13.12.1944
Neðri deild: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (3274)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. ( Gunnar Thoroddsen):

Þetta frv., sem hér. liggur fyrir, er um breyt. á l. frá 1933 um sjúkrahús o.fl. og er flutt af heilbrigðis- og félagsmálan. Tilefni þess er fyrst og fremst það, að á þ. fyrir alllöngu var flutt frv. af hv. þm. Ak. þess efnis, að reisa skyldi og reka fullkomið sjúkrahús á Akureyri fyrir Norðlendingafjórðung og kostnaðinn við byggingu og rekstur sjúkrahússins skyldi: greiða úr ríkissjóði. Þessu frv. var vísað til heilbrigðis- og félagsmálan. N. sendi þetta mál til mþn. um læknishéraðaskipun, tilkostnað ríkísins vegna sjúkrahúsa, læknabústaða o.fl. Frá þessari mþn. barst svar á þá lund, að n. lagði gegn því að stofna til ríkisrekstrar á öðrum sjúkrahúsum en Landsspítalanum. Um rök fyrir því vil ég leyfa mér að vísa til grg., sem birt er með þessu frv. Þar er tekið fram, að mþn. telur, að rétt sé, að sveitarfélögin sjálf reki þessi sjúkrahús, og það tryggi betur en ríkisrekstur haganlegan rekstur þeirra. Mþn. lagði því til, að í stað þessa frv. kæmi breyt. á sjúkrahúsal., á þá lund, að ríkið greiði ríflegri styrki en verið hefur til stofnkostnaðar og rekstrar sjúkrahúsa almennt. Till. n. voru á þá lund frá því, sem venja hefur verið, að styrkir til sjúkrahúsa og læknabústaða voru hækkaðir úr einum þriðja í helming stofnkostnaðar. Að því er snertir fjórðungssjúkrahúsin þrjú, eitt á Norðurlandi, annað á Austurlandi og það þriðja á Vestfjörðum, skal ríkissjóður greiða 3/4 stofnkostnaðar til þeirra. Þessi munur á almennum sjúkrahúsum og læknisbústöðum annars vegar og fjórðungssjúkrahúsunum hins vegar byggist á því, að hin síðarnefndu eru sótt svo mjög af utanhéraðsmönnum, t.d. ætla ég, að sjúkrahúsið á Akureyri hafi á undanförnum árum gist utanbæjarsjúklingar að 2/3. Af þessari ástæðu verður eðlilegt og sjálfsagt, að ríkið styrki þessi sjúkrahús meir en önnur. Þetta mál var svo rætt í heilbrigðis- og félagsmálan. eftir að álit mþn. hafði borizt, og m. a. var rætt við landlækni og hæstv. félmrh. Við athugun á þessu máli kom fram, að á næstu árum standa fyrir dyrum mjög miklar byggingar sjúkrahúsa og læknisbústaða, og það, sem þegar er byrjað á eða stendur fyrir dyrum á næsta eða næstu tveimur árum, er talið af allfróðum mönnum að muni nema 12 til 13 millj. kr. Auk þess þarf að byggja næstu árin þar á eftir læknisbústaði og sjúkrahús fyrir margar millj. kr. Af þessum ástæðum töldum við hæpið að samþ. till. mþn. eins og þær lágu fyrir, vegna þess að þær mundu hafa í för með sér mjög aukin útgjöld fyrir ríkissjóð á næstu árum. Eftir að heilbrigðis- og félagsmálan. hafði rætt við landlækni og hæstv. félmrh., varð samkomulag um að breyta þessum ákvæðum á þann veg, að sjúkrahús almennt og læknisbústaðir yrðu styrktir úr ríkissjóði með 2/5 stofnkostnaðar í stað 1/3 sem verið hefur, en jafnframt sett í l. ákvæði um, að þessi 3 fjórðungssjúkrahús verði styrkt með 3/5 kostnaðar, og hef ég áður getið um ástæðuna fyrir því.

