09.12.1943
Neðri deild: 60. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (2259)

186. mál, tekjuöflun vegna dýrtíðarráðstafana

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Í nótt, sem leið, lauk 3. umr. fjárl. Flestir þeir, sem tóku til máls og sögðu nokkuð almennt um afgreiðslu fjárl., lýstu yfir því, að þeir teldu afgreiðslu þeirra mjög ógætilega, eins og stefnt væri að, og væri mikið vafamál, hvort tekjur fjárl. mundu geta náð því í framkvæmd að standast útgjöldin. Hins vegar mun það hafa verið þannig, að af hálfu allra flokka í þinginu kom fram sú stefna að hafa útgjöldin eitthvað svipuð og þau munu verða við afgreiðslu fjárl. endanlega við 3. umr. Munurinn var sá, að einn flokkurinn vildi verja fé til þessa og annar til hins.

Svo skeður það undarlega, að þeir sömu hv. þm., sem eiga ekki nægilega sterk orð til þess að lýsa því, hversu ógætilega sé stefnt um afgreiðslu fjárl. með till. annarra en þeirra eigin till., ganga fram fyrir skjöldu til þess að varna því, ef nokkur kostur væri, að í gegn komist tekjuöflunarfrv., sem hér er flutt. Í fjárl. er ekki gert ráð fyrir neinni fjárveitingu til dýrtíðarráðstafana, þ. e. a. s. til þess að greiða niður dýrtíðina innan lands, en það hefur verið stefna ríkisstj. að gera til bráðabirgða, unz mögulegt yrði að lækka dýrtíðina með öðrum hætti.

Hins vegar er á fjárl. ætlað fé til annarra dýrtíðarráðstafana, nefnilega til þess að borga verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, til þess að verðið á landbúnaðarafurðum yrði ekki að vera hærra innan lands en í síðasta septembermánuði, þegar það var ákveðið. (FJ: Það er nú ekki komið inn í fjárl. enn þá).

