07.03.1944
Efri deild: 23. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

27. mál, skipun læknishéraða

Jónas Jónsson:

Herra forseti. — Ég vildi ræða þetta mál lítillega í sambandi við læknaskipunarmálið í heild sinni og minni um leið á till., sem ég flutti hér í vetur fyrir jólin út af því atviki sérstaklega, að einn af þm. landsins, hv. 1. þm. Rang., gat ekki starfað hér sem þm. á fjárlagaþinginu fyrir jólin, af því að hann gat engan varamann fengið í staðinn fyrir sig. Ég bar fram till. þá, sem ekki aðeins var rökstudd með þessu sérstaka dæmi, heldur líka af þeirri miklu læknafæð, sem er í landinu, og fór fram á það við heilbrigðisstjórnina, hvort ekki væri hægt að ráða bót á þessu með því að ráða bót á uppeldi lækna á þann veg, að þeim væru sett þau skilyrði fyrir þeirri aðstöðu, sem þeim af því opinbera er veitt til náms, að þeir hagnýttu sér reynslu hjá eldri læknum landsins með læknisþjónustu í sveit. Þessi till. fann ekki náð fyrir augum þeirrar n. hér í hv. d., sem um hana átti að fjalla. Hún var svæfð þar. Og landlæknir hefur heldur ekkert með þessa till. gert. Svo vildi nú til, að þessi hv. þm., sem ég gat um, gat fengið einhvern mann fyrir sig nú eftir áramótin. En það, að maður í erfiðu og umfangsmiklu héraðslæknisstarfi, eins og Helgi Jónasson, getur ekki sinnt sínum borgaralegu störfum, af því að hann getur ekki fengið varamann, sýnir, að eitthvað er að skipun þessara mála. Og þá má geta nærri, hvernig slíkt gengur fyrir héraðslæknum, sem eru í afskekktari héruðum, ef þeir þurfa að bregða sér frá eða fá sér einhverja hvíld. — Ég beini þeirri fyrirspurn hér til þess manns, sem beitt hefur sér mest fyrir þessu máli almennt hér í hv. d., hv. 6. þm. Reykv., hvort hann sjái ekki, að einnig er þá nauðsynlegt að gera fleira, ef tekin er sú stefna, sem hann beitir sér fyrir, að fjölga nú læknishéruðum í trássi við heilbrigðisstjórnina, og hvort hann sé því ekki hlynntur, að einhver sterk ráðstöfun verði gerð í þá átt, að þjóðfélagið hafi handbæra miklu fleiri unga lækna til aðstoðar í þeim læknishéruðum landsins, sem þeir koma ekki í af sjálfsdáðum. Ef ekkert er gert annað en samþ. þetta frv. og þá einnig kannske brtt. við það, þá sé ég ekki annað en það muni að engu haldi koma að svo stöddu, þar sem sennilega mundu engir læknar fást í sum læknishéruðin í sveitum landsins. Það er ekki fullnægjandi fyrir þjóðfélagið, að lækningar séu framkvæmdar sem „spekulation“.

Þá vil ég snúa mér að einstökum liðum þessa frv., og þá fyrst að því, er snýr að Fljótsdalshéraði. Ég er samþykkur því, að reynt verði að gera miðstöð fyrir Fljótsdalshérað í þessu efni við Lagarfljótsbrú. En ég álít ekki nóg til lengdar, að þar sé einn læknir, heldur þurfi þar líka að vera aðstoðarlæknir og þá helzt einhver ungur maður, sem væri að læra af starfinu með því að vera þar. Í Fljótsdal mótmæla þeir því að missa sinn lækni. Og það er skiljanlegt, af því að þeir eiga um langan veg að sækja lækni, ef hann væri við Lagarfljótsbrú. En af því að stefna þarf að því, að á Austurlandi, Norðurlandi og Vesturlandi komi deildir frá Landsspítalanum, nægilega stórar til þess að þessi ríkisspítali, sem ríkið rekur með þar starfandi hinum beztu læknum, nái til fólksins alls staðar á landinu nokkurn veginn. Það sjá allir, hver fjarstæða það er, að við, sem erum í Reykjavík, og þeir, sem búa annars staðar sunnan og suðvestan lands, sem eru alls um 70 þús. manns, fáum Landsspítalann eins og hann væri spítali Reykvíkinga sérstaklega og annarra í nágrenni höfuðstaðarins. Hvers eiga Norðlendingar, Austfirðingar og Vestfirðingar að gjalda, ef þeir eiga að koma upp með ærnum kostnaði spítölum fyrir sig, meðan við hér syðra höfum spítala fyrir okkur, sem kostaður er af ríkisfé og eftir föngum lagt til hans allt það bezta, sem spítali þarf að hafa? — En það, sem ég vil undirstrika í sambandi við þetta mál, er, að ég álít, að gera eigi ráð ' fyrir, að reistur verði góður spítali, sem sé nægilega stór fyrir Austurland, og líka, að þar fari fram nokkuð af þeirri kennslu, sem háskóli okkar veitir. — Þess vegna álít ég, að þeir í Fljótsdal verði að sætta sig við að missa sinn lækni þarna ofan eftir að Lagarfljótsbrú. En ég vil minna hv. þm. á, að það er ekki hægt að hindra þetta mál Austfirðinga með því einu að segja: Við flytjum lækninn úr brennda húsinu á Brekku niður að Lagarfljótsbrú. — Það verður að gera meira. Framtíð þjóðarinnar heimtar, að við snúum því menningarverki út um landið til jafnvægis við það, sem er í hinu nýskapaða þéttbýli. Þetta er sú breyt., sem að minni hyggju hefur ekki verið sinnt nógu vel, þar sem ekki heldur hefur verið nógu rösklega gengið fram í því gagnvart Austfirðingum, að þeir ættu að háfa aðstoðarlækna. En ég nota þetta tækifæri til þess að lýsa skoðun minni á því, hvar þeir þurfi að koma.

