06.12.1943
Efri deild: 61. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í C-deild Alþingistíðinda. (2978)

3. mál, eignaraukaskattur

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín og er ekki löngun mín að halda langa ræðu um þetta mál. En af því, hvernig því er háttað, sé ég mér ekki annað fært en gera aðeins grein fyrir afstöðu minni til þess við atkvgr. En það, sem vekur furðu mína, og ég geri ráð fyrir ýmissa annarra, er það, hvernig þessi tekjuöflunarfrv. ber að á Alþ. Af slíkum stærri frv. er þetta a. m. k. 2. í röðinni, sem hvort um sig á að vera þess umkomið, ef samþ. yrði, að afla þá nokkuð margra millj. kr. til þessara og þessara nota í þarfir hins almenna eða opinbera. Samhliða þessu er nú það til umr. og úrslita, hvernig eigi að afla tekna til hinna alveg óhjákvæmilegu útgjalda ríkisins samkvæmt því, sem skuldbindingar liggja fyrir um, svo sem verðuppbóta og annars slíks, í samræmi við ákvarðanir, sem hafa verið gerðar og ekki verður undan komizt. Þegar á þetta er litið hvað með öðru, þá verður a. m. k. mér á að spyrja: Hefðu þessi mál kannske ekki legið aðgengilegar fyrir til úrlausnar, ef séð hefði verið um það, jafnframt því sem fjárlagafrv. var til umr., að þetta mál hefði verið athugað með tilliti til afgreiðslu fjárlagafrv. þá þegar, svo sem t. d. varðandi verðuppbætur og annað slíkt? Það var auðsætt, að þær varð að greiða, en þær munu verða milljóna-gjaldaliðir fyrir ríkið. Og áttu ekki ákvæði þessa frv., sem hér liggur fyrir, ef menn á annað borð vildu samþ. þau, heima í fjárlagafrv.? Ég held því ákveðið fram, að svo hafi verið. Og úr því að fjárlagafrv. var nú sett fram af hálfu hæstv. ríkisstj. með þessum ágalla, að þetta vantaði þar inn í, hvernig stóð þá á því, að hv. fjvn. hefur ekki fellt þetta inn í fjárlagafrv. og að enn skuli Alþ. og almenningur vera neyddur til að vaða í sömu villu og svima um heildarniðurstöður um nauðsynjar ríkisins? Ég held, að þetta sé ákaflega örugg aðferð til þess að skapa glundroða og tvíveðrung um öll meiri háttar mál, sem varða fjárlagaafgreiðslu.

Annars verð ég að segja það, eftir þeim grundvallaratriðum, sem í frv. eru, að ég get fylgt af stað þeirri hugsun, sem þar gætir, að þeir, sem hafa eignazt og auðgazt, séu þeir, sem eiga að standa undir byrðum og greiðslum til hins opinbera. Um það er ekki að villast. Hitt er svo annað mál, hve langt megi ganga í hverju tilfelli og hvenær skattabyrðar eru orðnar það miklar, að á það sé ekki bætandi. Það er allt annað mál, og það er ekki mitt meðfæri að rökræða það. En hitt vil ég taka fram, að á meðan á annað borð við búum við þjóðskipulag, sem byggist á séreign og einhverri auðsöfnun, þá verður að gæta einhvers af því fé, sem verður að standa undir byrðum þess opinbera, ekki sízt ef harðnar í ári. Hitt er svo einnig til álita, að ef komið er svo langt út á refilstigu í skattaframtölum og undanbrögðum ýmiss konar í því sambandi, að kennt verði við glæpi ekki síður en réttlátt framferði, svo að stangist við allt félagssiðferði, þá er álitamál, hvort ekki beri að taka fjárráðin af einstaklingum. Og þá er komið að allt öðru þjóðfélagsskipulagi en meiri hluti þjóðarinnar að þessu hefur óskað eftir, og vil ég svo ekki fara lengra út í þá sálma hér. Ég held þar að auki, þegar talað er um þetta frv., þá reki maður sig á mjög verulega ágalla á því, þegar á að leggja skattinn á án tillits til undanbragða manna, án tillits til allra skattsvika, þannig að slíkt framferði mundi ekki verða hindrað með þessum ákvæðum, þótt að l. yrðu, og slyppu þá þar þeir menn, sem sízt skyldi. En að þeim slepptum álít ég líka nokkuð vandfarið. Ég vil leggja áherzlu á það, að þeir, sem auðgazt hafa á þessu tímabili, sem til er tekið í frv., eru eins vel komnir að sínum fjármunum og þeir, sem auðgazt hafa fyrir þann tíma, það staðhæfi ég. Með samþ. þessa frv. væri tilviljunin látin skella á til ívilnunar einum efnuðum manni og til íþyngingar öðrum álíka efnuðum manni. Hitt má svo taka fram, að sumt af þessum stríðsgróða er til orðið sem hreinasta happdrættisfé. Og það er eðlilegt að gera ráðstafanir til þess, eftir því sem vegir væru finnanlegir til þess, að gera það fé lausara fyrir til skattinnheimtu til hins opinbera og láta það því hlíta að ýmsu leyti sérstökum, réttlátum reglum.

