09.12.1943
Neðri deild: 60. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (2266)

186. mál, tekjuöflun vegna dýrtíðarráðstafana

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég get ekki látið umr. um þetta frv. fara alveg fram hjá mér án þess að segja nokkur orð, vegna þess að frá því fyrsta, að Alþ. þetta kom saman, hefur það verið líkast því, að það hafi legið eins og mara á öllum, að frv. eins og þetta, sem hér liggur fyrir, mundi fram koma. Og það hefur verið vikið að þessum umbótamálum og dýrtíðarmálum í sambandi við svo mörg mál, sem rædd hafa verið á þinginu. Og nú er þá komið fram frv. um að leggja innflutningsgjald á allar innfluttar vörur til þess að lækka dýrtíðina. En ég geri ráð fyrir, að a. m. k. verkalýðnum í landinu hefði sízt af öllu dottið í hug, að þessi leið yrði farin til þess að lækka dýrtíðina, sem svo er kallað, því að á s. l. ári og nú á þessu ári, síðan þessi niðurkaupaheimild kom fram, hefur því undantekningarlaust verið slegið föstu og það einnig af sex manna n., að þetta væri ekki nema bráðabirgðaráðstöfun, sem gæti ekki haldið áfram til lengdar. Og á síðasta þingi voru skipaðar nefndir, bæði til þess að athuga þessi dýrtíðarmál, hin svo kallaða sex manna n., sem átti að athuga um verðlagið, og svo starfaði einnig mþn. í launamálum. Og niðurstöður af starfi þessara n. átti svo að leggja fyrir þetta þing. Og þá átti hér að vera búið að ráða niðurlögum dýrtíðarinnar og komast að niðurstöðum, og átti þá þetta bráðabirgðaástand í dýrtíðarmálunum að vera horfið. Á s l. sumri, þegar þessi mál voru í meðförum hjá þessum n., þá hafði verkalýðurinn, a. m. k. hér í Reykjavík, mjög góða aðstöðu til þess að segja upp kaupsamningum og fá hækkaðan kauptaxta sinn sem svaraði því, sem tekið var af launþegum með rangri vísitölu. Uppi voru í verklýðsfélögunum háværar kröfur um það að segja upp samningum í sumar og fá hækkað grunnkaup. En bæði mér og fleirum leizt rétt að bíða og verða ekki til þess að setja fót fyrir þær ráðstafanir, sem reynt yrði að gera í þessum málum, því að okkur var strax ljóst í sumar það, sem hv. 2. þm. S.-M. virðist fyrst hafa orðið ljóst nú, að einmitt smáútvegurinn þoldi ekki hærri vísitölu með tilliti til fiskverðsins í útlöndum. Og þetta var hæstv. ríkisstj. í sumar fullkomlega ljóst. Og maður hefði getað búizt við, að þetta mál yrði tekið fyrir á þinginu nú og rætt þetta mál, sem margir telja kannske eitt alvarlegasta málið, sem fyrir þinginu liggur.

Hv. 2. þm. S.-M. lýsti því í ræðu hér á þinginu fyrir skömmu í sambandi við annað mál, að uppbæturnar til bændanna væru ekki veittar fyrst og fremst af því, að þeir þyrftu þeirra með. Hann sagði, að verkamennirnir og sjómennirnir hefðu fengið aðstöðu til þess að auka gróða sinn og það væri rétt, að bændur fengju hlutdeild í þeim gróða, sem stétt í þjóðfélaginu. og þess vegna væru þessar uppbætur á landbúnaðarvörur. Ef þetta hefur verið ástæðan, — og maður getur hugsað sér, að hann viti um það, hv. þm., þar sem hann er formaður flokks síns, —, þá gætu menn hugsað sér, þegar þeir horfa á fjárl., sem nú eru að ganga fram, þar sem milljón á milljón ofan vantar til þess, að þau geti staðið undir þessum uppbótagreiðslum og öðrum till.; sem hér eru komnar fram, að það væri orðinn nokkuð vafasamur hlutur, sem þjóðarbúinu er ætlað að greiða með þessum uppbótum, þegar svo er komið. Það, sem svo launþegar í landinu fá nú, eru hækkandi tollar, — sem hljóta að koma langmest niður á verkamönnum og láglaunastéttunum, — til þess að verja í þessar uppbætur á landbúnaðarafurðum.

