22.11.1943
Efri deild: 53. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Bernharð Stefánsson:

Sérstaða mín í n. var í fyrsta lagi sú, að ég vildi ekki taka neina afstöðu til þess, hvernig fara skyldi með núv. lögreglustjóra, ef frv. yrði samþ. Ég efast um, að það hafi mikið gildi, sem n. segir í nál. um þetta. Ég tel mig ekki bæran að segja ríkisstj. fyrir um framkvæmd lagagr., nema þingviljinn komi beint fram í gr. sjálfum. Það er dómsmrh. að ráða þar fram úr á sínum tíma.

Þó að ég ráði til að samþ. frv. óbreytt, er ég að því leyti sammála hv. 6. þm. Reykv. (BBen), að ég tel ekki nauðsynlegt, að lögreglustjóri hafi lögfræðimenntun, eins og nú er komið, og mundi hafa greitt brtt. hans atkv. og jafnvel flutt hana með honum, ef hann hefði ekki tekið þar meira með. En ekki sakar, að þessi embættismaður sé lögfræðingur auk annars, sem hann þarf að uppfylla. Búast má þó við, að erfitt verði í bili að fá mann, sem fullnægi öllum skilyrðum. Ég ætla ekki að fara að ræða persónu þess manns, sem nú er í embættinu, eins og sumir hafa gert. En þegar hann var skipaður, mun ráðh. hafa talið hann hafa þá menntun, sem þarna gæti komið að mestu liði, við stjórn lögreglunnar, liðsforingjamenntun, og hafði ráðh. áður leitað til annars manns með liðsforingjamenntun, þótt sá maður færðist undan starfinu. Þrátt fyrir þessa skoðun mína get ég fylgt frv. óbreyttu, þar sem lögfræðimenntun mun sízt saka.