16.11.1944
Neðri deild: 75. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í C-deild Alþingistíðinda. (3594)

185. mál, hafnargerð í Hornafirði

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. — Ég hef leyft mér að flytja hér frv., sem miðar að því að breyta gildandi hafnarl. fyrir Hornafjörð. Það hafa liðið nokkur ár síðan fyrst voru samþ. hafnarl. fyrir Hornafjörð. Þá var verðlag annað hér á landi en nú og framkvæmdir allar miðaðar við það, svo að samkv. þeim hafnarl., sem þá voru sett, skyldu allar hafnarframkvæmdirnar ekki kosta meira en 130 þús. kr. Hlutfallið milli greiðslu var þannig, að ríkissjóður skyldi greiða ? kostnaðar. En eftir að stríðið brauzt út, þótti bert, að þessi ákvæði nægðu ekki til þess að hrinda í framkvæmd því verki, sem fyrirhugað er á þessum stað og nauðsynlegt.

Á Alþ. 1942–43 flutti ég frv. um heimild til þess að leggja fram ½ millj. kr. til hafnargerðarinnar á Hornafirði. Frv. náði samþ. á því þingi, en þá hafði ekki verið lokið við nauðsynlegar athuganir, svo að verkið gæti hafizt. Vitamálaskrifstofan hefur gert mælingar og athuganir á staðnum og lokið áætlunum um þær framkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru á þessum stað. Birtist áætlun vitamálastjóra með grg. frv. Það fjárframlag, sem gildandi hafnarl. heimila, mun reynast of lítið, miðað við það verðlag, sem nú gildir, og það, sem framkvæmdirnar hljóta að kosta. Þess vegna taldi ég nauðsynlegt að bera fram þetta frv., sem felur í sér þá breytingu, að í stað ½ millj. kr. framlags úr ríkissjóði, komi 1 millj. og 80 þús. kr. samanlagt, sem verja megi til hafnarframkvæmda á Hornafirði. Helztu hafnarbæturnar yrðu þessar: Dýpka þarf innsiglinguna og stækka það svæði, sem bátum er ætlað fyrir legupláss, en sú dýpkun mundi leiða af sér, að mjög hægðist um afgreiðslu strandferðaskipa, en miklir erfiðleikar eru á afgreiðslu þeirra, eins og kunnugt er. Með þessum hafnarbótum mundi tvennt vinnast: öryggi fiskibáta yrði meira og svigrúm betra og afgreiðsla strandferðaskipa yrði greiðari og auðveldari. Kostnaðurinn er sundurliðaður í áætlun vitamálaskrifstofunnar, en ég vil taka það fram, að ekki er með öllu ákveðið, hvort ráðizt verður í allar framkvæmdir, sem áætlun þessi nær yfir. Það er atriði, sem skorið verður úr, þegar til framkvæmdanna kemur, og á ekki að hafa áhrif á framgang málsins. Það er kunnugt, að Hornafjörður er eini verzlunarstaður Austur-Skaftafellssýslu, en hann er auk þess mjög mikill útgerðarstaður, ekki eingöngu fyrir A-Sk., heldur fyrst og fremst fyrir Austfirði. Þangað hafa líka komið bátar af Norðurlandi til útgerðar. Hornafjörður er því landsfjórðungsfiskihöfn. Þær hafnarbætur, sem þar verða gerðar, verða því ekki aðeins Austur-Skaftfellingum til hagsbóta, heldur einnig öllum þeim, sem þangað leita á vetrarvertíðinni. Mér er kunnugt um það, að undanfarin ár hefur orðið að neita ýmsum um aðstöðu til útgerðar, vegna þess hve hafnarskilyrðin heima fyrir eru afleit, eins og nú er. Með þeim framkvæmdum, sem frv. gerir ráð fyrir, mun greiðast mjög úr þessu. Með tilliti til þessarar sérstöðu Hornafjarðar hef ég leyft mér að víkja nokkuð frá þeim venjum, sem nú gilda um framlag ríkissjóðs, að í stað þess, að ríkissjóður leggi fram ? kostnaðar, fer ég fram á það í frv., að framlag ríkissjóðs verði fært upp í ? kostnaðar móti ? frá hafnarsjóði Hafnarkauptúns. — Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða öllu meira um þetta mál við þessa umr. Grg. frv. skýrir það glögglega, en ég vænti þess eindregið, að Alþ. taki þessu máli með velvild og greiði fyrir því, að það nái samþ. þegar á þessu þingi. Að lokum vil ég bera fram þá till., að málinu verði vísað til sjútvn. þessarar d. að lokinni umr.