Ég er hræddur um, að þegar fara á að finna út réttlátan eignaaukaskatt, þá verði hann af ýmsum ástæðum ákaflega vandfundinn. Skattaframtölin eru meira og minna ótraust. Og í öðru lagi hefur aðstaða manna á þessu tímabili verið mjög misjöfn til að græða, þannig að dugnaður manna í sumum tilfellum hefur notið sín alveg í sama hlutfalli og fjáröflun þar af leiðandi verið tilsvarandi hin sama á þessu tímabili og áður var, og verðskuldar því gróði þeirra manna að því leyti ekki meiri skerðingu miðað við þetta tímabil heldur en það, sem þessum mönnum græddist áður. Í sumum tilfellum hefur þetta að sjálfsögðu verið öfugt. Og þegar flokka á slíkt, þá hygg ég, að grundvöll vanti mjög til þess að framkvæma í þessu efni réttláta og sanngjarna skerðingu á eignum manna.

Þá er það notkun fjárins, sem inn kæmi með þessum skatti, samkv. 5. gr. frv. Þetta fé á samkvæmt frv. að nota til ákveðinna aðgerða, að vísu nauðsynlegra, í þjóðfélaginu. En þó eiga þær framkvæmdir eftir þessu frv. að vera alveg aðgreindar frá þeirri heildar-, fjárhagslegu aðstoð til þjóðarinnar, eins og þau mál liggja fyrir í fjárlagafrv. Ég álít þetta fyrirkomulag ákaflega óhentugt, og það því fremur, þegar spurningin er nú um, hvernig eigi að afla nægilegs fjár, til þess að ríkið geti fullnægt skuldbindingum sínum með tilliti til ýmissa hárra liða, sem rætt hefur verið um, m. a. af mér. Þetta á allt að vera skráð á sömu bókina, það á sem mest af gjöldum til þess opinbera og útgjöldum þess opinbera einnig að vera fyrir hendi í fjárl., sem þá sýnir heildarniðurstöðuna á ríkisrekstrinum og hve mikils þarf að afla til heildargreiðsla til þessa og hins, sem óhjákvæmilegt er fyrir ríkið að hafa með höndum. En margflokkun á þessum hlutum, innan og utan fjárl., sitt á hverjum stað, getur ekki leitt til annars en verða smám saman að hreinni svikamyllu. Ég verð því að segja það um þetta frv., að svo ljóst sem mér finnst það vera, að ríkið vantar fé til þess að geta staðið straum af svo miklu sem útlit er fyrir, að það þurfi af hendi að inna, þá finnst mér allt, sem lagt er til í þessu frv., vera meira og minna óaðgengilegt vegna þess, hvers tvískinnungs gætir í meðferð mála þessara. Ég get hugsað mér, að ef frv. kæmi fram um það að taka eitthvað í þessa átt af þeim, sem eignazt hafa fjármuni fyrr eða síðar, þá gæti ég verið með slíku frv. vegna brýnnar nauðsynjar, ef fyrir hendi væri, en frv.; sem sniðið væri töluvert á annan veg en þetta, sem hér liggur fyrir.