Nú liggur hér fyrir frv. frá hæstv. ríkisstj. um tekjuöflun til dýrtíðarráðstafana. Og samkv. því frv. mundi ríkisstj. geta varið því fé, sem hún fengi eftir ákvæðum frv., ef samþ. yrði, bæði til þess að greiða niður verðlag á innlendum markaði og einnig til þess að greiða uppbætur á útflutningsafurðir. Þannig er frá frv. gengið. Það mætti því gera ráð fyrir, að þetta frv., ef að l. yrði, gæti aukið mjög líkurnar fyrir því, að fjárl. stæðust sæmilega í framkvæmd, eins og þau verða samþ., því að af þessu fé mætti létta undir með útflutningsuppbótagreiðslunum og þannig létta á sjálfum fjárl. Þetta mæli ég nú til þeirra manna, sem hafa látið sér svo tíðrætt um það, hversu fjárl. líta út fyrir að verða ógætilega afgreidd. En þá er hitt atriðið, sem er þó aðalatriðið í sambandi við frv. um tekjuöflun til dýrtíðarráðstafana, hvort menn vilja ljá máls á því, að stj. geti haldið áfram enn um skeið að borga niður verðlagið innan lands. Það er nokkurn veginn gefið mál, að þeir, sem haga þannig afstöðu sinni, að stj. fái ekki neinar tekjur til þess að borga niður dýrtíðina, þeir munu koma í veg fyrir, að það verði hægt. Það er nokkurn veginn augljóst mál, að ekki er hægt fyrir ríkisstj. að fá fé til þess að borga niður verð á innlendum markaði af tekjum ríkisins á fjárl. Það er nokkurn veginn séð, hversu vel sem tekst um framkvæmd fjárl. og hversu vel sem vonir manna rætast um tekjur af tollum og sköttum. Og þá er spurningin, hvort þingið vill taka það á sig að gera stj. ókleift að halda þessari skipan áfram og þannig verða þess valdandi, að dýrtíðin vaxi ótiltekið, sem enginn veit, hve mikið yrði, en að sjálfsögðu mjög verulega, og sjálfsagt mundi ekki líða langt, þangað til dýrtíðarvísitalan mundi vera komin upp í 300 stig. Þá er það fyrir menn að gera upp við sig, hvort þeir vilja valda því, að svo fari. Ég hef ekki verið sérstaklega hrifinn af þeirri stefnu að borga niður dýrtíðina og lagt áherzlu á, að slíkt gæti ekki verið nema til bráðabirgða. Og ég hef bent fyrr og síðar á aðrar leiðir, sem væru það eina, sem hægt væri við að hlíta til frambúðar. En samt sem áður vil ég segja það, að ég er ekki fylgjandi því, að þingið taki nú fram fyrir hendurnar á ríkisstj. í þessum efnum án þess að geta gert nokkurn skapaðan hlut í staðinn, sem nokkur vitglóra er í, — því að það liggur augljóst fyrir, að þingið getur ekki komið sér saman um að setja neinar dýrtíðarráðstafanir, sem að haldi gætu komið, hvorki til bráðabirgða né til frambúðar. Og þegar þannig stendur á í þinginu, vil ég ekki taka á mig ábyrgð á því, að dýrtíðinni sé sleppt lausri. Þá vil ég heldur, að ríkisstj. geti fengið að halda áfram í horfinu, þangað til séð er, hvort innan mjög langs tíma verður hægt að koma í veg fyrir, að úr verði fullkomið hrun. Er vil alveg sérstaklega í sambandi við spurninguna um það, hvort taka eigi hér fram fyrir hendurnar á ríkisstj., — þó að menn séu ekki ánægðir með þessi úrræði nema til bráðabirgða, — þá vil ég sérstaklega í þessu sambandi benda á, hverjir eiga mest undir því, að dýrtíðinni sé ekki sleppt lausri, eins og nú standa sakir. Ef við lítum afar þröngt á málið, mundu kannske sumir segja, að verkamenn og launamenn ættu ekkert undir því, vegna þess að þeirra laun færu hækkandi eftir því, sem dýrtíðin ykist. Þetta er rangt samt, því að ef dýrtíðin ykist verulega frá því, sem nú er, þá margfaldast líkurnar fyrir því, að hér verði atvinnuleysi í fullum mæli alveg innan stundar. En þeir, sem standa þó alveg í fremstu víglínu, ef að þessu ráði verður horfið, að sleppa dýrtíðinni lausri, eru þeir, sem framleiða til útflutnings. Þeir standa í fremstu skotgröf. Á þeim mun dýrtíðaraldan skella fyrst, og þá fyrst og fremst þeim, sem framleiða fisk til útflutnings, bæði stórútgerðinni í landinu og smáútgerðinni og öllum fiskimönnum landsins, sem eru ráðnir upp á hlut af afla. Og ef nú yrði horfið að því ráði að sleppa dýrtíðinni lausri, þá væri það alveg sama og það, að nú væri ákveðið rétt fyrir vetrarvertíðina að lækka tekjur þessara manna um það, sem dýrtíðaraukningunni nemur, því að það er ekki nema fals eitt að segja, að hér skipti engu máli dýrtíðaraukningin fyrir aðra en þá, sem hafa marga menn í þjónustu sinni — og það gegnum launagreiðslur, sem sé stórútgerðina. Hér á líka smáútvegurinn hlut að máli, sem á tekjur sínar undir því hlutfalli, sem er á milli fiskverðsins og verðlags innan lands. Þegar verðlag hækkar í landinu, þá minnkar hlutur fiskimanna og útgerðarmanna og allra, sem flytja út úr landinu fisk fyrir fast verð. En nú er ekki séð annað er, það sé meining þeirra manna, sem undanfarin ár hafa reynt að grafa undan útgerðinni og tekjum fiskimanna, að halda áfram sama veginn með því að vinna að því, að ríkisstj. sé gert ókleift að halda áfram stefnu sinni í dýrtíðarmálunum, vinna að því að sleppa dýrtíðinni lausri nú rétt fyrir vetrarvertíðina.

