26.10.1943
Neðri deild: 38. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

18. mál, ríkisreikningur 1940

Jakob Möller:

Hv. 4. þm. Reykv. hefur ekki tekið eftir, að ég sló því föstu, að þessar greiðslur úr ríkissjóði væru greiddar samkvæmt heimild í l. um lögreglumenn, þar sem ríkisstj. er falið að sjá um útbúnað lögreglunnar. Þm. las þetta sjálfur upp, og hann veit, að það er ýmis kostnaður, sem greiddur er úr ríkissjóði, sem sérstök fjárlagaheimild er ekki fyrir, og ýmiss konar greiðslur í sambandi við starfrækslu ríkisins, sem sjálfsagt er að greiða, án þess að séu jafnvel eins skýr ákvæði um þær og eru um útbúnað lögreglunnar. Alþ. getur því engu um kennt nema sjálfu sér, ef það er óánægt með, hvernig þessu er háttað, og það er því á valdi þess að gera þessi ákvæði augljósari, og er síður en svo, að ég sé á móti því.