04.03.1944
Neðri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (1440)

62. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sveinbjörn Högnason:

Stjórn Mjólkursamsölunnar hafði óskað þess, að frv. yrði flutt eitthvað svipað þessu til þess að skera úr um það, að hægt sé að halda uppi verðjöfnun þrátt fyrir það, sem samþ. var í sex manná n. En eins og gefur að skilja, kemur það ekki ljóst fram í áliti sex manna n., eins og formaður hennar skýrir frá í bréfi því, sem hv. 2. þm. Skagf. las. Form. n. hefur ekki talið það í sínum verkahring að skipta sér af því, hver verðjöfnunin væri, og þar af leiðandi er nauðsynlegt fyrir þessar stofnanir, sem nú eru að gera upp reikninga sína, að geta alveg ákveðið vitað um, hvort verðjöfnunin er í gildi eða hvort sama verð eigi að vera. fyrir 1. og 4. flokk o.s.frv. Gátu þá stjórnir þessara fyrirtækja átt á hættu, ef þær gerðu upp með öðru móti, að fá á sig málshöfðun samkv. því, sem ákveðið var í samkomulagi sex manna n. Þetta er svo augljóst mál sem verða má. Það getur engum blandazt hugur um, að verðjöfnunina verður að framkvæma eftir sem áður, eins og hún hefur verið ákveðin í l. Það hefur aldrei verið til annars ætlazt, og því er nauðsynlegt að fá þetta skýrt ákveðið í l. um dýrtíðarráðstafanir.

Hv. þm. Hafnf. var að tala um það, að hann hefði ekki getað gerzt meðflm. að þessari breyt. í landbn., vegna þess að hann vildi ekki koma nálægt neinu, sem frá sex manna n. hefði komið; það væri svo óljóst. En mér virðist ósamræmi í því, að hann skuli ekki vilja gera þessi ákvæði skýrari en þau eru hjá sex manna n.

Ég vil að öðru leyti benda á það, að í þessu frv. stendur „mjólkursamsölusvæði“, en það er ekki það orð, sem notað er í l., heldur „mjólkurverðjöfnunarsvæði.“ Ég vildi spyrja hæstv. forseta, hvort ekki væri hægt að skoða þetta sem leiðréttingu, enda get ég lagt fram brtt. um þetta, ef þurfa þykir.