09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

66. mál, barnaspítali

Haraldur Guðmundsson:

Ég vildi aðeins taka það fram, ef þessu máli verður vísað til n., að ég er í höfuðatriðum sammála hæstv. fjmrh. um það, að hér sé gengið inn á skakka braut með þessu frv.

Það er greinilegt, að í sumum tilfellum er hér um að ræða, að í staðinn fyrir, að hið opinbera taki fyrst í skatta það, sem því ber af tekjum manna, og ráðstafi því svo, geta skattgreiðendur nú ráðstafað fé, sem ríkissjóði í raun og veru ber, eins og þeim sjálfum sýnist. Þetta er framhald af því, er samþ. var hér á síðasta þingi, og er enginn vafi á því, að verði þetta frv. samþ., mun koma í kjölfarið mjög mikið af hliðstæðum tilmælum. Mér þykir þó rétt að láta það koma fram, að ég tel nauðsyn á því, að slíkur barnaspítali komist hér á fót, sem kvenfélagið Hringurinn hefur beitt sér fyrir. Hins vegar álít ég þá leið sæmilega, að ríkissjóður taki inn sínar skatttekjur og leggi svo fram fé úr sínum sjóði til þess að koma slíkum fyrirtækjum á fót, en er mótfallinn þeirri leið, er hér um ræðir.