Ég vil draga það fram hér, að fyrir tveimur árum var hér 35 aura verð á kg. af fiski, en nú er það 45 aurar. Og ef einhver vill efast umr að þetta sé kjarni málsins, sem ég hef nú drepið á, þá vil ég biðja menn að athuga, hvort fiskimenn og smáútvegsmenn, — svo að við sleppum stórútgerðinni, — séu miklum mun betur haldnir nú af þeim 45 aurum, sem þeir fá nú, en þeim 35 aurum, sem þeir fengu áður. Ég veit, að þeir eru miklu verr settir með þessum 45 aurum en með 35 aurunum áður. Og það er ekki fyrir utan að komandi ástæður, heldur fyrir vöxt dýrtíðarinnar í landinu sjálfu. Með þessum vexti dýrtíðarinnar hefur verið grafið undan tekjum þeirrar stéttar alveg sérstaklega, sem hefur atvinnu af fisksölu, eins og ég hef þegar bent á. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að þar að auki mundi koma upp mikill óhugur meðal þeirra framleiðenda, sem nú eiga í vök að verjast vegna verðs á erlendum markaði, um það að halda áfram atvinnurekstri sínum af fullu afli, ef þeir fengju nú þá kveðju frá Alþ., að það gerði þess nú engan kost, að haldið yrði áfram að reyna að halda dýrtíðinni þar, sem hún er, en láta dýrtíðarölduna flóa yfir á nýjan leik. Það er sýnilegt, að það yrði óumflýjanlegt böl fyrir atvinnuvegi landsins, ef dýrtíðinni yrði sleppt lausri nú.

Af þessu, sem ég hef nú sagt, er það ljóst, að ég tel, að það er höfuðnauðsyn, að tekna verði aflað fram yfir það, sem nú hefur verið ákveðið, bæði til þess að styðja fjárl. og vegna dýrtíðarráðstafana, sem ákveðnar hafa verið, og einnig til þess, að ríkisstj. geti haldið áfram að hamla gegn dýrtíðinni með því að greiða niður verðið innanlands. Og ég þykist hafa fært full rök fyrir því, sem ómögulegt er að hrekja, að þær ráðstafanir þurfi að gera þannig, að þeir, sem flytja varning sinn á erlendan markað og sæta þar föstu verði, verði ekki fyrir skerðingu á launum fyrir vinnu sína með aukinni dýrtíð innanlands. Og á það alveg sérstaklega við allan þann fjölda manna, sem á afkomu sína undir sjávarútveginum, bæði smáútvegsmenn og fiskimenn úti um allt land. Náttúrlega yrði það til hags líka fyrir aðra útgerð, stærri útgerð, sem selur á erlendum markaði. En það er svo hlægilegt, að það er eins og sumir álíti, að þá leið verði að fara að sporna ekki við dýrtíðinni, þó að smáútvegsmönnum og fiskimönnum sé það nauðsynlegt, af því að þeir stóru megi ekki fá neinn hagnað af þeim ráðstöfunum. En þeir, sem hugsa þannig, ættu fremur að hugga sig við það, að þær tekjur, sem stórútgerðin hefði af því, að dýrtíðinni væri ekki sleppt lausri, eru skattlagðar þannig, að 90% af gróða stórútgerðarinnar gengur einmitt til ríkissjóðs og bæjarsjóða eða til nýbyggingarsjóða. Og þeir, sem þykjast nú vera umboðsmenn fyrir alþýðufólk í landinu, m. a. fyrir smáútvegsmenn og fiskimenn, ættu að hafa hugfast, að tjón af dýrtíðaraukningu mundi því fólki mjög tilfinnanlegt og að því væri lítill greiði gerður með því, að farið væri fyrir þess hönd eftir hugsunarhætti mannsins, sem óskaði, að stungin væru úr sér bæði augun, til þess að annað augað fengist stungið úr andstæðingi hans.

Ég álít því ekki fært að skorast undan því að samþ. tekjuöflun í því skyni að hamla á móti dýrtíðinni. Og þá kemur svo spurningin um það, hversu sú tekjuöflun á að fara fram. Framsfl. hefur bent á, að bezta úrræðið væri að framlengja verðlækkunarskattinn, sem ákveðinn var hér á síðasta þingi. Sá skattur mátti teljast réttmætur. Hann byrjaði ekki, fyrr en komið var yfir meðallag tekna. Og hann gat tryggt svona hér um bil þær tekjur, sem þurfti til þess að halda í horfinu. Þetta var greinilega látið uppi af Framsfl. í Ed., þegar frv. um verðlækkunarskatt var flutt þar á þessu þingi. Jafnframt var það tekið greinilega fram, að ef fótur yrði settur fyrir það frv. og þá leið, sem Framsfl. áleit réttasta til þess að afla þessara tekna, þá mundi flokkurinn verða að ljá annarri leið fylgi til þess að afla tekna til slíks, enda þótt hann væri ekki eins ánægður með aðrar leiðir og verðlækkunarskattinn. Það var búizt við því, að forkólfar hinna svo kölluðu verkalýðsflokka gætu verið með verðlækkunarskattinum. En ef þeir felldu hann, þá áttu þeir ekki kost á að velja tekjuöflunarleið. Samt sem áður voru þeir ekki með verðlækkunarskattinum, vitandi, að af því mundi leiða, að þingið mundi taka fjármunina með öðrum hætti, sem óviðfelldnari væri þeim mönnum, sem vildu sneiða hjá því í sambandi við þessi dýrtíðarmál að leggja auknar byrðar á alþýðuna.

