12.10.1944
Neðri deild: 64. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (2670)

153. mál, hafnarbótasjóður

Flm. (Pétur Ottesen):

Ég held, að það yrði ekki heppileg aðferð, sem hv. þm. N.-Ísf. leggur til, að sett sé heildarlöggjöf um ráðstafanir á fé úr þessum sjóði. Ég sé ekki, að hægt væri að búa til heildarlöggjöf, sem ætti að gilda langt fram í tímann. Fjárveitingar úr þessum sjóði hljóta eðlilega að mótast af viðhorfinu á hverjum tíma til þeirra málefna, sem sjóðurinn á að vera þáttur í að leysa. Ég held, að sú hugsun, sem hv. þm. talaði um, að hefði vakað fyrir sér, en hefur alls ekki vakað fyrir mér, um tilhögun þessa sjóðs, sé alls ekki heppileg.

Hins vegar talar hv. þm. um, að þennan sjóð ætti að nota með allt öðrum hætti en gert hefur verið í sambandi við fjárveitingar til hafnarbóta að undanförnu. Það ætti sérstaklega að nota hann til stærri framkvæmda. Ég vil í þessu sambandi aðeins benda á 1. gr. l. um hafnarbótasjóð sjálfan. Þar er afmarkað skýrt um tilgang sjóðsins. Þar stendur svo: „Tilgangur sjóðsins er að stuðla að bættum hafnar- og lendingarskilyrðum í kaupstöðum og sjávarþorpum, þar sem aðstaða er góð til sjósóknar og framleiðslu“. — Þetta er það verkefni sjóðsins, sem er markað með 1. gr. l., og er það ekki að neinu leyti frábrugðið þeim grundvelli, sem fjvn. hefur stuðzt við við styrkveitingar til hafnarframkvæmda að undanförnu og styðst við enn.

Ég vil segja, að ef á að leggja þann skilning í sjóðinn, sem hv. þm. N.-Ísf. minntist á, þá fer það mjög vel saman við þær till., sem ég ber fram í því frv., sem hér er næst á dagskrá. Með hafnargerð á Akranesi, sem ég kem að í sambandi við það frv., er ekki eingöngu hugsað um þá menn, sem þar búa, heldur með því greidd gata þess, að menn úr öðrum útgerðarstöðvum á landinu eigi þess kost að nota hin fiskauðugu mið hér í Faxaflóa.

Ég ætla ekki að fara lengra út í þetta mál í sambandi við þetta frv., en ef hv. þm. N.-Ísf. leggur þann skilning í meðferð fjár úr hafnarbótasjóði, að féð skuli veitt til landshafna, þar sem hafnarskilyrði séu til þess, að fjöldi manna geti stundað fiskveiðar víðs vegar af landinu, þá eru það sterk rök með frv. því, sem ég flyt og er næst á dagskrá. Vil ég því mjög þakka hv. þm. fyrir þann skilning á slíkri aðstöðu, sem fram kemur hjá honum í þessum umræðum um málið.

En ég skil sem sagt 1. gr. frv. þannig, að þar, sem fyrir hendi eru þau skilyrði, sem þar greinir og ég las upp, þá sé það í fullu samræmi við l. um hafnarbótasjóð, að til slíkra staða sé veitt fé úr sjóðnum. Ég sé ekki neina ástæðu til að fresta slíkum ráðstöfunum, sem hér er gert ráð fyrir, því að hér situr mþn. um sjávarútvegsmál á rökstólum. (PZ: Starfar hún enn?) Sjálfsagt starfar hún enn, en ég sé ekki ástæðu til að stöðva frv. til hafnarbóta, þó að mþn. hafi ekki látið málið til sín taka og það eigi að valda kyrrstöðu í þessu máli. Það kemur auðvitað ekki til mála, að Alþ. láti sig henda slíkt.