03.03.1944
Sameinað þing: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (2898)

4. mál, fjárlög 1945

Jón Pálmason:

Það hefur verið föst venja að undanförnu, þegar fjárlög eru lögð fyrir Alþ., að fjmrh. gæfi yfirlit um tekjur og gjöld ríkisins liðið ár og gerði grein fyrir fjárhag þess og fjárhagshorfum. Frá þessu hefur nú verið vikið í skjóli þess, að eigi er ætlað að taka fjárlögin til afgreiðslu fyrr en á framhaldsþingi næsta haust. Um það er eigi nema gott að segja, að hæstv. fjmrh. skuli nú bæta fyrir þetta með því að gefa Alþ. þær upplýsingar, sem hann nú hefur flutt um tekjur og gjöld s.l. ár og fjárhaginn eins og nú er.

Ég mun nú eigi að þessu sinni gera neina tilraun til að ræða þá skýrslu, sem hæstv. ráðh. hefur gefið, enda ekkert tækifæri til undirbúnings í því skyni. En það voru nokkur atriði í ræðu ráðh., sem gefa mér tilefni til að segja fáein orð, og það, sem fulltrúar hinna flokkanna hafa sagt, gefur að vissu leyti tilefni til athugasemda. En þeim mun ég að mestu sleppa.

Hæstv. ráðh. gat þess í ræðu sinni, að verðbætur á útfluttar landbúnaðarvörur, framleiddar 1942, hefðu orðið 16 millj. og 764 þús. kr. og að sú upphæð sé færð á reikning ársins 1942. Á eftir telur hann svo rekstrarkostnað ríkisins 1942 röskar 2 millj. kr., en rekstrarhagnað ársins 1943 rúmar 16 millj. kr. Ég tel þessa reikningsfærslu mjög athugaverða. Þessar uppbætur voru ekki greiddar fyrr en seint á árinu 1943 og eiga auðvitað heima á reikningi þess árs. Vilji einhver færa það til afsökunar, að til þessara gjalda hafi verið stofnað með samþykkt Alþ. á árinu 1942, þá hefur það ekkert að segja í þessu sambandi, því að þannig er ástatt með nálega öll gjöld ríkisins, að þau eru afleiðing af samþykktum fyrra árs eða fyrri ára. Þess er og að geta, að ef sú færsla væri rétt hjá hv. ráðh. að færa þessar uppbætur á reikning ársins 1942, þá ætti á sama hátt að færa þær útflutningsuppbætur, sem enn eru ógreiddar á vörur ársins 1943, á reikning þess árs. Nú eru þær uppbætur áætlaðar 10 millj. kr., og yrði því sú upphæð eða hver sú, er þarf að greiða, að dragast frá þeim rekstrarhagnaði ársins 1943, sem ráðh. hefur nú upplýst, að sé rúmar 16 millj. kr.

Hæstv. ráðh. gat þess, að sumir hv. þm. hefðu lýst undrun sinni yfir því, að hann skyldi taka við fjárl. fyrir árið 1944, sem samþykkt voru rétt fyrir jólin. Af því ég er einn þeirra þm., sem hef opinberlega látið í ljós þessa undrun, þá finn ég ástæðu til að svara hæstv. ráðh. að þessu leyti. Og mitt svar er það, að mér virtist, að fjárlögunum vera breytt það mikið frá því, sem ráðh. virtist vilja, að ég hygg, að enginn þingræðisráðh., sem studdur væri á eðlilegan hátt á þingi, hefði sætt sig við það og tekið við fjárlögunum eins og ekkert hefði í skorizt. Ég varð heldur ekki var við, að hann reyndi nein samtök við þm. á þessu sviði, enda þótt hann talaði eitthvað gegn breytingunum.

