02.03.1945
Neðri deild: 142. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (3229)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Mér finnst það ekki bera vott um neinn ófriðarhug, þó að 2 litlar lagagr. séu að velli lagðar.

Mér virðist nú sem hv. 3. þm. Reykv. skilji ekki 1. gr., þótt hann mæli henni bót, og hygg ég, að enginn skilji hana. Eftir þessari gr. skilst mér, að þótt skattanefndir hafi gert eitthvað rangt, þá ætti að halda því áfram, nema tilkynning þar um hafi verið birt með hæfilegum fyrirvara. En hvað er hæfilegur fyrirvari, og hver á að dæma um það? Ég sé ekki ástæðu til að flaustra þessu af núna, því að ef um eitthvert efni er að ræða, þá má þetta bíða næsta þings.