22.01.1945
Efri deild: 108. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (3333)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti — Í viðbót við það, sem ég sagði við fyrri umr. viðvíkjandi brtt. hv. 4. landsk., vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp kafla úr 6. gr. læknisskipunarl. frá 1933, sem ég drap á í fyrri ræðu minni: „Nú hefur sveitar- (bæjar- eða sýslu-) stjórn eða stjórnir innan læknishéraðs samþykkt að stofna eða starfrækja fyrir læknishéraðið sjúkrahús, sjúkraskýli eða læknisbústað, eða að taka þátt í stofnun eða starfrækslu sjúkrahúss eða sjúkraskýlis með sveitarfélögum annars héraðs eða héraða, einstökum mönnum eða félögum, en samþykki annarra sveitarstjórna innan læknishéraðsins ekki náðst, og getur þá ráðherra gert samþykktina skuldbindandi fyrir öll sveitarfélög læknishéraðsins, ef meiri hluti héraðsbúa er innan þeirra sveitarfélaga, sem að samþykktinni standa.“

M.ö.o. þó að brtt. verði samþ., þá stæði eftir sú heimild, að sveitarfélög innan læknishéraðs Akureyrar gætu, ef landlæknir mundi fallast á það, krafizt þess að vera með. Ég vil með tilvísun til þessa beina því til hv. 4. landsk., hvort hann vilji ekki taka till. aftur til 3. umr. Að öðru leyti hef ég ekki meira við það að bæta, sem ég sagði áður um till.

Það er rétt, sem tillögumaður sagði, að því er kostnaðarhliðina snertir, að málið liggur þannig fyrir, ef sýslurnar, t.d. Eyjafjarðarsýsla, væru ekki með í byggingu sjúkraskýlis, þá kæmi að ríkissjóði að greiða halla, sem kynni að verða fyrir sjúkrahúsvist manna úr Eyjafjarðarsýslu, sem þá myndu teljast utanhéraðsmenn. Ríkissjóður tekur þá að sér að greiða halla, sem ella mundi falla í hlut hlutaðeigandi sýslufélags, og þannig er hægt að komast hjá því að byggja sjúkrahús. Og þess vegna lít ég svo á, að þegar sýslur hafa klifið þrítugan hamarinn til þess að koma sér upp sjúkrahúsi, hafi Eyjafjarðasýsla komið sér hjá þessu.

Hv. þm. S.–Þ. flutti alllanga tölu. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það, sem hann sagði, að mestu vegna þess, að því er sjálfsvarað. Hv. þm. spurði nokkuð oft, hvernig þeir herrar hugsuðu sér að leysa þetta vandamál, hvernig þeir hugsuðu sér að sjá fyrir sjúkravist öllu því fólki, sem nú verður sjúkratryggt. Þar til er því að svara, að þau sjúkrahús, sem hafa starfað til þessa, halda áfram að starfa, þó að sjúkratryggingin komi. Munurinn er sá, að tryggingin greiðir kostnaðinn í staðinn fyrir það, að einstaklingar og sveitarfélögin hafa greitt hann hingað til. Því er ekki að neita, að sums staðar stendur svo á að hörgull er á sjúkraplássi, og það er ekki ólíklegt, að við sjúkratryggingarnar verði leitað meira eftir rúmi á sjúkrahúsum heldur en áður var, meðan einstaklingarnir borguðu sjálfir, þó að það verði að sjálfsögðu að mestu leyti undir læknunum komið, hvernig það verður í þessu efni.

Í sambandi við það, sem hv. þm. benti á sem lausn þessa máls, að ríkið byggi fjórðungssjúkrahús, er það hugmynd, sem ég get hugsað mér, að eigi eftir að koma til framkvæmda, þó að ég geti ekki hugsað mér, að ráðlegt sé að gera það nú. Ég held, að skortur á sjúkrahúsum verði fljótast leystur í bili með því, að um það sé samvinna milli ríkisstj. og hlutaðeigandi héraða. Og með hverjum hætti slík samvinna eigi að vera, er slegið föstu með þessu frv., sem hér liggur fyrir. Hingað til hefur það verið svo, að engin lagaákvæði hafa verið um það, hver styrkurinn sjálfur væri, sem reiknaður er til sjúkrahúsa. Venja hefur verið að greiða 1/3 af stofnkostnaði, en nokkuð hærra þar, sem um sjúkraskýli eða læknisbústað hefur verið að ræða. Nú er gert ráð fyrir, að þessi hlutföll verði bundin með l., þannig að almenn sjúkrahús fái alltaf tryggða 2/5 af stofnkostnaði úr ríkissjóði. En á þeim stöðum. sem mest mæðir á, leggur ríkissjóður fram 60% eða 3/5. Ég er ekki í vafa um það, að þetta verður til þess að létta undir það, að héruðin sjái sér fært að ráðast í slíkar byggingar frekar nú en áður, ekki sízt, þegar ríkissjóður greiðir rekstrarstyrk. sem nemur 100 kr. á rúm á ári, án tillits til þess, hver notar leguplássið. Fyrir þau sjúkrahús, sem verulega eru sótt af utanhéraðsmönnum, er tryggt til viðbótar, að halli, sem kann að verða á kostnaði við þessa menn, verði greiddur úr ríkissjóði.

Með þessari lagasetningu er verið að setja ákveðnar reglur um það, hvernig samvinna héraða og ríkissjóðs á að vera í þessu máli, til þess að héruðin viti, að hverju þau eru að ganga.

Það er auðvelt að segja, að eina lausnin sé, að ríkissjóður reisi sjúkrahús á Akureyri, Austfjörðum og Ísafirði og sjái um rekstur þessara sjúkrahúsa. En ríkissjóður hefur í fleiri horn að lita en til þessara staða. Og ég hygg, að það mundi draga meir á langinn framkvæmdir í þessu efni, ef hlutaðeigandi héruð vörpuðu öllum áhyggjum upp á ríkissjóð og aðhefðust ekkert sjálf í þessu efni. Ég vil benda á það, að það yrði ekki svo lítill léttir fyrir Reykjavík. ef hún þyrfti ekki að hugsa um að byggja spítala. Það er verið að byggja fæðingarstofnun í sambandi við Landsspítalann, og mér finnst sennilegt, að áframhald verði á þeirri samvinnu í þeim málum.

Hv. þm. orðaði það svo eitt sinn, að ef þetta frv. yrði samþ., þá væri níðzt á Akureyri. Hvað þá um hina staðina, t.d. Ísafjörð, sem hefur byggt stærsta sjúkrahús utan Reykjavíkur og fékk 1/3 úr ríkissjóði? Hvað, ef Akureyri sætti sömu kjörum og önnur sjúkrahús og fengi 1/3 og enga tryggingu fyrir rekstri? Hér er boðið 3/5 eða 60% og trygging sett fyrir rekstri. Það er skiljanlegt, að það væri auðveldara fyrir Akureyri, ef sjúkrahús væri byggt og síðan afhent þeim.

Ég er ekki í vafa um það, að með samvinnu héraða og ríkissjóðs í þessu efni verður fyrr bætt úr þessum vandræðum heldur en ef ríkissjóður ætti einn að sjá um þetta.