26.02.1944
Neðri deild: 20. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. –Við 1. umr. þessa máls, þegar ég flutti það inn í þingið, gat ég þess, að stj. mundi bera fram nokkrar brtt. við frv. og meðal þeirra væri sú, sem kynni að lúta að valdi forseta. Stj. bar síðan fram við stjskrn. nokkrar brtt., og meðal þeirra var brtt. við 26. gr. frv., eins og mþn. hafði gengið frá því og stj. lagt það fyrir. Þessi brtt. hefur ekki náð samþykki í stjskrn. Ég verð að segja það, að þetta fellur mér og stj. heldur miður. Eins og efni lagagr. er, þá er það nokkuð óviðkunnanlegt, svo að vægt sé komizt að orði, og spurningin er um það, hversu heillavænlegt það er, eins og það er orðað í gr. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja hér brtt. við frv. í samræmi við þá till., sem kom frá ríkisstj. og lögð var fyrir stjskrn. Aðalatriðið og eina atriðið, sem máli skiptir, er spurningin um það, hvort frv., sem forsetinn hefur synjað staðfestingar, á að öðlast gildi allt að einu til bráðabirgða, þangað til þjóðaratkvgr. hefur skorið úr.

Það getur ekki leikið á tveim tungum, að þetta ákvæði kemur í bága við 2. gr. stjskrfrv., sem mælir svo fyrir, að Alþ. og forseti lýðveldisins fari saman með löggjafarvaldið. En auðvitað má segja sem svo, að þetta sé undantekningarákvæði frá aðalreglunni, og benda á, að þetta bráðabirgðaástand sé líkt ákvæði 28. gr. stjskr., þar sem ákveðið er, að gefa megi út brbl., og að því leyti séu bæði ákvæðin „parallel“ eða samhliða. Ég vil benda á, að í 28. gr. er aðeins um að ræða neyðarrétt fyrir löggjafarvaldið, og sá neyðarréttur birtist í því, að annar aðili löggjafarvaldsins er ekki tiltækur, en hins vegar brýn nauðsyn að gefa út lög. Á þessu byggist ákvæðið, og það fellur úr gildi, ef það er ekki samþ. af eftirfarandi Alþ. Hins vegar er þessi neyðarréttur ekki til í því tilfelli, sem um ræðir í 26. gr.

Forsetinn, annar þáttur löggjafarvaldsins, er alltaf við. Alþ. hefur sett sín lög, og forsetinn er til staðar. Í hinu tilfellinu hefur hinn þáttur löggjafarvaldsins, Alþ., ekki verið til staðar. Í báðum þessum tilfellum er það ekki vafamál, að hér skapast réttaróvissa til bráðabirgða. Þegar brbl. eru sett, skapast réttaróvissa um það, hvort framkvæmdarvaldið hefur farið rétt að ráði sínu, og ég veit, að Alþ. vakir vel yfir því, að framkvæmdarvaldið beiti ekki þessu valdi sínu nema í ýtrustu nauðsyn. Og þar sem sú stj., sem nú situr að völdum, hefur ekki fullt traust Alþ., þá reynir Alþ. að binda hendur þeirrar stj. eins fast og unnt er, vegna þess að það skapar réttaróvissu, er stj. gefur út brbl.

Eins er það ekki vafamál, að réttaróvissa skapast við það, að Alþ. eitt setur l., án þess að hinn þáttur löggjafarvaldsins standi að þeim. Þessi réttaróvissa gæti varað í fleiri mánuði, því að allt er undir því komið, hvernig hagar til um árstímann, hvað þetta bráðabirgðaástand stendur lengi yfir. Við skulum segja, að Alþ. setji l. í nóvembermánuði. Væri það tiltækilegt að bera þau undir þjóðaratkv. um miðjan vetur? Nei, það fengist engin vissa fyrir því, hvernig þjóðin tæki undir málið, fyrr en í apríl eða maí.

Nú er ég ekki svo kunnugur lýðveldisstjskr, annarra ríkja, að ég viti, hvort í þeim finnist nokkurt slíkt dæmi, að löggjafarþingið geti sett l., sem taki gildi strax, án þess að hinn aðili löggjafarvaldsins, forsetinn, ljái því aðstoð sína. Það er víst, að það lýðveldi, sem stendur með mestum blóma og er það stærsta, Bandaríkin, þau leyfa ekki, að l. frá þjóðþingi Bandaríkjanna skuli fá gildi til bráðabirgða, ef forseti synjar, heldur er sú aðferð viðhöfð, að synji forseti, skulu l. borin aftur undir þingið, og ef það samþ. þau að nýju með „kvalifíoeruðum“ eða auknum meiri hl., þá fyrst verða þau l.

Nú verð ég að segja, að eins og nú er gengið frá setningu l. eftir þessari stjskr. og gildandi stjskr., getur það verið áhættumikið að leyfa, að l., sem aðeins eru sett af öðrum þætti löggjafarvaldsins, öðlist gildi; þótt aðeins sé til bráðabirgða. Setjum svo, að lagafrv. komi í Sþ. Eins og Alþ. er nú skipað, þurfa 27 þm. að vera á fundi og taka þátt í atkvgr., en af þessum 27 þm. þurfa ekki fleiri en 2/3 að greiða frv. atkv., til þess að það sé orðið að l. Það eru sem sagt 19 þm. af 52 þm., sem geta sett l. á Alþ. Nú skulum við segja, að svona l., sem sett eru af Alþ., séu borin undir forseta og hann neiti að staðfesta þau. Þá leikur ekki vafi á því, að það skapar viðsjárverða réttaróvissu, ef slíkt lagafrv. skyldi samt vera í gildi óákveðna tölu mánaða.