Nú er ráðh. líka sjálfur að sanna það í þeirri ræðu, sem hann flutti áðan, að hann er ekkert ánægður yfir því að hafa tekið við þessum fjárlögum. Hann talaði um, að tekjur mundu ekki hrökkva fyrir gjöldum og sumir tekjuliðir jafnvel bregðast. Ég er ekkert hissa á, þó þetta geti komið fram, þótt enn sé engin vissa fyrir því. Hæstv. ráðh. lýsti því, að illa liti út með það, að verðtollurinn næði áætlunarupphæð á þessu ári. Þetta er ekki svo óeðlilegt. En þó er þess að gæta, að tekjur ríkisins fyrstu tvo mánuði ársins eru ekki réttur mælikvarði á það, hvað þær endanlega verða. Vöruinnflutningur er svo misjafn og getur vel orðið meiri síðari hluta árs, eins og oft áður. Satt að segja þótti mér öllu ískyggilegar horfa með gjöld ríkisins, þegar við töldum hjá ríkisféhirði um miðjan febrúar. Þá voru þau orðin frá nýári fyllilega 21 millj. kr. og hallinn á 1½ mánuði orðinn verulegur.

Hæstv. ráðh. lét orð falla um það, að ríkisstjórnin teldi sig hafa heimild til að meta, hvaða útgjöld yrðu látin mæta afgangi, ef ekki yrðu tekjur til að mæta þeim öllum. Þetta getur nú orðið ærið athugavert. Að minnsta kosti gæti það ekki gengið út yfir lögboðin gjöld, og ef það væri tekið til greina, þá er á hitt að líta, að um það er verulegur ágreiningur, hvað eru lögboðin gjöld. Í því sambandi má nefna verðuppbæturnar á útfluttar landbúnaðarvörur, framleiddar árið 1943, sem mest hefur verið deilt um og þeir véku að í ræðum sínum nú, háttv. 3. landsk., Haraldur Guðmundsson, og háttv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson. Ég staðhæfi, að þetta séu lögboðin útgjöld samkvæmt dýrtíðarlögunum frá 4. apríl s.l. En það hefur aldrei komið fram, hvernig hæstv. stjórn lítur á það mál.

Háttv. 2. þm. Reykv. gat þess, að 28 menn hér á þingi bæru ábyrgð á þessari greiðslu og stjórnin ætti að heimta af þeim peningana, þær 10 millj. kr., sem um er að ræða. Af því ég er einn af þessum 28 mönnum, þá vil ég segja það, að ég tel þessa upphæð fyllilega eins réttmæta eins og hverja aðra í fjárlögunum, og ég mótmæli því alveg, að hún verði á nokkurn hátt látin mæta afgangi. Eftir færslu ráðh. á sams konar gjöldum áður, ætti hún náttúrlega að sitja fyrir og takast af tekjuafgangi fyrra árs. Komi hins vegar til þess, að ríkisstjórnin ætli sér upp á eindæmi að skera niður gjöld vegna fyrirsjáanlegs halla, þá hlýtur það að ganga að mestu yfir framkvæmdir, og þá verður það að ganga jafnt yfir.

Að lokum vil ég aðeins minnast á það, sem hæstv. ráðh. sagði um dýrtíðarráðstafanir. Hann vék að kauphækkun í því sambandi og gat þess, að öllum dýrtíðarráðstöfunum mundi hætt, ef kaup hækkaði mikið. Eins og kunnugt er, hefur nýlega verið sætt kaupdeila með mikilli hækkun, sem hlýtur að hafa í för með sér hækkun á öðru kaupi og hækkaða dýrtíð. Mér er nú sagt, að hæstv. ríkisstj. hafi samþ. það, að afleiðingar hækkaðs kaups mundu verða teknar til greina með hækkuðu verði. Hún hefur því greitt fyrir því, að samið væri um hækkað kaup, og henni hlýtur að vera ljóst, að það leiðir til hækkandi dýrtíðar. Í þessu sambandi þykir mér rétt að geta þess, að ég tel það mjög óheppilegt, að ekki skuli hafa verið teknar fastar ákvarðanir um það, hvaða dýrtíðarráðstafanir stjórnin eigi að framkvæma og hvað ekki. Hún hefur þetta mikið í sinni hendi. Það tel ég óheppilegt og vera eitt ákveðnasta merkið um þann slæma losarabrag, sem nú er á samstarfi þings og stjórnar.