Að því er snertir rekstur þessara sjúkrahúsa, vildi mþn. ekki fallast á, að ríkið ræki þau, og heilbrigðis- og félagsmn. féllst á þetta sjónarmið, þannig að sveitar- eða bæjarfélögin sjálf, sem að þessum sjúkrahúsum standa, eigi þau sjálf og reki. Hins vegar þykir það sjálfsagt, þar sem margir utanhéraðsmenn sækja sjúkrahús, að ríkið greiði verulegan hluta af rekstrarhalla þeirra. Þess vegna fer frv. fram á, að ríkissjóður greiði sjúkrahúsunum árlega vissan rekstrarstyrk og auk þess fjárhæð, sem nemi þeim halla, er hlýzt af veru utanhéraðsmanna á sjúkrahúsinu, og er miðað við daggjöld ríkisspítala. Að því er snertir þessi rekstrarákvæði, vil ég geta þess, að þetta er að verulegu leyti í samræmi við það, sem veitt hefur verið undanfarin ár á fjárl., en þar hefur verið veittur verulegur styrkur til nokkurra sjúkrahúsa, miðað við svipuð sjónarmið og hér komu fram. Þetta er aðalefni frv., og skal ég ekki fara um það fleiri orðum. Vil ég aðeins taka skýrt fram, að munurinn á till. heilbrigðis- og félagsmálan. annars vegar og mþn. hins vegar, er sá, að mþn. lagði til, að ríkissjóður greiddi 3/4 stofnkostnaðar til fjórðungssjúkrahúsanna, en 1/2 kostnaðar til annarra sjúkrahúsa og læknisbústaða, en samkomulag varð um 3/5 og 2/5. Annað atriði, sem mjög kemur til athugunar, er, að fyrir dyrum standa mjög stórvægilegar framkvæmdir í þessum efnum. og það, sem þegar er byrjað á, nemur um 12 millj. á næstu tveimur árum, eftir því sem heilbrigðisyfirvöldin hafa komizt næst. Nú vildi ég biðja hv. þm. að gæta þess, að með þessu frv. er ekki verið að skylda Alþ. til þessara greiðslna, heldur fyrst og fremst verið að breyta hlutföllunum, og sú breyting byggist á því, að það er að mörgu leyti ósanngjarnt, að héruðin byggi sjúkrahús og læknisbústaði með þeim kjörum, sem nú eru. Fámennum sveitarhéruðum er það algerlega um megn og jafnvel þótt um stærri bæjarfélög sé að ræða, eins og t.d. Akureyri, en auk þess er ósanngjarnt, að það bæjarfélag búi við það hlutfall, sem verið hefur, þar eð svo margir utanbæjarsjúklingar leita sjúkrahúsvistar þar. Það má vel vera, að mönnum hrjósi hugur við þeim fjárframlögum, sem ríkissjóður þarf að leggja fram til þessara mála, en ég vil telja, að ein helgasta skylda ríkisvaldsins sé að sjá borgurunum fyrir læknisþjónustu og sjúkrahjálp. Mörg héruð eru nú læknislaus, og áhrifamesta ráðið til þess að fá lækna í þau er að bæta kjör þeirra og starfsskilyrði.

Ég tel mig ekki þurfa að hafa um þetta fleiri orð, en vil aðeins taka það fram, að ætlazt er til, að þetta mál komi í stað þess frv., sem hv. þm. Ak. flutti um byggingu og rekstur sjúkrahúss á Akureyri (138. mál), og vil jafnframt taka það fram, að hv. þm. Ak. hefur fyrir sitt leyti viljað fallast á till. mþn. um byggingarstyrk og þann rekstrarstyrk, sem mþn. lagði til, en taldi hins vegar of skammt gengið með till. heilbr.- og félmn. Að því er snertir rekstrarstyrkinn, er ákveðið í frv., að nærliggjandi héruð megi skylda til þess að taka þátt í stofn- og rekstrarkostnaði fjórðungssjúkrahúsa, en hv. þm. Ak. kveður sig hafa reynslu fyrir því, að þessi leið sé ekki fær, þar eð -hún mundi ekki bera þann árangur, sem til er ætlazt. Með þessum fyrirvara hv. þm. Ak. ætla ég, að rétt sé að segja, að heilbr.- og félmn. standi óskipt að þessu frv., sem hér liggur fyrir.