03.03.1944
Sameinað þing: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í C-deild Alþingistíðinda. (2894)

4. mál, fjárlög 1945

Eysteinn Jónsson:

Það er ekki ætlun mín að tefja þessar umr. með langri ræðu, enda ekki til þess ætlazt við þetta tækifæri.

Ég mun fyrst minnast fáum orðum á það yfirlit, sem hæstv. fjmrh. gaf um afkomu ríkissjóðs á síðasta og síðustu árum. Í þessu yfirliti gerði hann nokkra grein fyrir því, hvað ríkissjóður hefði efnazt á þessum styrjaldarárum. Skildist mér, að hann hefði efnazt um 50 millj. kr., en þar af væri tæplega helmingur í föstum sjóðum, en hitt gengið til niðurborgana skulda og eignaaukninga ýmiss konar. Þetta er nokkur fjárupphæð og breyting frá því, sem var, og er ekki nema gott eitt um það að segja, að þessi breyting hefur á orðið. Hins vegar þykir mér ástæða til að harma, að þessi breyting er ekki enn stórfelldari en raun er á orðin, sérstaklega þegar tekið er tillit til peningaflóðsins, sem yfir landið hefur gengið, og hvað hefði verið hægt að gera á undanförnum árum.

Nú ætti að vera öllum ljóst, að ef við ætlum að halda uppi eftir stríð þeirri stefnu í atvinnumálum, fjármálum og um verklegar framkvæmdir, sem okkur er nauðsynleg, til þess að halda uppi atvinnu í landinu og komast hjá gífurlegri fjárhagskreppu, er þörf á miklu fé. Þessar 20–30 millj., sem tekizt hefur að safna í framkvæmdasjóð og aðra sjóði, eru beinlínis ætlaðar til að styðja þessar framkvæmdir, þegar að þessu kemur, en þær munu hrökkva skammt. Að stríði loknu munu verkefnin kalla að, en tekjur ríkissjóðs verða þá stórum minni en nú, því að tekjuskattur og tollar hljóta að lækka mjög mikið. Verður það því hið mesta vandamál, hvernig á að afla fjár til þess að halda uppi öflugri umbótastefnu í atvinnumálum og verklegum framkvæmdum. Ég vildi aðeins nota þetta tækifæri til þess að benda á það, hvernig horfur eru að þessu leyti, og þar sem farið hefur á þá lund, að tiltölulega lítið af stríðsgróðanum hefur stöðvazt hjá ríkinu og ekki er hægt að auka tekjur ríkisins af atvinnutekjum landsmanna, þegar kreppir að, má búast við því, að grípa verði til þess, að framkvæma verði í eitt skipti tekjuöflun með sérstökum skatti, eignaraukaskatti. Það fé, sem þannig næst, yrði þá eins konar stofnfé þeirra þjóðfélagsumbóta, sem gera þarf eftir stríð. Það er ekki skemmtilegt að þurfa að grípa til slíkra úrræða, en ég get ekki séð, að hægt sé að komast hjá slíku, eins og til hefur tekizt um fjármálastjórn á stríðsárunum. Mér sýnast allar horfur á því, að verði ekki gripið til slíkra úrræða eða hliðstæðra, muni fara þannig, að á þeim tímum, sem mest verður þörf á því, að ríkið grípi inn í til stuðnings atvinnuvegum og framkvæmdum þjóðarinnar, verði ríkissjóði alveg um megn að annast slíkar framkvæmdir. Afleiðingar þess mundu verða gífurlegt atvinnuleysi og stórfelld atvinnukreppa.

Viðvíkjandi fjárhagshorfum á því ári, sem nú er byrjað, vil ég aðeins segja það fyrir mitt leyti, að Framsfl. lét í ljós þá skoðun á síðasta þingi, er lauk fyrir áramót, að hann teldi afgreiðslu fjárl. mjög óvarlega, og sýndi Framsfl. þessa skoðun sína í verki með því að fylgja þeim till., sem fram komu þá á þinginu, um tekjuöflun til þess að styðja fjárlögin. En þá kom fram till. um framlengingu verðlækkunarskattsins og síðar frv. frá ríkisstj. til tekjuöflunar í þessu skyni. Eftir yfirliti hæstv. fjmrh. virðist vera enn frekari ástæða til að vera svartsýnn í þessum efnum en nokkurn tíma var á síðasta hausti, því að nú liggja fyrir gleggri líkur fyrir því, að einstakir tekjuliðir standist ekki áætlun fjárl. Mér virðist því illa horfa um afkomu ríkisins á því ári, sem nú er hafið. Verður slíkt ekki kennt þeim, sem reiðubúnir hafa verið og eru til þess að fylgja nauðsynlegri tekjulöggjöf.

Ég gat um það áðan, að Framsfl. fylgdi hér á síðasta þingi frumvörpum um skatta, en þau voru ýmist felld eða döguðu uppi. Afstaða okkar er sú sama á þessu þingi. Við erum og höfum verið reiðubúnir til þess að fylgja tekjuöflun á þessu þingi og haga afstöðu okkar þannig til tekjuöflunarmála, að það gæti orðið tryggt, að svo miklu leyti, sem í okkar valdi stendur, að tekjuöflun næði fram að ganga.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara frekar út í að ræða viðhorfið í fjármálunum, en ég vil í sambandi við dýrtíðarráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. telur sig hafa erfiða aðstöðu til þess að kosta, benda á, hvort ekki væri rétt að styðja framkvæmd fjárlaganna og dýrtíðarráðstafanir með því að taka upp útflutningsgjald, sem um skeið var lagt á togarafiskinn og heimilt er að leggja á. Ég vil benda á, að liggi við borð, að fella þurfi niður útgjöld fjárlaganna og gera aðrar slíkar ráðstafanir, þá finnst mér sjálfsagt, að áður séu rannsakaðir allir möguleikar á því að nota þær heimildir til tekjuöflunar, sem í lögum eru.

Að endingu vildi ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., vegna þess að svo mikið hefur verið rætt um einn lið í fjárl. yfirstandandi árs, sem sé verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, hvort ekki hafi farið fram sala á einhverjum af þeim afurðum, sem gert er ráð fyrir að verðbæta, og hvaða ályktanir megi af því draga. Þetta er stórt atriði í sambandi við fjárlögin, og var mjög mikil óvissa um það á síðastliðnu hausti, hvað þessi fjárútlát mundu nema miklu. Ágizkanir manna vora þá mjög mismunandi, og voru nefndar tölur í þessu sambandi, og munaði mörgum millj. kr. á þeim fjárhæðum, sem taldar voru geta komið til greina. Það væri því afar fróðlegt, ef menn gætu fengið einhverja nánari vitneskju í þessum sökum; hins vegar ætlast ég ekki til, að ríkisstj. geti sagt neitt um, hvað óorðið er fremur en aðrir. Mér hefur skilizt, að búið væri að ganga frá einhverjum liðum í þessu sambandi, sem líklegir eru til að geta gefið bendingar um þessi efni. Það væri bezt, að menn fengju þær upplýsingar, sem hægt er að gefa um þetta, sökum þess m. a., að það er verra að láta menn standa í þeirri trú, að hér sé um miklu meiri fjárútlát að ræða heldur en þau í raun og veru eru. En mér er nær að halda, að þannig sé þessu varið, ef þær fregnir um kjötsölu eru réttar, sem mér hafa borizt.