31.01.1945
Efri deild: 115. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (3358)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft til athugunar brtt. þær, sem hér um ræðir, á þskj. 961, 962 og 874. Þeir fjórir nm., sem mættu, voru sammála um að leggja á móti því, að brtt. á þskj. 962 yrði samþ. Ástæður eru þær, að n. lítur svo á, að slegið verði fastri með l., þegar þau verða samþ., þeirri meginreglu, er gilda skuli um styrkveitingu til sjúkrahúsa. En sú regla yrði að engu, ef jafnmikil undanþága yrði sett í l. og gert er ráð fyrir á þskj. 962, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þyki nauðsynlegt að dómi heilbrigðisstjórnarinnar að reisa sjúkraskýli eða læknisbústaði til tryggingar læknisþjónustu í afskekktum eða fámennum héruðum, greiðir ríkissjóður það af kostnaðinum, sem nauðsynlegt þykir til þess, að byggingunum verði komið upp.“

N. er þeirrar skoðunar, að hér sé ekki hægt að líta svo á, sem kveðið sé alveg á um það, hvað átt er við með hluta af kostnaðinum; hér sé undir ákvörðun þess komið á hverjum tíma, og sé því óráðlegt að veita ráðh. þetta vald. Þar, sem svo stendur á, að ástæða þykir til að gera frávik frá þeirri reglu, verði að leita til Alþ. um aukafjárveitingu, en ekki á náðir ráðh.

Um hinar tvær brtt. er aðeins það að segja, að báðir flm. halda sig hvor um sig við sína till., og aðrir nm. tóku ekki á fundinum afstöðu til þeirra. Annað held ég ekki þurfi skýringar við og mál þetta liggi það glöggt fyrir, að óþarfi sé að fara um það fleiri orðum.