26.02.1944
Efri deild: 16. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

50. mál, atkvæðagreiðsla um niðurfellingu dansk-íslenzka sambandslagasamningsins og lýðveldisstjórnarskrár Ís

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Frv. það, er hér liggur fyrir, hefur að tilhlutan lýðveldisnefndar verið samið af dómsmálaráðherra. Síðan hefur það verið hjá stjórnarskrárnefnd og hlotið nokkrar breytingar og er nú þannig breytt flutt af stjskrn. hv. deildar.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um frv. Það er sniðið eftir kosningalögum og vikið þar frá, sem eðlilegt sýnist vera.

Aðalbreytingar eru þær, að kjördagar skulu vera fleiri en einn, eða allt að 4 — mega þó vera færri, ef atkvæðamagn er orðið yfir 80%. Þá er og gert ráð fyrir, að heimakosningar — eigi sér stað með víðtækari hætti en almennt gerist og venja hefur verið. Segir svo í 8. gr. frv.

„Þeir, er sakir sjúkdóms, ellihrörnunar eða óhjákvæmilegra heimilisanna geta eigi, samkvæmt drengskaparyfirlýsingu sinni og vottorði hreppstjóra í sveitum og oddvita yfirkjörstjórnar í kaupstöðum eða fulltrúa hans, farið af heimili sínu eða dvalarstað til atkvæðagreiðslu, mega greiða þar atkvæði, enda fari sú atkvgr. fram síðustu viku fyrir fyrsta kjördag eða í síðasta lagi á kjördegi.“

Svo víðtæk heimakosning er undantekning frá því, sem nú er venja. Þó má finna svipað ákvæði frá því 1913, og er það þó ekki jafnvíðtækt. En rétt þykir að láta veikindi ekki hamla því, að menn geti greitt atkvæði í svo mikilsverðu máli. Fyrir þessu er gert ráð strax í sambandslagasamningnum 1918. En þar segir svo:

„Fyrir þeim, sem hræddir eru við kröfuna um hluttökuna, mun það vaka, að atkvgr. þurfi að haga eins og nú er hagað atkvæðagreiðslu við kosningar til Alþingis. Og ef svo væri, væri þá sönnu nær, að svo mikil hluttaka gæti verið erfiðleikum bundin í víðlendum hreppum, eftir að bæði konur og hjú hafa fengið atkvæðisrétt. En það er alger misskilningur, að atkvæðagreiðslan eftir 18. gr. þurfi að fara fram með þeim hætti. Íslenzka ríkinu er alveg í sjálfsvald sett, hvernig það hagar henni, því að í 18. gr. er þess aðeins krafizt, að þátttakan í atkvæðagreiðslunni sé svo sem þar segir, en engin skilyrði sett um það, hvernig henni skuli hagað. Það má því setja svo marga kjörstaði í hverjum hreppi sem þurfa þykir, til þess að allir geti sótt. Einnig má láta hvern kjósanda greiða atkvæði á heimili sínu eða þar, sem hann er staddur, og er slíkt sjálfsagt um þá, sem eigi eru heimanfærir eða utan hrepps síns eða kaupstaðar.

Svo má og taka fleiri en einn dag til atkvgr., svo að menn mættu fara til skiptis hver af sínu heimili. Og loks, ef eigi þætti enn nægilega tryggt, mætti skylda menn til að greiða atkvæði, að viðlögðum háum sektum eða réttindamissi, svo sem dæmi eru til í Belgíu, á Spáni, í sumum sambandsríkjum í Svisslandi og víðar.“

Við sjáum, að hér hefur ekki verið gengið eins langt og þarna er gert ráð fyrir. Verður því ekki sagt, að hér sé um neitt óviðeigandi aðferð að ræða. Það var ekki ætlun okkar, að þetta yrði afgr. frá deildinni fyrr en lýðveldisstjórnarskráin hefði verið samþ. Til þess þarf því að gera lítils háttar breyt., og mætti gera till. þar um, til þess að tefja ekki málið.