02.03.1944
Efri deild: 20. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Ríkisstj. lagði þetta frv. fyrir hv. Nd. í algerlega sömu mynd og mþn. hafði gengið frá því, en jafnframt lýsti ríkisstj. yfir því, að hún teldi, að breyt. á frv. væru æskilegar. — Samhliða því, að n. var valin í Nd. í þetta mál, þá var einnig valin n. hér í þessari hv. d. í sama skyni, og störfuðu síðan báðar þessar n. í sameiningu að frv., og með n. störfuðu fulltrúar frá ríkisstj.

Frv. hefur tekið nokkrum allverulegum breyt. frá því, sem það var, þegar það var lagt fyrir Nd., og eru nær allar breyt., sem á því hafa orðið, eftir till. hinna sameinuðu n. Í rauninni er það aðeins ein veruleg efnisbreyting eða breyt., sem hefur mikið gildi í framkvæmdinni, er gerð hefur verið, og er það breyt. á 3. gr. frv. um, að forsetinn skuli vera þjóðkjörinn í stað þingkjörinn. Sem afleiðing af þessari breyt. er breyt., sem gerð var á 5. gr., og eiginlega líka breyt. á 11. gr.

Þá er því næst ein veruleg breyt. við 26. gr., en það er breyt., sem frekar er mikilvæg frá fræðilegu sjónarmiði en hitt, að hún hafi sérstaklega þýðingarmiklar verkanir, eftir því sem ætla má.

Þá er það þriðja eða jafnvel fjórða verulega breyt., sem gerð hefur verið á frv. og telja má. að sé í raun og veru aðeins formlegs eðlis, og það er breyt., þar sem fellt er niður úr frv. ákvæðið um það, hvenær stjskr. skuli taka gildi. En eins og atvik liggja að því, vil ég meina, að það sé formleg breyt. frekar en efnisbreyt. — Loks er svo sú breyt. um stundarsakir, sem leiðir af frv. því, sem er hér næst á dagskrá, þ.e. um rétt danskra ríkisborgara.

Aðrar breyt. eru allmargar að tölu til, sérstaklega er ein athyglisverð, þ.e., að nafn forsetans skuli vera „forseti Íslands“ í stað „forseti lýðveldisins.“

Að öðru leyti tel ég óþarfa á þessu stigi að gera nánari grein fyrir hinum ýmsu breyt., en óska, að frv. gangi til 2. umr. og yfirskoðunar stjskrn.