Það er talað um, að með þessum skatti mundi helzt verða tekið af eignum togarafélaganna, þar sem um háa umsetningu og væntanlegan gróða sé að ræða. Jú, það mun svo vera. En þegar talað er um milljónagróða togarafélaganna, þá verður maður að gæta þess um leið, að á öðrum tímabilum en þessu, sem um er rætt í frv., hefur verið talað um milljónatöp á þessum sömu félögum. Það sýnir, að gæfuhjólið er valt fyrir þeim og afkoman ekki örugg og fer mjög eftir árferði. Ef viðurkennt er, að togarafélög megi vera til, þá þurfa þau að græða á betri árunum og varðveita fé sitt til þess svo að standa undir töpum erfiðari áranna. Hitt er annað mál, hvort heppilegt þykir að halda slíkum atvinnurekstri við, þ. e., hvort stórútgerð eigi að reka af slíkum félögum eða ekki. Það er atriði út af fyrir sig. Og þeirri spurningu þarf að svara. Eigi þau rétt á sér, þá þurfa þau að geta aflað fjár til þess að geta staðizt við að mæta töpum lakari ára. Eigi þau hins vegar ekki rétt á sér, þá á það réttleysi að sannast með allt annarri lagasetningu en hér er um að ræða. Það er athugandi, að meðan hér var fáskrúðugt um stóratvinnurekstur í landinu, þá þurfti lítið til gjaldþegnanna að leita um tekjur til ríkisins. Ríkið stóðst sín útgjöld, þó að framlög til ríkissjóðs væru lág. En nú hefst ríkið og félög og einstaklingar mikið að, svo að það gildir nú að velta háum upphæðum. Þess vegna þurfa ríkinu að vera vísir tekjustofnar. Og það má ekki rýra aðstöðu félaga og einstaklinga um of til þess að geta staðið undir greiðslum til ríkissjóðs. Þetta er þá aðgætandi í sambandi við togarafélögin líka, til þess að hægt sé að leita enn betur til þeirra, þegar virkilega brýna nauðsyn ber til að afla fjár af því opinbera. Það hljóta allir að vera sammála um þetta, sem eru sammála um það, að það eigi að leita fjárins hjá einstaklingum og fyrirtækjum, sem á annað borð eru efnuð, og að það verði þá ekki eins og að fara í geitarhús að leita ullar, að koma til þeirra til þess að fá tekjur fyrir ríkið. Þeir, sem eru á annarri skoðun, sem sé, að ríkið eigi að græða og veita svo aftur fé til ýmissa hluta, þeir mega ekki blanda þannig saman málum, að þeir geri sér það ekki ljóst, að þeir miða við allt annað þjóðskipulag en við búum við. Þeir miða þá að meira eða minna leyti við það þjóðskipulag, þar sem ríkið á að vera eigandinn að verðmætunum. Og ef miða á við það, þá á bara að taka málið þannig alveg, en vera ekki með neitt slíkt hálfkák, sem hér er á ferð.

Af þessum höfuðástæðum, sem ég hef greint, en ekki af hlífð við þá, sem hér er um að ræða og lagt er til, að greiði þennan skatt, ef þeir eiga slíkt fé til, sem sanngjarnt er að taka í þann skatt, þegar á slíku þarf að halda, — þá tel ég varhugavert að samþ. þetta frv., eins og það liggur hér fyrir. Enda mun ekkert ákvæði frv., — þegar að því kæmi, að taka þyrfti slíkan skatt af knýjandi ástæðum, — miðast við það.