Af þessu er mönnum ljóst, að Framsfl. er ekki ánægður með þá tekjuöflunarleið, sem hér er farið fram á. Þetta er ekki sú leið, sem sá flokkur vildi fara í þessu máli og hefði farið, ef fulltrúar verklýðsflokkanna í þinginu hefðu ekki tekið þar af skarið og fellt verðlækkunarskattinn. En hins vegar lítur Framsfl. þannig á, að það sé svo viðurhlutamikið að sleppa nú öllum tökum á dýrtíðinni og það sé svo þýðingarmikið að styrkja framkvæmd fjárl. með auknum tekjum, eins og frá þeim hefur verið gengið, — og eiga allir hv. þm. óskilið mál um upphæðir gjaldanna, — að það líti út fyrir, að óhjákvæmilegt verði að auka tekjur ríkisins. Og flokkurinn mun því stuðla að því, að ríkisstj. fái tekjuauka á þann hátt, sem lagt er til í þessu frv., eða líkan hátt, enda þótt ég telji þessa leið fullkomið neyðarúrræði, að leggja á 2% innflutningsgjald í sambandi við dýrtíðarráðstafanir, þó ekki vegna þess, að það komi þungt niður á neinum sérstaklega. Það er náttúrlega broslegt að belgja sig út um það, að þetta komi sérstaklega þungt niður á nokkrum, því að bæði er hægt að koma í veg fyrir, að þetta 2% gjald komi fram í útsöluverði margra vara, og hlýtur stj. að sjá um það, þar sem hún ætlar þetta fé til dýrtíðarráðstafana, og hins vegar ef þessi skattur kæmi að einhverju leyti fram í verðlaginu, þá náttúrlega hækkar kaupgjald manna sem því nemur, þannig að það kemur ekki niður á þeim, sem taka kaup. En það eru þeir gallar á því að fara þessa leið, að ef ekki tekst að koma í veg fyrir, að verðhækkun á vörum leiði af þessu innflutningsgjaldi, þá verður það ekki til þess að lækka dýrtíðina. En það er ekki hægt að segja, að þeir gallar séu þannig vaxnir frá sjónarmiði þeirra, sem vilja, að ríkisstj. hafi tök á að halda áfram að reyna að hamla á móti dýrtíðinni, að ekki sé hægt að fylgja þessari leið þess vegna, — því að eins og ég hef tekið fram, er hægt að koma í veg fyrir, að af þessu innflutningsgjaldi leiði verðhækkun.

Um álagið á tekjuskattinn er það að segja, að það er miklu skynsamlegri leið í þessu máli. Samt er það ekki eins heppilegt og verðlækkunarskatturinn, eins og hann var ákveðinn á síðasta þingi. Það er ákaflega lágur tekjuskattur með umreikningi og öðru á miðlungstekjur og þar fyrir neðan. Og yrði því þetta lágt gjald, sem ekki væri tilfinnanlegt fyrir neinn. En samt er hann ekki eins réttlátur og að leggja á verðlækkunarskatt. En eins og ég gat um áðan, þá hafa aðrir ráðið því en framsóknarmenn, að sú leið verður ekki farin að leggja á verðlækkunarskatt.

Ég fer svo að ljúka máli mínu. Það vakti ekki fyrir mér annað en að drepa á nokkur atriði og skýra það, hvers vegna Framsfl. vill stuðla að því, að ríkisstj. geti fengið auknar tekjur til umráða til áframhaldandi dýrtíðarráðstafana og til þess að styðja fjárl. í framkvæmd.