25.02.1944
Neðri deild: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Dómsmrh. (Einar Arnórsson):

Herra forseti. Ríkisstj. hefur unnið að þessu máli með stjskrn. beggja d., og tel ég eðlilegt, að frá stj. falli nokkur orð um frv. og það verk, sem unnið hefur verið.

Þingheimur afgr. hér í dag og samþ. þáltill. um niðurfellingu, sambandssáttmálans. Þar með var stigið fyrsta sporið til niðurfellingar þess samnings eða slitanna við Dani. En með því var ekki ráðið til lykta þeirri spurningu, hvernig haga skyldi stjórn íslenzka ríkisins, eftir að þau sambandsslit hafa farið fram.

Það hefur verið talað um, að konungssambandið væri ekki niður fallið með sambandslögunum, en sumir hafa sagt, að það væri fallið niður með þeim, eins og danskur rithöfundur einn hefur haldið fram. En hér hefur verið haldið fram þeirri skoðun, að svo væri ekki.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um, hvaða rétt við höfum til að ráða sjálfir stjórn innanlandsmála okkar. Okkur hefur lengi fundizt óeðlilegt, að æðsta stjórnarvald okkar mála væri langt burtu í öðrum löndum, 300 mílur hefur verið sagt, og mér hefur fundizt að ýmsu leyti óánægjulegt að verða að fara af landi burt með l. og önnur stjórnarerindi til þjóðar, sem í seinni tíð hefur að vísu verið okkur vinveitt — og skyld að mörgu leyti, en talar þó aðra tungu og hefur sumpart aðra menningu, og til þjóðhöfðingja, sem talar ekki tungu okkar og skilur okkur ekki svo vel sem við vildum, þó að ýmsir þeirra hafi verið mikilhæfir menn. Um siðferðilega réttinn hefur verið mikið talað, og þarf ég ekki miklu að bæta við það.

Ég vil taka fram til að árétta þetta, að það raunverulega ástand, sem hefur nú verið í fjögur ár, hefur styrkt þá sannfæringu hjá mér, að það geti ekki komið til mála, að við förum nú að afhenda það vald ótilneyddir burt frá okkur til þjóðhöfðingja í framandi landi. Mér finnst það svo mikil fjarstæða, að ég get ekki hugsað til þess. Ég geri ráð fyrir, að sambandsþjóð okkar, sem verið hefur, og forystumenn hennar og þar með þjóðhöfðingi hennar skilji einnig glöggt þá hugsun okkar og sársauka, sem við mundum finna til, ef við ættum aftur að búa við það ástand.

Loks vil ég geta þess, að mér skilst, að lagaréttur okkar, júridíski rétturinn til að ákveða, hvort við viljum hafa sameiginlegan konung við Dani, sé nokkurn veginn glöggur. — Við höfum heyrt stundum, að við gætum ekki skipt um þetta stjórnarform nema með samþykki þess, sem með æðsta framkvæmdavaldið fer, eða þá með byltingu. Hv. 4. þm. Reykv. vék að því, að það væri æskilegt, að stj. reyndi að ná sambandi við þjóðhöfðingja okkar, sem var, að afstaðinni atkvgr. um þál. og stjskr., þegar þar að kemur. Má vera, að það sé hægt. Ég efast ekki um, að skjótt muni berast fréttir til Svíþjóðar frá Íslandi um ályktanir þær, sem hér hafa verið gerðar, bæði þál. og einnig afgreiðslu stjskr., þegar þar að kemur, að því leyti góðar fyrir okkur, að allur þingheimur undantekningarlaust sé samhuga um málið. Hann hefur þegar sýnt það við atkvgr. um þál., og væntanlega greiða einnig allir stjskr. atkv., þegar hún verður afgr. frá þinginu. Þess er líka að vænta, þegar nú er komið á samkomulag við forystumenn Alþfl. um afgreiðslu málsins, að svo algerlega yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar verði fylgjandi málinu. Það kann að vera, að ekki komi eintóm já, það getur verið, að komi einhver nei, en að þau verði a.m.k. mjög fá. Og þegar svo er komið, þá þætti mér ekki óskynsamlega til getið, að konungur og hans menn í Danmörku, sem hann getur væntanlega ráðfært sig við, mundu telja eðlilegt og sjálfsagt; að því væri svarað af þeirra hálfu, að ekkert væri því til fyrirstöðu frá þeirra hendi, að við ákvæðum þetta, eftir því sem við vildum. Mér finnst, að þetta væri það langskynsamlegasta, ég vil segja það eina skynsamlega. En jafnvel þó að þetta svar kæmi ekki, virðist mér, að þegar sambandsslit hafa orðið milli landanna samkvæmt þáltill., sem hér var samþ., þá sé það líka að lögum í hendi okkar, hvernig við skipum æðstu stj. landsins. Þá eru orðin sambandsslit milli ríkjanna, og í 5. gr. stjskr. stendur, að konungur geti ekki verið þjóðhöfðingi í öðrum löndum án samþykkis Alþ., og það er engum vafa undirorpið, að danska þingið getur sagt við konung, að hann fái ekki að vera konungur á Íslandi án samþykkis þingsins, og við getum eins sagt, að konungur geti ekki verið konungur annars staðar en á Íslandi án samþykkis þingsins. Nú er það sjálfgefið, að konungur mun fremur kjósa að vera konungur yfir Danmörku en Íslandi einu, svo að af þeirri ástæðu mundi það spursmál leysast, að því er mér skilst.

