13.12.1943
Efri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (2993)

3. mál, eignaraukaskattur

Eiríkur Einarsson:

Ég vona, að það verði ekki til að vekja miklar umr., þó að ég hafi orðið til þess að kveðja mér hljóðs, en ég kunni betur við það, af því að ég flyt brtt. við frv., á þskj. 638, sem hefur ekki áður verið rædd. Að vísu er það svo, að við umr. um þetta mál hef ég í fáum orðum lýst afstöðu minni til þess. Ég tel þá vankanta á því, að ég treysti mér ekki til að fylgja því, en ef það ætti fyrir frv. að liggja að verða samþ. hér, er vitanlega betra frá sjónarmiði hvers og eins, að það skárra gangi fram en það lakara, en ég tel brtt. mína miða í þá átt, að um réttmætari ákvörðun sé að ræða, að því er snertir 5. gr., en er í frv. eins og það liggur fyrir nú. Það virðist hafa verið höfuðatriðið, þegar þetta frv. var samið, að ná þessum skatti af hinum væntanlegu greiðendum. Hitt sýnist svo vera eins konar aukaatriði, hvernig eigi að verja honum, enda er það handahófslegt í frv. og allt til eyðslu jafnóðum.

Frá mínu sjónarmiði er skattinum langsanngjarnlegast varið eins og verða mundi samkv. till. minni. Það veltur hér svo margur og stór peningur, að hætt er við, þegar stríðinu lýkur, að svo fari sem margir óttast, að sjóðirnir reynist ekki svo digrir, að við þurfum ekki á öllu okkar að halda og eiga þær máttarstoðir, sem geta staðið undir áföllum. Ef rýra á þær stoðir fyrir fram með því að leggja á þennan skatt, ætti að geyma það fé til að mæta væntanlegum örðugleikum. Það mun koma á daginn seinna, að þetta er rétt hugsað. Ég segi í till. minni, að fénu skuli varið að styrjöldinni lokinni samkv. ákvörðun Alþ. þá. Nánar er ekki hægt að segja. Það er Alþingis að ákveða, þegar þar að kemur.

Það mætti margt fleira um þetta segja, en ég vil ekki teygja úr umr. Ég vænti, að brtt. mín verði samþ., hvað sem frv. líður að öðru leyti.