12.10.1943
Neðri deild: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Jörundur Brynjólfsson:

Það mætti ætla eftir umr., að hér færi fram eldhúsdagur, því að ég þykist ekki með mínum ummælum hafa gefið tilefni til slíks. Það ætti að vera betra að velja sér annað tækifæri en þetta til eldhúsdagsumr. og þá um þau atriði, sem helzt hafa fram komið í pólitískum deilum í landinu. Ég mun að mestu leiða slíkt hjá mér, því að bæði er, að við dm. mundum verða jafnnær, þegar hætt væri slíkum leik, og í öðru lagi efast ég um, að þetta mál græði nokkuð á því. Mér fannst því mikill hluti ræðu hv. þm. N.-Ísf. eiga lítið erindi í þessar umr. og hvorki vera upplýsandi fyrir málið né veita því nokkurt gildi. Hann lítur öðrum augum á og verður efalaust fyrir vonbrigðum út af því að geta ekki teygt mig inn á þann vettvang, sem hann er búinn að hasla mér völl á. Ég mun síðar koma að hans ræðu, en vík nú að öðrum ræðumönnum.

Ég þóttist ekki hafa gefið tilefni til, að afstaða allshn. væri misskilin. Mér láðist að vísu að geta um, — sem ég sé nú að réttara hefði verið, — að hv. 2. landsk. þm. lýsti yfir því í n., að hann mundi greiða atkv. með till. eins og till. hv. þm. N.-Ísf. Um afstöðuna til till. hv. þm. Snæf. tók ég beint fram, og ætla ég, þegar á þetta er litið, að rétt hafi verið hermt hjá mér.

Mér fannst á hv. þm. Snæf., að hann eiginlega vilja réttlæta afstöðu sína með þessari brtt., af því að lögreglustjóri mundi hafa látið einhverja menn hætta störfum, án þess að ástæða væri til, og því væri rétt að hafa þessa aðferð, sem er mjög óvenjuleg á þ. Út í þau atriði, sem hann veik að, skal ég ekki fara nánar. Ég hef ekki kunnugleika á þeim, en vil skírskota til dómsmrh. um starf mannsins. Það álít ég öruggast og vissast.

Hv. 2. landsk. þm. veik að því, að sér þætti meira en lítið óviðfelldið, að lögreglunni væri kennt að fara með vopn. Þegar lögreglan fór að hafa yfir vopnum að ráða, vakti það fyrir mönnum, að það gæti verið óhjákvæmilegt, ekki vegna lögreglunnar, heldur vegna öryggis þegnanna í landinu gagnvart ofbeldi og uppivöðslusemi. Það má segja með sanni, að hingað til hafa Íslendingar verið löghlýðnir í þessum efnum, enda eiga hér fleiri hlut að máli en landsins eigin börn. Er þess skemmst að minnast, þegar lögreglan varð að fara með vopnavaldi til að halda útlendingum í skefjum. Áhöfn á útlendu skipi hafði neitað að hlýða lögum landsins. Þess konar atburðir geta ætíð gerzt, og er ekki ólíklegt, að þeir kunni hér eftir frekar að geta gerzt en hingað til. Þá hefur og eitthvað af þessu tagi komið fyrir á meðal okkar sjálfra, en þeir menn, sem að hafa staðið, eru fullkomin undantekning frá hinum almennu borgurum landsins. Það getur því verið nauðsynlegt að grípa til vopna undir vissum og óvenjulegum kringumstæðum, og þá segir sig sjálft, að þeir, sem með þau fara, þurfa að kunna að nota þau, svo að ekki leiði til skaða og ógæfu. Ég held því, að þó að mönnum þyki óviðfelldið að tala um vopnaburð, sé langsamlega bezt, ef til slíkra óyndisúrræða þarf að grípa, að lögreglan kunni með vopnin að fara.

Hv. þm. N.-Ísf. veik að því, hvernig embættið var veitt. Ég gat um það áður, með hverju móti sú veiting hefði farið fram, og þarf ekki að endurtaka það. Hann viðurkenndi, að veitingin hefði farið fram l. samkvæmt, en það, sem hann leggur mest upp úr, er að embættinu var ekki slegið upp. Ég veit, að hv. þm. N.-Ísf. er mér sammála um, að það er ekki endilega víst, þó að embætti sé slegið upp, að það sé sá, sem sjálfsagður er til starfsins, er það hlýtur. Leiti hann í huga sér, sér hann, að slíkt hefur komið fyrir, svo að þarna er engin trygging út af fyrir sig.

Hv. þm. segir, að Alþ. sé ekki sjálfu sér samkvæmt, ef það setur þetta ákvæði í frv. nú og lætur ekki núverandi lögreglustjóra fara frá. Þetta er fjarri öllu lagi. Áður var það ákvæði í 1., að þessi embættismaður þyrfti að hafa lögfræðimenntun. Því er breytt. Síðan fær veitingu maður, sem hefur ekki lögfræðipróf, en hefur svo mikilvæga þekkingu á öðrum sviðum, sem til starfsins þarf, að talið er rétt að veita honum það, með samkomulagi innan ríkisstj., eins og komið hefur fram opinberlega. Þó að Alþ. breyti síðan l. svo, að þessi embættismaður þurfi að hafa lögfræðimenntun, auk margra nýrra skilyrða, sem áður hafa ekki í l. verið, er þá nokkur ósamkvæmni í því, þó að þessi embættismaður, sem á löglegan hátt var skipaður í embættið og reynzt hefur dugandi maður, verði ekki samstundis látinn fara úr embættinu? Rökum hv. þm. mætti eins snúa við. Ef Alþ. samþ. brtt. hans og lætur embættismanninn fara frá, sýnir Alþ. ósamkvæmni. Það er áður búið að veita heimild til þess, að með þessum hætti megi veita embættið, en ætlar að láta þann embættismann fara frá, þegar ný skilyrði koma inn í l. Þetta væri ósamkvæmni, og það sér hv. þm. N.-Ísf., þegar hann hugsar sig betur um. Hann vildi skýra brtt. sína svo, að hún væri nokkurs konar mótmæli gegn ranglátum og hættulegum embættaveitingum. Hún hefur þá annað í sér fólgið líka, nefnilega lykil að óheppilegri meðferð Alþ. gagnvart embættismönnum landsins.

Eins og ég sagði í byrjun máls míns, ætla ég að leiða hjá mér að fara út í pólitískar deilur milli flokka og blaðaskammir, því að hvorugur okkar þm. N.-Ísf. græðir á því, né heldur eykst vegur þ., þó að við förum að tíunda ýmislegt fram á báða bóga sem dæmi upp á það, hve flokkum og blaðamennsku er áfátt. Hitt væri æskilegra og honum vonandi líka hugþekkara, ef hugsa mætti til þess, að blaðaviðureign yrði með fullum drengskap og svo, að upp úr henni mætti leggja.