22.01.1945
Efri deild: 108. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (3155)

225. mál, prófessorsembætti dr. Sigurðar Nordals

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Það er að gefnu tilefni frá hv. frsm. n., orðum hans um það, að þessar umr. hefðu verið óviðfelldnar, að ég vildi beina því til hans umsagnar, í hverju það hefði komið fram, að þær væru óviðfelldnar, og af hverju sú helgi stafar, að ekki megi tala um þetta mál eins og önnur þingmál. Á dögunum, þegar talað var hér um norrænudeild Háskólans, taldi þessi sami hv. þm. óviðfelldið að ræða um hana. Nú telur hann óviðfelldið að ræða um þetta mál. Ég beini því til hv. d., hver hnjóðsyrði til dr. Sigurðar Nordals hafi fallið hér við þessar umr. eða hvort nokkur tilraun hafi verið gerð til þess að gera hans veg lítinn eða hvort honum mætti til miska verða nokkuð það, sem í umr. hefur komið fram. Hér er um persónulegt atriði að ræða, og þeir, sem hafa stofnað til þess að flytja þetta mál, hafa einnig stofnað til þess, að um þennan mann yrðu umr. hér á hæstv. Alþ. Þess vegna geta þeir ekki öðrum um kennt, ef þær umr. snúast á annan veg en þeir hefðu kosið. Nú hef ég ekki heyrt eitt einasta orð sagt hér af kala til dr. Sigurðar Nordals. Og ég hef ekki sagt það. Í hverju liggur það þá hjá hv. frsm., þegar hann segir um slíkt mál, sem er stórkostlega persónulegt, að það sé óviðfelldið, að um það verði umr.? Og til hvers heldur hann, að hann sé skipaður í þingn., ef ekki til þess að gefa upplýsingar um mál og athuga þau efnislega? Það er vissulega ekkert smáatriði, hvort á að taka upp þann hátt að skapa embætti, eins og hér er ráðgert, og ætlast til þess, að þm. geti sameinazt um þau með sínum atkv. án þess að athugað sé, hvort það ruglar embættakerfi landsins.

Ég vildi því lýsa furðu minni yfir þessum ummælum hv. frsm. og vonast til þess, að hann segði þá hreinlega frá því, í hverju þær óviðfelldnu umr. hefðu átt sér stað, sem hann gat um, og hvað hér hefði komið fram vansæmandi eða það, sem ekki hefði átt að eiga sér stað. Jafnframt því vil ég vekja athygli hans á því, að skylda okkar þm. er að ræða mál og gera grein fyrir þeim, en ekki eins og hv. frsm. sagði, að starf n. hefði verið, að vegna þess að hv. Nd. hefði afgreitt málið í einu hljóði að lokum, hefði hann ekki talið sér skylt að athuga málið eða kynna sér, hvort frumstæðustu gagna um málið hefði verið aflað.