýtur að hækka. Ég tel því mjög hæpið að segja, eins og grg. frv. greinir frá, að fé þessu skuli varið til dýrtíðarráðstafana, þar sem þess er aflað á þá lund, að þetta verður til þess að auka dýrtíðina í landinu.

Hæstv. fjmrh. sagði, að afstaða manna til frv. mótaðist af því, hvort menn væru með eða móti því að halda dýrtíðinni í skefjum, en mér finnst, að það sé alls ekki hægt að segja það með sömu merkingu og hæstv. fjmrh. vildi vera láta. Það má ef til vill segja, að í þessu sé fólginn nokkur sannleikur, sannleikur, sem er á þá lund, að þeir, sem eru þessu frv. fylgjandi, séu á móti því að gera nokkrar heilbrigðar dýrtíðarráðstafanir í landinu.

Ég þykist vita, að það sé tilætlunin með þessu frv. og einn þáttur í því starfi, sem nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til hér á landi, sem sé að halda niðri dýrtíðarvísitölunni, þó að ég skuli fúslega játa, að það sé nokkuð örðugt að finna út dýrtíðarvísitölu, sem ekki sé umdeilanleg með réttu eða röngu. Þó er það víst, að það eru engar dýrtíðarráðstafanir, sem sýnilega aðeins miða að því að lækka að einhverju leyti vísitöluna, en hækka samtímis raunverulegt vöruverð í landinu. Þetta eru hins vegar ráðstafanir til þess að halda niðri kaupgreiðslum til samræmingar við raunverulega dýrtíð, og það eru því engin undur, þótt almenningur á Íslandi sé orðinn nokkuð tortrygginn út af sumum dýrtíðarráðstöfununum. Með þessu vil ég alls ekki bera stj. á brýn, að hún hafi ekkert gert til þess að reyna að halda dýrtíðinni niðri eða stöðva hana, því að hún hefur gert tilraunir, bæði heppilegar og óheppilegar, og hefur að nokkru leyti tekizt að stöðva til bráðabirgða þá flóðöldu, sem virtist fara vaxandi, eftir því sem lengra leið. En þó hefur svo margt komið fyrir í þessum dýrtíðarmálum, að fólk er farið að tortryggja flest, sem gert er. Þarf ekki annað en minnast á tvær tegundir af íslenzkum afurðum, sem mjög orka á dýrtíðarvísitöluna, annars vegar smjörið, sem allir vita, að fæst ekki með því verði, sem það er talið til útgjalda í vísitölunni, og hins vegar saltkjöt, sem lækkað var, eftir að meginþorri landsmanna hafði birgt sig upp, en þá var hver saltkjötstunna lækkuð um kr. 100.00, og þykir mér ekki ósennilegt, að það eigi að orka eitthvað á dýrtíðarvísitöluna. Þess vegna segi ég, að það sé von, að menn séu tortryggnir, þegar slíkt frv. kemur til 1. umr. Og því skyldi enginn ætla, að því sé ekki tekið með tortryggni, þegar ofan á það bætist, að það er þess eðlis, að það eru ekki dýrtíðarráðstafanir, sem að gagni mættu koma, heldur þvert á móti.

Einmitt vegna þess, að Alþfl. er með því að gera skynsamlegar ráðstafanir til þess að lækka dýrtíðina raunverulega, er hann á móti þessu frv., og af því að hann telur þetta rangláta aðferð, sem raunverulega verður til þess að auka dýrtíðina. Hér er því ekki að ræða um neinar dýrtíðarráðstafanir, sem Alþfl. getur fylgt, og þess vegna mun hann skilyrðislaust beita sér gegn þessu frv.