Ég endurtek það, að'mér finnst svo sjálfsagður sá siðferðilegi réttur, sem við höfum til að ráða sjálfir, hvernig stjórnarform við höfum framvegis.

Þá vil ég minnast á nokkur atriði þeirra till., sem hér liggja fyrir.

Höfuðbrtt. við frv., eins og það er lagt fram hér í þessari d., er auðvitað forsetakjörið. Það er þungamiðja í breyt. á frv. Eins og stjskrn. skilaði því, er svo ákveðið, að forseti skuli vera kjörinn af Alþ. Í drögum að brtt., sem stj. samdi og lagði fyrir n., var gerð sú höfuðbreyt., að forseti skyldi þjóðkjörinn, og a. m. k. meiri hl. n. hefur tekið þá brtt. upp, að vísu ekki að öllu leyti eins og stj. hafði hugsað sér. Í till. stj. var lagt til, að sá, sem flest atkv. fengi, yrði kjörinn forseti, og varð það ofan á í n., þó að fleiri leiðir mætti fara. Þar er líka lagt til, að kjörtímabilið skuli vera fjögur ár. Sumir hafa hugsað sér árin sex eða sjö, en n. leggur til, einróma að því er virðist, að það skuli ekki vera lengra en fjögur ár.

Viðvíkjandi lausn forseta frá störfum hefur líka verið breytt frá því, sem stendur í frv., eins og það var lagt fyrir. Fer ég ekki nánar út í það.

Þá mun vera ákvæði í 26. gr. frv., sem ýmsir fella sig ekki við, að lög öðlist gildi þegar í stað, þó að forseti synji þeim staðfestingar, en bera skuli þau undir þjóðaratkv., og ef meiri hl. samþ.

þau ekki, þá skuli þau fallin úr gildi, annars öðlist l. gildi, enda þótt þau hljóti ekki staðfestingu forseta. Það er þetta atriði, að l. fái strax gildi, þó að forseti hafi synjað um staðfestingu, sem sumir fella sig ekki vel við, þegar enn er óráðið, hvort l. öðlast fullt gildi, heldur eigi að bíða, þar til þjóðaratkvgr. hefur farið fram. Geri ég ráð fyrir, að fram komi brtt. í þá átt.

Sumir hafa rekið sig á ýmis atriði í brtt., þar sem ekki þykir gæta fullkomins samræmis í orðalagi. Í 2. gr. er sagt, að „forseti Íslands“ skuli vera heiti æðsta þjóðhöfðingjans í staðinn fyrir „forseti lýðveldisins“. Samt sem áður stendur „forseti lýðveldisins“ óbreytt í allmörgum greinum frv. Ég get þessa n. til athugunar, hvort hún telji ástæðu til að gera hér breyt. til samræmis, þó að ég sé ekki í vafa um, að slíkt er aðeins spurning um stíl og samræmi.

Þá er það gildistökudagurinn. N. leggur til, að burt sé fellt að ákveða, að 17. júní skuli verða gildistökudagur stjskr., en í stað þess verði ákveðið, að stjskr. taki gildi, þegar þingið ákveður. Ég hef litið á þetta sem formsbreyt. til samkomulags, og mér skildist, þegar þáltill. var til umr. í Sþ., að einskis manns hugsun væri í þá átt af þessum þremur flokkum, að nein breyt. yrði á því, þó að till. væri vísað til stj. Og í dag hef ég fengið glögga staðfestingu á því, þar sem þrír flokkar þingsins a.m.k. hafa sett sér eftir sem áður, að gildistökudagurinn skuli vera sá sami, 17. júní. Ég vona, að fjórði flokkurinn, Alþfl., og þeir alþingiskjósendur, sem þeim flokki fylgja, geti að lokum einnig fallizt á það sama. Ég vona, að atvikin hagi því svo, að stj. mun gera það, sem í hennar valdi stendur, til þess að svo megi verða.

Ég skal svo ekki hafa þetta mál lengra, en lýsi ánægju minni yfir því samkomulagi, sem orðið hefur, og vænti þess, að eftir samkomulag þingflokkanna komi einnig samkomulag kjósenda, að þeir standi saman allir sem einn maður í þessu máli, þegar til hinnar almennu atkvgr. kemur.