21.02.1945
Neðri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég skal gera mjög stutta grein fyrir afstöðu minni.

Það er þá fyrst til máls að taka, að það er höfuðnauðsyn að auka kaupskipastól landsmanna stórlega, og þessi nauðsyn hefur nú orðið því berari, sem svo hefur til tekizt, að tvö af beztu skipum siglingaflotans eru nú glötuð. Það, sem er þá spurningin í þessu máli, er: Hvaða aðili á að annast um þessa óumflýjanlegu aukningu flotans?

Ég dreg enga dul á það, að frá mínu sjónarmiði væri æskilegast og réttast, að það væri ríkið sjálft. En hitt er alþjóð kunnugt, að flokkur sá, sem ég fylgi, hefur gert samkomulag við aðra flokka, sem að ríkisstj. standa, að gera ekki svo mjög að ágreiningsefni, hvaða aðilar það væru, sem stæðu að nauðsynlegum endurbótum og nýsköpun atvinnulífsins, heldur lagt á það áherzlu, að nýsköpunin ætti sér stað. Það er því í fullu samræmi við þetta, að við getum fallizt á það, að Eimskipafél. Íslands verði nú gert kleift og raunverulega falið að auka kaupskipastól landsmanna svo sem verða má á allra næstu árum. Ég vek sérstaka athygli á því, að nú, begar lagt er til að framlengja skattfrelsi Eimskipafélagsins, kemur nýtt ákvæði, sem ekki hefur sézt áður, um það, að það fé, sem félagið fær vegna þessara fríðinda, verði notað til þess að kaupa skip til samgöngubóta.

Ég skal svo víkja örfáum orðum að málæði hv. þm. V.-Húnv. Hann leitast við að ræða þetta mál á allt öðrum grundvelli en fyrir liggur. Hann talaði um álag Eimskipafélagsins og þann óhæfilega gróða, sem því hefði hlotnazt, slælegt eftirlit og stjórn félagsins, sem lítt væri í samræmi við alþjóðarhag.

Ég vil fyrst á það minna, að það er upplýst, að fél. hefur notið skattfrelsis í 20 ár, og hverjir voru það, sem að því stóðu fyrst og fremst? Hverjir hafa verið ráðamestir í stjórnmálum og stórmálum undanfarin ár? Engir aðrir en framsóknarmenn, flokksmenn hv. þm. V.-Húnv., og sjálfur hefur hann setið á rökstólunum og fjallað um þetta mál, en fyrir því skattfrelsi, sem framsóknarmenn stóðu að, voru engin skilyrði sett. Fél. var veitt skattfrelsi, en ekkert spurt um, hvernig því fé væri varið, sem þannig sparaðist. Það var ekki hugsað um, að féð yrði notað til þess að auka skipastólinn eða verða alþjóð til hagsbóta á neinn hátt. Í sambandi við þetta get ég ekki látið hjá líða að minnast á afstöðu annarrar mjög virðulegrar stofnunar í þjóðfélaginu, sem þm. V.-Húnv. og aðrir framsóknarmenn hafa mjög um fjallað og miklu um ráðið, en þar á ég við S.Í.S. Oft og einatt hefur það komið fram hjá félagsmönnum í S.Í.S., að rétt væri og sjálfsagt, að þetta mikla verzlunarfyrirtæki ætti skip til þess að flytja vörur til landsins í samkeppni við Eimskipafélagið.

Úr framkvæmdum hefur þó ekki orðið, vegna þess að framsóknarmenn, undir forustu hv. þm. V.-Húnv. og fleiri manna, hafa jafnan eytt málinu. Síðast, þegar um þetta mál var spurt, var það upplýst, að ekki væri rétt, að S.Í.S. stofnaði til samkeppni við Eimskipafélagið. Þannig hefur afstaða Framsfl. verið gagnvart Eimskipafélaginu. Því hefur verið veitt skattfrelsi skilyrðislaust, og flokkurinn hefur komið í veg fyrir, að stofnað væri til eðlilegrar samkeppni við það, og komið í veg fyrir, að neytendur í landinu, sem standa að S.Í.S., mættu sjálfir flytja eigin vörur með eigin skipum. Það er kunnugt, að valdamesti maðurinn innan S.Í.S. hefur, í stað þess að beita sér fyrir þessu þjóðþrifamáli, setið í stjórn Eimskipafélags Ísl., tilkvaddur af hálfu framsóknarmanna og beitir sér fyrir því, að Eimskipafél. hafi skattfrelsi og einokunaraðstöðu um alla flutninga. Svo líður og bíður. Undir þeirri stjórn, sem situr í Eimskipafél., þar sem einn af valdamestu framsóknarmönnunum á sæti, gerist það, að álagið á farmgjöldum verður svo óhæfilega hátt, að fram úr öllu hófi keyrir. Þá er við völd stjórn, sem má telja framsóknarstjórn. Valdamesti maðurinn í stjórninni var miðstjórnarmaður í Framsfl., Vilhjálmur Þór. Undir tvö- og þrefaldri stjórn framsóknarmanna, Jóns Árnasonar í Eimskipafél., Vilhj. Þór í ráðhernasæti og Svanbjörns Frímannssonar í verðlagsráði, viðgengst mesta hneyksli, þar sem misnotuð er aðstaða Eimskipafél. á þann hátt að leggja óhæfilega á vörur landsmanna og auka þannig verð erlendra vara stórkostlega.

Þessu hefur nú verið kippt í lag. Farmgjöldin hafa verið lækkuð, og það mun fyrirbyggt, að slíkar álögur eigi sér stað framvegis.

Ég skal nú ekki lengur rekja afstöðu framsóknarmanna til þessara mála fyrr og síðar. Ég get aðeins bætt því við, að ef þeir hefðu valdaaðstöðu á þ. núna, þá er það eins víst og 2 og 2 eru 4, að þeir stæðu allir með skattfrelsi Eimskipafél. og mundu væntanlega eins og áður gleyma að setja nokkur skilyrði um not fjárins til þess að bæta úr brýnni þörf á fleiri skipum og bættum samgöngum.

Ég ætla að síðustu að segja hv. þm. V.-Húnv. það, að ég mun ekki taka afstöðu til þessa máls eins og hann, eftir einhverju orðakasti og fleipri. Ég hef gert grein fyrir því, að ég mun fylgja því fram hér á þ. með þeim breyt., sem kynni að verða samkomulag um með þeim, sem stjórnina styðja, en ég mun sízt þiggja ráð hjá framsóknarmönnum og ekki frekar hjá hv. þm. V.-Húnv. en öðrum.