Þá kem ég að Snæfellsnesi, sem töluvert hefur verið deilt hér um. Ég hef skotið því fram við hv. þm. þess kjördæmis, að ég hef ekki trú á, að hægt verði, eins og stendur, að fá nokkurn lækni þangað, nema byggt verði yfir hann. Og ég rökstuddi það með því, að í Suður-Þingeyjarsýslu er Reykdælahérað, sem er mannfleira en þetta hérað á sunnanverðu Snæfellsnesi, ef stofnað yrði nýtt læknishérað þar. Þar, í S.-Þ., var byggt læknishús fyrir 40 árum, gott á þeim tíma, en svarar ekki til þeirra krafna, sem gerðar eru nú. Og að þetta hús fullnægir ekki kröfum, sem gerðar eru, hefur haft þau áhrif, að nú síðustu 6–7 árin er skipt um lækni þar að heita má árlega. Ungir læknar hafa ekki viljað vera þar undir nokkrum kringumstæðum, eins og aðbúnaður er þar. Svo voru héraðsbúar að reyna að byggja læknishús með einni sjúkrastofu eða svo, sem kostaði um 140 þús. kr. Og það er náttúrlega fyrir áhuga fólksins og þörf þess, að það lagði út í þann mikla kostnað. Þess vegna segi ég það: Ég ann þeim mjög vel á Snæfellsnesi sunnanverðu að fá lækni, en það kostar þetta tvennt, að það verði yfirleitt hægt að fá sæmilega menntaða unga menn til þess að vera þar, og hitt, að þar verði byggt. Annars verður það bara dauður bókstafur að samþ., að þarna skuli stofna nýtt læknishérað.

Um Grindavík er það að segja, að hv. 6. þm. Reykv. veik að því, að ég hefði átt nokkur afskipti áður af læknaskipun í sambandi við Grindavík. Ástæðan til þess, að ég átti þátt í því, að læknir héraðsins var settur þar fyrir nokkrum árum, var sú, að það fékkst ekki neitt heimili í Keflavík handa þeim manni, sem kom í læknisembættið. En í Grindavík var skörungurinn Einar Einarsson kaupmaður, og þótti honum svo mikið varið í að fá lækni í héraðið, að hann reisti hús yfir hann, sem ég hygg, að hann eigi enn þá. Og ef þessi skörulegi maður í Grindavík hefði ekki gert það, þá veit ég ekki, hvar læknirinn væri nú. Og þar sem menn fara á 20 mínútum á milli Keflavíkur og Grindavíkur, þá hygg ég, að ekki sé ástæða til að láta fara fram skiptingu á læknishéraðinu þarna, vegna þess að óþarflega lítið muni líka vera að gera fyrir mann sem héraðslækni í Grindavík, ef annar væri í Keflavík. Rök hv. 6. þm. Reykv. sannfæra mig því ekki í þessu efni, og ég hef ekki trú á því, að almenningur í Grindavík muni leggja út í að byggja hús yfir lækni, eins og það kostar mikið nú.

