10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (4350)

12. mál, virkjun Fljótsár

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Mig langar til að fá upplýsingar og vil gera eina fyrirspurn. Hv. frsm. meiri hl. fjvn. talaði um það, að til boða stæði veð í öllum eignum Siglufjarðar til tryggingar fyrir þessu viðbótarláni. Ég held, að hv. frsm. hafi ekki lesið till. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að ábyrgjast fyrir Siglufjarðarkaupstað tveggja milljón króna viðbótarlán til þess að ljúka við virkjun Fljótaár gegn veði í virkjuninni og rafveitu kaupstaðarins.“ — Eru þá eignir kaupstaðarins ekki annað en virkjun Fljótaár og rafveita Siglufjarðarkaupstaðar? Eða fór hv. þm. með rangt mál? Annaðhvort er. Hv. þm. Siglufjarðar lýsti á næstsíðasta þingi, að það væri fjarlægt, að bærinn þyrfti á meira láni að halda, og að hér væri að ræða um „lítilfjörlegt vaxtaspursmál.“ Það voru hans óbreytt orð. Hvað hefur breytzt hjá bænum, þannig að það að fá þessa ríkisábyrgð, sem áður var aðeins lítilfjörlegt vaxtaspursmál, er nú orðið höfuðmál og nauðsynlegt til þess að koma virkjuninni áfram? Eða var okkur áður skýrt rangt frá?