12.11.1943
Sameinað þing: 29. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í D-deild Alþingistíðinda. (2687)

125. mál, rafmagnsveita Reykjaness

Ólafur Thors:

Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að það hefur nú gerzt, sem ekki er venja, að hæstv. ríkisstj. svaraði tafarlaust fyrirspurn, sem fram var borin, enda þótt sá ráðh., sem með þessi mál fer, sé ekki viðstaddur. En ég get raunar ekki séð, að það flýti fyrir málinu. Ég efast ekki um góðan vilja hæstv. ríkisstj. og þann ásetning hennar að standa við yfirlýsingu sína. En ég get með engu móti fengið betur borgið því, sem fyrir mér vakir, en með því að einskorða mig við þá línu, sem vitað er, að efnisleyfi er fengið fyrir. Það gæti komið fyrir, að sú ríkisstj., sem nú situr að völdum, væri farin frá, þegar efnið kemur til landsins, og fyrir því er engin trygging, að sú ríkisstj., sem við tæki, teldi sig skuldbundna til að standa við yfirlýsingu þessarar. Ég held því, að málið verði á engan hátt betur tryggt en með minni till., og þess vegna æski ég þess, að hún verði samþ.