26.01.1945
Efri deild: 111. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (3248)

219. mál, dósentsembætti í guðfræðideild

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. — Hv. 6. þm. Reykv. reyndi að snúa sig út úr þeim villum. sem voru í ræðu hans síðast. Hann sagði, að hann hefði verið deigur að samþ. þetta frv., ef ég hefði ekki verið búinn að lýsa því yfir, að ég mundi veita Birni Magnússyni embættið, því að ég væri svo sanngjarn og kynni að meta réttara en aðrir. En nú vildi ég benda hv. þm. á það, að ef nú risi upp nýr spámaður, fremri Birni Magnússyni, myndum við þá ekki verða ásáttir um að veita honum embættið?

En þegar ég lýsti því yfir, að ég mundi veita sr. Birni Magnússyni, þá er það sökum þess, að ég reikna ekki með því, að nýr spámaður rísi upp, en auðvitað mundi það verða okkur til mikillar gleði, ef svo færi.

Ég gerði ráð fyrir, að sr. Björn mundi sækja og verða dæmdur hæfur sem fyrr, og þá mundi ég veita honum embættið. Ég var ekki svo bjartsýnn að ætla, að annar honum fremri kæmi, slíkt datt mér ekki í hug.

En úr því að svona stendur á, að tryggt virðist, að sr. Birni verði veitt embættið, hvaða nauðsyn er þá að brjóta svo allar reglur sem í þessu frv. er gert og hv. þm. hefur einnig sagt, að væri mjög óviðfelldið?

Hann lýsti yfir trausti sínu á mér; hvaða ástæða er þá til þess, að hann mælir með þessu frv., sem ber vott um mesta vantraust? Í þessu máli fer hann eftir allt öðrum reglum en hann er vanur í sinni röksemdafærslu, og það er af því, að þetta er allt leikaraskapur fyrir honum.

Hann sagði, að ég hefði breytt um skoðun, siðan embættin voru stofnuð við norrænudeildina, og fallizt á þá skoðun, sem hann hefði haldið fram þá. Ég hef ekki breytt um skoðun. Ég hef alltaf verið á móti því að stofna óþörf embætti, en okkur greinir á um, hvort embættin við norrænudeildina væru óþörf. En nú hefur hv. þm. breytt um skoðun. Hugsun hans nú er á þá leið, að úr því að búið sé að stofna óþörf embætti, þá sé sjálfsagt að halda því áfram.

Hv. þm. vildi fara eftir þeirri reglu, að kennarar ættu að vera jafnmargir við hverja deild Háskólans, en ég lít ekki svo á. Ég lít á það eitt, hvaða gagn embættið hefur fyrir þjóðina.