10.01.1945
Neðri deild: 101. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

217. mál, skipun læknishéraða

Jakob Möller:

Ég hef hér með höndum skrifl. brtt. við þetta frv., sem ég tel heppilegt, að komi fram við þessa umr. málsins, þannig að hún liggi fyrir milli umr., en mun hins vegar ekki óska eftir, að atkvgr. fari fram um hana fyrr en við 3. umr. Það mun þurfa afbrigði fyrir þessari brtt., en síðan vænti ég, að hv. n. taki brtt. til athugunar.

Till. snertir skipun 2 læknishéraða, Álafoss- og Reykjavíkurlæknishéraðs, og er þess efnis, að til Alafosshéraðs leggist sá hluti Reykjavíkurkaupstaðar, sem lagður var til lögsagnarumdæmis Reykjavíkur með l. nr. 52 1943, Seltjarnarneshreppur fyrir ofan Elliðaár, Mosfellshreppur, Kjósarhreppur, Kjalarneshreppur og Þingvallasveit. Samkv. frv. er ætlazt til, að nokkur hluti gamla Kjósarlæknishéraðsins sé lagt við Reykjavíkurlæknishérað samkv. breyt. á lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, en þessi hluti Mosfellssveitar er, eins og nú standa sakir, í raun og veru læknislaus, vegna þess að héraðslæknirinn í Reykjavík getur ekki og má ekki gegna læknisstörfum. Reykjavíkurlæknishérað er því læknislaust. Eins og kunnugt er, er Reykjavík sjálfri séð fyrir læknishjálp af praktiserandi læknum, en þessar sveitabyggðir utan við gamla læknisumdæmið verða óhjákvæmilega sama sem læknislausar. Þess vegna tel ég, og ég held allir þeir menn, sem athuga þetta mál, að nauðsynlegt sé að leggja þetta svæði aftur til hins gamla læknishéraðs. Enn fremur er lagt til og talið miklu eðlilegra, að Seltjarnarneshreppur, sem einn hefur með þessum l. frá 1944 verið lagður við Reykjavíkurlæknishérað, heyri því læknishéraði til.

Ég sé ekki að svo stöddu ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Brtt. kemur fram prentuð á þskj., svo að allir þm. hafi kost á að sjá hana.