Þá kem ég að þeim austan fjalls, og er það mála sannast, að þeir hafa orðið nokkuð illa úti með lækni og sjúkraskýli. Nú hefur um það verið talað, — og landlæknir og þeir austan fjalls sætta sig yfirleitt við það, — að aðalsjúkraskýli verði þarna að Selfossi. En þá þarf að vera læknir þar. Og að minni hyggju á að haga því svo þarna, — eins og við Lagarfljótsbrú ætti að gera, að þar ætti að vera aðallæknir og aðstoðarlæknir. En nú er það svo, að þessi tvö þorp við sjóinn hafa haft lækni mjög lengi og eru ófús á að missa hann. Má búast við, að úr því yrðu sambúðarerfiðleikar, ef flytja ætti lækninn burt þaðan úr þorpunum að íbúunum nauðugum. Og af því að hæstv. heilbrmrh. er hér viðstaddur, vil ég benda á, að þarna nálægt þessum þorpum eru tvö mannúðarhæli, fangelsið og vinnuhælið á Litla-Hrauni og drykkjumannahælið í Kumbaravogi. Vinnuhælið er þarna á föstum fótum, þar eru venjulega 40–50 menn. Og mikið óhagræði væri því hæli að missa lækninn frá sér. Þessir menn steypa úr vikri, sem fæst þar í fjörunni, ytra borð í 50–60 bændabýli á ári. Og þess vegna finn ég til fyrir þá menn þarna niður frá, ef þeir eiga að tapa lækni sínum frá sér, ekki aðeins vegna þorpanna, heldur líka vegna þeirra manna, sem eru á þessum tveimur hælum þar í nánd, vinnuhælinu og drykkjumannahælinu. Það á ekki við alla, þótt drykkfelldir séu, að setja þá á slík hæli; en þeir, sem eru svo mjög bognaðir fyrir þessari ástríðu, að þeir vita ekki, hvað þeir gera, þurfa slíkrar hælisvistar. Þeir þurfa frið og ró, og þeir þurfa læknis við, svipað og þeir, sem vinna á vinnuhælinu.

Og nú vil ég spyrja hv. 6. þm. Reykv., hvort hann hafi ekki séð það eins og ég og fleiri, að það er ekki til neins að fjölga læknishéruðum nema með því að skapa lækna, sem vilja vera í læknishéruðunum. Ég vil nefna eitt dæmi, sem er úr mínu kjördæmi. Í Húsavíkurlæknishéraði eru um 1000 manns. Þar er sjúkrahús fyrir 15–16 manns, sem er venjulega fullt af sjúklingum. Þessi læknir hefur, auk sjúkrahússins, ærið starf í héraðinu, þar sem hann er sóttur fram í miðja Þingeyjarsýslu og út á Tjörnes. Og þegar læknirinn í Öxarfjarðarhéraði féll frá, varð Húsavíkurlæknirinn að gegna því héraði. Nú er þessi læknir kominn yfir sextugt. Hann er heppinn skurðlæknir og röskur maður. En hverjum dettur í hug, að þessi maður, yfir sextugt, eigi að hafa spítala með 15–16 sjúklingum, læknishérað með 1000 íbúum og auk þess annað hérað, sem ekki er læknir í skipaður? Ég fullyrði, að miklu betra en það fyrirkomulag væri, að ungir læknanemar í háskólanum slepptu einu ári af 7–8 námsárum þar og væru eitt ár á stað eins og t.d. Húsavík til þess að komast í lífrænt samband við fólkið á ferðum um héruðin og kynnast fólkinu og venjast því að vera annars staðar en hér í stofunum í Reykjavík. Ég er ekki að tala um þetta fyrir mitt kjördæmi, heldur tek ég þetta fram vegna þess, að það er ekki mynd á þessu fyrirkomulagi okkar, sem á læknaskipuninni er. Og eitt er það, sem sízt má gleyma, að eins og nú er komið, er Menntaskólinn hér í Reykjavík að heita má ekki sóttur nema af nemendum úr Reykjavík, þá verður afleiðingin sú, að þeir mörgu embættismenn, sem koma úr háskólanum, eru tiltölulega ókunnugir dreifbýlinu. Og án þess að ég segi neitt illt um þennan bæ, þá er það víst, að mjög mikill hluti þessara menntamanna, sem úr Reykjavík koma, ef þeir fara ekkert út á landið, vita ekkert, hvernig Ísland er, og þeim hættir því til að líta á sveitirnar sem nokkurs konar Síberíu, ekki sízt eftir að hitaveitan kom í Reykjavík, fyrir dugnað hv. 6. þm. Reykv. og annarra góðra manna. Það eru því ekki líkur til, að hægt verði að fá þá góðu menn til að vera sem læknar .annars staðar en í Reykjavík eða á Akureyri eða í öðrum stærri kaupstöðum, ef þeir ekki læra nógu snemma að taka þátt í lífinu, eins og það er og á að vera og þarf að vera, með byggð um allt landið. Ég álít því rétt að breyta þessu skipulagi þannig, að þeir ágætu ungu menn úr Reykjavík, sem svo margir stunda læknisdóma, þeir fái kynningu við landið, sem að vísu sannarlega er ekki tómir barnaleikar, bæði vetur og sumar, m.a. svo að þeir kynnist því,, að það er líka skemmtilegt fyrir utan höfuðstaðinn og að það er eins ,gaman eða skemmtilegra að vinna þar.

Ég vil vita, hvort það er nokkur skilningur á því fyrir hendi í hv. d., að það er ekki nóg að búa til frv. um ný læknishéruð og samþ. þau sem l. á pappírnum, heldur verður að fylgja málunum eftir með skynsamlegri skipulagsbreyt. í læknamálum okkar.