Ég hef þess vegna leyft mér að bera fram þessa brtt., til þess að stjskrn. gæfist kostur á að athuga þetta ákvæði að nýju. Ég fyrir mitt leyti teldi, ef Alþ. gæti ekki fallizt á till. á þskj. 94, að fara mætti aðra leið, ef Alþ. setur l., sem forseti neitar, og hún er sú, að l. yrðu þegar í stað borin undir Alþ. aftur og krafizt „kvalifíseraðs“ eða aukins meiri hl. Ef forseti neitar nú í annað skipti að undirskrifa l., eftir að fenginn væri aukinn meiri hl., þá teldi ég ekkert varhugavert, að l. öðlist gildi, og þá mætti auðvitað enn fremur bera þau undir þjóðaratkv. Mér virðist, að með ákvæði 26. gr. frv. sé þáttur forsetans í löggjafarvaldinu settur svo lágt og honum gert svo lágt undir höfði,. að það sé jafnvel ekki fullsæmilegt. Ef þetta ákvæði stendur svona, að l. öðlist gildi, án þess að forseti hafi staðfest þau, er þáttur forsetans í löggjafarvaldinu orðinn aðeins formið eitt og ekkert annað. Og það er þó vissulega ekki meiningin, að þessi aðili, sem svo hátíðlega er kveðið á um í 2. gr. stjskr., að fara skuli með löggjafarvaldið ásamt Alþ., sé ekkert annað en verkfæri í höndum hverrar sitjandi stj. eða ráðuneytis, sem bæri frv. fram fyrir hann til undirskriftar. Ég óska þess vegna, að stjskrn. vilji taka þetta atriði til athugunar að nýju, og ætla ég í trausti þess að taka brtt. aftur til 3. umr.

Ég vil að lokum taka undir þau ummæli hæstv. dómsmrh., að æskilegt væri að ganga betur í gegnum það til samræmingar, hvar standa skuli „forseti lýðveldisins“ og hvar aðeins „forseti“. Mér finnst ekki í öllum greinum fullt samræmi í þessu, en það getur verið sumpart smekksatriði, hvar standa skuli „forseti“ í þessum gr. Þar, sem æskilegt er að skilgreina forseta, þannig að tekið sé fram, að það sé forseti lýðveldisins, þá er það nauðsynlegt, en þar, sem það er ekki nauðsynlegt, finnst mér fara betur á því, að alger samræming sé viðhöfð.

Dómsmrh. (Einar Arnórsson): Herra forseti. — Hv. þm. Borgf. beindi til mín fyrirspurn þess efnis, hvort stj. hefði ákveðið að bera málið um stofnun lýðveldis undir konung. Ég get nú ekki svarað þessu á annan hátt en segja, að stj. hefur ekki tekið nokkra ákvörðun um þetta atriði. En það, sem ég sagði í ræðu minni í gær og sennilega hefur gefið hv. þm. Borgf. tilefni til þessarar fyrirspurnar, var eitthvað á þann hátt, að það væri óskynsamlegt að óttast dönsku stj. eða konunginn eða að þessir aðilar reyndu að setja fótinn fyrir þessar ráðagerðir okkar. Ég mun einnig hafa sagt eitthvað á þann hátt vegna ummæla í ræðu hv. 4. þm. Reykv., að það, sem stj. kynni að gera í skiptum við þessa tvo aðila, yrði auðvitað gert með ráði Alþ. Annars má geta þess hér, að þál. frá 17. maí 1941 var stjórnarleiðina tilkynnt konungi og dönsku stj., og ég ætla, að það hafi verið gert með vitund og fullu samþykki Alþ. Í samræmi við þetta virðist mér annað óhjákvæmilegt en stj. tilkynni þessum aðilum með sama hætti megnið af þeim ályktunum um þessi efni, sem gerðar eru nú og síðar.

Það er hins vegar alveg rétt, sem hv. þm. Borgf. sagði og gerði ráð fyrir, að auðvitað mundu fregnir af þessu berast símleiðis héðan af landi til Svíþjóðar og þar af leiðandi komast á hinn ákveðna stað, sem þeim væri ætlað, og af þeim ástæðum er ekkert eðlilegra en íslenzka stj. tilkynni hinum aðilanum, hvað hér sé gert. — Eins og ég tók fram áðan, er sjálfsagt, að ákvarðanir um þetta efni verði teknar í samráði við Alþ., og sú tilkynning verður því að vera eins og stj. og Alþ. koma sér saman um að hafa hana.

Ég vil taka það fram, að það, sem ég segi hér, er aðeins mín persónulega skoðun, vegna þess að þetta atriði hefur ekki verið rætt í stj. En mér virðist, að fara eigi að með sama hætti og sumarið 1941.

Í fyrri ræðu minni gleymdi ég að geta um eitt atriði, en það er ákvæðið um stundarsakir. Ég held, að athuga þurfi það að nýju vegna þess, að eins og ákvæði þessi eru nú, eru þau ekki í fullu samræmi við ákvæði þessa frv., sem borið var hér fram í gær, um réttarstöðu danskra ríkisborgara. Ég vildi hér aðeins geta þessa, ef ég skyldi gleyma að segja stjskrn. frá þessu, til þess að hún athugaði þetta.