En nú er rétt að athuga, hvað þessar uppbætur á landbúnaðarafurðum gera. Maður gæti hugsað, að peningar, sem þannig væri varið, gerðu það að verkum, að framleiðsla vöru, sem verðbætt er með þeim og nauðsyn er, að nóg sé af færi í þá eitthvað vaxandi. En því fer svo fjarri, að það er alveg öfugt. Hún fer minnkandi. En varan, sem menn eru í vandræðum með að afsetja, en verðbætt er, hún hækkar í verði, en þeir, sem framleiða hana, þurfa ekkert um annað að hugsa en bara að framleiða hana, hvort sem hún selst eða ekki, þ. e. kjötið. Og svo er sagt, að þetta sé allt gert, nefnilega að greiða þessar uppbætur, til þess að jafna metin í þjóðfélaginu. — Það er jafnmel verið að segja, að kjöti sé hent suður í hraun. Svo eru þeir líka að segja, að sjávarafurðum sé fleygt í sjóinn við strendur Englands. — En þessir góðu menn athuga ekki það, að maður, sem framleiðir fisk, hann framleiðir hann fyrir ákveðið verð, og hann verður að sætta sig við þann lífeyri, sem það gefur honum, án uppbótar greiðslna. Og ef eitthvað skemmist hjá honum, þá er það beinlínis hans tap. Það er ekki verið að borga það af ríkinu. En það sér hver einasti maður, að það getur ekki gengið í framtíðinni sú framleiðsla, að þannig sé framleidd vara, að mennirnir, sem að framleiðslunni vinna, þurfi ekki annað um að hugsa en framleiða bara sem mest, þeir fái það allt borgað, hvort sem betur eða miður gengur með söluna. Enda er ekki vafi á því, að kjötfrarnleiðsla hefur stóraukizt á tveimur undanförnum árum.

Og viðvíkjandi því, hvernig þetta horfir við frá sjónarmiði verkalýðsins, get ég ekki beint sagt um. En eftir því, hvernig þetta stóð í sumar, þá verður það ekki á valdi neinna einstaklinga að hindra það, að átök verði um það, hvort launþegar fái uppbætur á kaup sitt; sem svarar þessari skerðingu á því, ef þetta frv. verður samþykkt. Og ég gæti ákaflega vel ímyndað mér, að launþegar, sem nefnd var sett til þess að athuga launakjör hjá, yrðu sammála um það eða fulltrúar þeirra í þessari n. að leggja fyrir þetta þing till. í launamálum, en fái einhverra hluta vegna ekki tækifæri til þess. En leiðréttingin, sem útlit er hins vegar fyrir, að þeir eigi að fá hjá Alþ., á að vera sú, viðvíkjandi þeim lægst launuðu embættismönnum ríkis og bæja, að tollar verði lagðir á nauðsynjavörur. Og ég get þá líka búizt við því og er reyndar sannfærður um það, og hv. þm. hljóta að sjá það, að með þessu framferði hlýtur að reka að því, að harðar deilur rísi út af þessum hlutum.

Ein aðalröksemdin í þessum málum, sem höfð er sem keyri á verkamenn og launþega, er atvinnuleysið. Og það er alls ekki úr vegi að fara nokkrum orðum um það út af fyrir sig, því að það er alveg eins nauðsynlegt, að mennirnir, sem vinna svo kallaða verkamannavinnu hafi sín laun eins og hinir, sem vinna að framleiðslu hluta sem þeir nota fyrir sjálfa sig. Það er ekki hægt að reka þjóðfélagið með því að hver einstaklingur vinni að sjálfstæðri framleiðslu. Og ef orka verkamannanna er ekki notuð, þá er það fyrsta undirstaðan til beins þjóðfélagslegs hruns og til eyðileggingar á þjóðfélaginu, því að það er nauðsynlegt, að það peningamagn, sem hér er nú í landinu, svari eðlilegum vöxtum. En þó að svo væri, mundi það ekki vera nóg þjóðinni til fæðis og klæðis eitt út af fyrir sig, þó að peningaflóðið sé mikið í landinu. Það er því nauðsynlegt, að starfsorka landsmanna sé notuð — og það sem bezt — til framleiðslu fyrir þjóðina, bæði einstaklinga og ríkisheildina. En ef menn fara að ganga atvinnulausir, þá fer að koma stöðvun á fjármagnið og þá um leið kreppa, sem endar á því, að fólkið fer að hætta að geta keypt, en það veldur svo bæði þjóðfélagslegum skaða og skaða fyrir einstaklinga. Og þetta finnst mér, að menn ættu hiklaust að horfast í augu við, því að allir eru sannfærðir um, að svo getur það ekki lengi gengið.

Menn hafa hér verið að tala um, að ákaflega mikil vá væri fyrir dyrum í dýrtíðarmálunum og þau væru að fara út í öngþveiti, það verði að taka málin alvarlega o. s. frv. Og ég get tekið undir það. En alvaran er þó stundum ekki meiri, þegar menn berja sér á brjóst og tala um þetta, en það, að það, er eins og stólarnir, en ekki mennirnir, sem í þeim eiga að sitja, eigi að ráða fram úr vandamálunum. Þannig er fundarsóknin stundum.

En ég er sannfærður um, að uppbætur án nokkurs skipulags um það, sem framleitt er, hvort kannske er framleitt allt of mikið af einhverri vörutegund, sé ekki ráð til þess að leysa vandamál dýrtíðarinnar. Of lítið virðist vera gert í því efni að auka það af framleiðsluvörum landbúnaðarins, Sem menn vantar, en kannske full mikið til þess að auka framleiðslu þess, sem þjóðin er í vandræðum með að selja.