12.11.1943
Sameinað þing: 29. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (2681)

125. mál, rafmagnsveita Reykjaness

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. úr því, sem orðið er. En mér finnst hv. frsm. meiri hl. fjvn. oft hafa verið vígfimari en í þeim ræðum, sem hann flutti hér í dag. Hann hélt því fram í fyrri ræðu sinni, að ekki mætti samþ. brtt., því að það mundi stofna málinu í hættu, málið væri ekki nógu vel undirbúið fjárhagslega og enn fremur vantaði leyfi fyrir því efni, sem um er að ræða. Þegar ég sýndi honum fram á, að engin af þessum fullyrðingum fengi staðizt, hefur hann fallið frá afstöðu sinni. Annars veit ég ekki betur, eftir því sem ég þekki til, en teknar séu til greina allar aðstæður, þegar mál eru afgreidd í n., enda sé ég á till. minni hl. fjvn., að n. hefur tekið málið til athugunar á þeim breytta grundvelli, sem ég benti á. En um það hef ég ekki fleiri orð.

Ég vil benda hv. þm. G.-K. á, að honum hefur orðið lítils háttar á í messunni áðan. Hann er að breyta nafninu á þáltill. sinni. Nú er hann kominn með nýtt nafn, en svo illa vill til, að hann tekur upp í því efni sömu till. og felst í 2. lið brtt. minnar á þskj. 261. Ég veit, að hann hefur alls ekki ætlað sér að taka undir till. frá mér, og vil því spyrjast fyrir um það hjá honum, hvort hann vill ekki breyta nafninu einu sinni enn.

Viðvíkjandi till. minni hl. fjvn. vil ég lýsa yfir því, að ég mun greiða atkv. með henni, ef hún verður borin upp á undan till. minni og hv. 2. þm. Árn. En til að taka af allan vafa um, hvort hæstv. ríkisstj. muni ekki innleysa efnið, sem leyfið er fengið fyrir í Bandaríkjunum, ef till. á þskj. 385 verður samþ., vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort hæstv. ríkisstj. muni ekki innleysa það efni, sem leyfi fæst fyrir, og efnið látið ganga í það, sem ætlazt hefur verið til. Ég vil spyrja, hvort hæstv. forsrh. geti ekki gefið yfirlýsingu um þetta, því að það mundi styrkja till. á þskj. 385, ef slík yfirlýsing kæmi fram.