05.12.1944
Efri deild: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (2399)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Þetta eru með öllu óþarfar umr.

Það er rétt hjá hv. þm. Barð., að það hefur ekki mikla þýðingu, þó að frv. sé samþ. Það er engin ástæða til, þó að frv. yrði samþ., að farið verði að koma af stað meiri samkeppni en verið hefur. Þess vegna er engin þörf á að halda uppi umr. um það nú, að sérstök hætta sé á, að minna verði að því gert að láta embættismenn ríkisins vinna þessi verk, en í stað þess verði ausið fé til þess að láta fara fram samkeppni, sem hæpinn ávinningur væri að. Skoðun þeirra hv. þm., sem talað hafa, er sú, að framkvæmdarvaldið eigi á hverjum tíma að sjá um þessi mál; það hafi gert það hingað til og eigi að gera það enn. Það mætti segja út frá þessu sjónarmiði, að nokkuð væri til í því, sem hv. þm. Barð. sagði í ræðu sinni, að þetta frv. væri þarflaust. Ég held samt sem áður, að það sé gagn að því, að þetta frv. sé samþ. Það er jafnt á valdi stj. eftir sem áður, hvernig þessu er hagað. Hins vegar eru hér settar fastar reglur, og ég held, að þær séu til bóta. Ég held, að það verði minni deilur um þessi mál, ef til er fastur dómstóll, sem er ákveðinn með l., sem Alþingi hefur samþ., heldur en með dómstól, sem settur er upp í skyndi við hvert einstakt tækifæri af framkvæmdarvaldinu, sem er flokkspólitískt á hverjum tíma. Það kann að vera, að þessir hv. þm. líti svo á, að ekki sé mikil trygging í þeirri n., sem gert er ráð fyrir í frv., en þá er að koma með brtt. Það er ekki frambærilegt að halda fram, að það hljóti alltaf að fást slæm útkoma á verkum, sem hafi hlotið viðurkenningu dómnefndar, af því að ekki sé hægt að finna dómnefnd, sem sé bær að fella dóm. Það mætti eins vel halda fram, að ekki væri hægt að finna sérfræðinga fyrir það opinbera, sem væru færir um að leysa sitt hlutverk vel af hendi.

Mér skilst því, að gagnrýni þessara hv. þm. gangi aðallega í þá átt, að óhugsandi sé, að hægt sé að skipa dómnefnd, sem sé fær um að kveða upp rétta dóma á grundvelli þekkingar.

Hv. þm. S-Þ. talaði allmikið um það, að mikill aukakostnaður fylgdi því að láta fara fram samkeppni og sá kostnaður væri algerlega óþarfur. Nefndi hann þar sem dæmi sjómannaskólann. En ef um stór mannvirki er að ræða, þá lít ég svo á, að ekki skipti mjög miklu máli um 10–50 þús. kr. eða jafnvel 100 þús. kr., það getur margborgað sig, þó að um slík aukagjöld sé að ræða. Því er t. d. haldið fram af mönnum með sérþekkingu, sem ég treysti miklu betur en hv. þm. S-Þ. með allri virðingu fyrir honum og hans áhuga fyrir þessum málum, að það mundi jafnvel borga sig betur að byggja nýtt þjóðleikhús heldur en að gera þær breyt., sem nauðsynlega þarf að gera á þjóðleikhúsinu. Ég skal ekkert um þetta fullyrða; ég er ekki dómbær um það. En hitt fullyrði ég, að þessu er haldið fram af mönnum, sem hafa athugað þetta mál og hafa á því miklu meiri sérþekkingu en hv. þm. S-Þ. (JJ: Vill hæstv. ráðh. nefna þetta „autoritet“?) Ég kæri mig ekki um það, en ég fullyrði aðeins, að svo sé. Ég get ekki dæmt um, hvort þessir menn hafi rétt fyrir sér eða ekki, en ég nefni þetta sem dæmi um, að ekki þarf í sjálfu sér að skipta miklu máli aukakostnaður, þó að hann nemi tugum þúsunda, þegar um stór mannvirki er að ræða. Hitt skiptir auðvitað mestu máli, að framkvæmdin fari sem bezt úr hendi. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé rétt, sem haldið hefur verið fram af þeim, sem mest hafa um þessi mál fjallað, svo sem Verkfræðingafélag Íslands, Húsameistarafélag Íslands og teiknistofa landbúnaðarins, að það sé ekki hægt að fá meiri tryggingu en einmitt með því að láta samkeppni fara fram.