09.03.1944
Efri deild: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

66. mál, barnaspítali

Bernharð Stefánsson:

Mér þótti hv. síðasti ræðumaður bera hér sakir á hæstv. forseta Sþ., því að væru ummæli hans rétt, þá skil ég ekki í, að forseti hefði borið till. um Krýsuvíkurveginn undir atkv., heldur vísað henni frá. Annars sé ég ekki, að þetta komi nokkuð við því máli, sem er hér til umræðu.

Það er rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að málið hefði hér eindregið fylgi, a.m.k. eru allir dm. eindregið því fylgjandi að koma upp barnaspítala og veita því máli allan stuðning við fyrstu hentugleika. En þetta frv. hefur ekki eindregið fylgi allra dm. Ég tel, að Alþ. sé komið inn á mjög hála braut með því að samþ. þau réttindi, er vinnuhælið fékk í fyrra og nú stendur til að veita öðru mannúðarfyrirtæki. Ég tel þetta ekki hættulegt út af fyrir sig, heldur það, er sigla mun í kjölfarið.

Hv. þm. Barð. var að tala um gjafmildi Reykvíkinga sérstaklega og Íslendinga yfirleitt, sem væru fúsir til að leggja fram hjálp. Þetta er alveg rétt, og hafa þó gjafir manna ekki hingað til notið þeirra réttinda, sem hér er um að ræða. Ég óttast ekki, að gjafir hverfi úr sögunni, þótt þetta frv. yrði ekki að l. En hitt óttast ég, að ef þessu fer þannig fram, þá lendi það út í hreinustu öfgum. Það er reynslan á Alþ., að fái einn einhver sérstök réttindi, þá koma ótal fleiri og krefjast þeirra sömu, og ég er sannfærður um, að l. verða sett á hverju þingi um skattfrelsi gjafa til mannúðarfyrirtækja, ef ekkert er að gert.

Það er rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að fordæmið var gefið í fyrra. En það eru tímabundin l., og ef ekki væri haldið lengra út á þá braut, þá væri ekki lengur hægt að byggja á því fordæmi, er réttindin væru úr sögunni, sem þá voru veitt. Eðlilegast væri, að ríkið innheimti tekjur sínar á annan hátt. Skattalögin eru e.t.v. ósanngjörn, en þau eru ekki hér til umræðu. En þá er að breyta þeim. Ég sé nú ekki mikinn mun á að hlaupa undir bagga með einstaklingum, þegar út í þetta er komið, t.d. þegar slys ber að höndum, og hjálpa ekkjum og munaðarleysingjum á svipaðan hátt og hér er tilætlunin. En þó er gerður munur á þessu.

Ef á að vera inni á þessari braut á annað borð, þá væri nær að velja svipaða leið og ríkisstj. stakk upp á í fyrra, að veita almenna heimild um þetta, sem lægi svo undir samþykki ríkisstj. í hvert sinn. Að öðrum kosti virðist ekki annað sýnna en afgreidd verði ein eða tvenn l. árlega um þessi efni.

Ég ætla svo ekki að lengja mál mitt. Ég stend hér ekki upp til að reyna að sannfæra neinn af hv. dm., því að þeir eru hér ekki til að sannfærast. En ég tala hér til að lýsa því yfir, að ég viðurkenni ekki, að ég sé á móti því, að reistur verði barnaspítali, þótt ég sé á móti þessu frv., a.m.k. ef brtt. fjmrh. verður felld. Ég vil, að fjárveitingin til spítalans komi beint úr ríkissjóði, en ekki eftir þessum krókaleiðum.