22.02.1944
Neðri deild: 16. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

27. mál, skipun læknishéraða

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. — N. á hér á þskj. 57 og 65 brtt., sem breyta efni frv. dálítið. — Aðalefni fyrstu brtt. er, að breyta skuli takmörkum Hafnarfjarðar-, Reykjavíkur- og Álafosslæknishéraða. Síðan læknal. voru sett, hefur Reykjavíkurlögsagnarumdæmi stækkað, og fleira hefur gerzt, sem gerir eðlilegt, að þessar breyt. séu gerðar. — Þá þótti og rétt að breyta nafni á Grímsneshéraði og nefna það Laugaráshérað.

Þetta eru breyt., sem litlu skipta, en c-liður í 2. brtt. er efnisbreyt., sem nokkur ágreiningur hefur orðið um. Meiri hl. n. var sammála um, að heppilegast væri að hafa einn fastan lækni í þeim héruðum, en minni hl. leggur til, að þeir verði tveir, en í stað þess sé ráðinn fastur aðstoðarlæknir. Nú hefur sýnt sig, að gallar eru á ráðningu aðstoðarlækna, sem séu óháðir aðallækninum, og er því lagt til, að þeir séu ráðnir af héraðslækni, en fái laun sín greidd úr ríkissjóði. Þá þykir rétt vegna aðstæðna að lögákveða, að Egilsstaða og Selfosshérað gangi fyrir um aðstoðarlækna. — í samræmi við þetta er lagt til, að breytt verði l. um aðstoðarlækna þannig, að þeim megi fjölga úr fjórum í sex.

Í þessu sambandi skal þess getið, að héraðslæknirinn á Eyrarbakka hefur þegar ráðið aðstoðarlækni, enda þótt hann sé nú á Kópaskeri, þar til þangað fæst læknir. Og líkur eru til, að aðstoðarlæknir komi að Egilsstöðum, strax og þessi skipan kemst á. — Ég tel, að ekki verði á annan hátt ráðið betur fram úr þessum málum.

Brtt. á þskj. 65 er einungis leiðrétting, sem er einnig mælt með af landlækni.

Enn er hér ein brtt., sem útbýtt var í morgun og n. hefur ekki unnizt tími til að athuga, en þar sem ég sá hana í gær, gat ég borið hana undir landlækni. En hann leggur ákveðið á móti henni, enda hafi flm. ekki borið hana undir sig. Satt að segja skil ég ekki fullkomlega þá skiptingu, sem þar er lögð til, og þori að fullyrða, að hún er ekki að ósk héraðsbúa, t.d., að Njarðvíkurhreppur, sem til síðustu áramóta var hluti úr Keflavíkurhreppi, skuli nú eiga að fara að sækja lækni þvert yfir nesið til Grindavíkur. Enn vil ég benda á, að verði þessi till. samþ. gegn till. landlæknis, þá má búast við, að fleiri svipaðar breyt. fylgi á eftir. Annars get ég ekki talað fyrir munn n. um þessa till., þar eð hún hefur ekki verið þar til umr. Ég tala því einungis um hana frá mínu sjónarmiði og segi frá áliti landlæknis.