22.09.1944
Efri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (4616)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Flm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. — Það hefur komið fram, að mönnum finnst varhugavert að skipa launamálum ríkisins með sérstökum l. á verðbólgutímum. Það hefur jafnan verið svo, þegar rætt hefur verið um endurskoðun á launal., að þeirri viðbáru hefur verið haldið á loft, að rétt væri að bíða betri tíma. Á árunum fyrir stríð þótti ekki fært að endurskoða l. vegna erfiðrar afkomu ríkissjóðs. Á venjulegum tímum á ríkið svo. erfitt, að ekki er hægt að setja launal., en þegar góðir tímar eru komnir fjárhagslega, eru þeir svo óvissir, að ekki er heldur hægt að setja launal. Ég held, að óhætt sé að sleppa þessum bollaleggingum, einkum ef þess er gætt, að sú grunnkaupshækkun, sem farið er fram á, er ekki miðuð við verðbólgutíma.

Ég vil benda á, að árið eftir lok fyrra stríðs, 1919, var miðað við vísitölu 125 og þótti hóflegt. Reynslan hefur sýnt, að það hefur ekki staðizt. Árið 1925 var vísitalan 327, en þá var reiknað út, hve mikil grunnkaupshækkun hafði orðið frá 1914, og reyndist það vera 50%. Vísitalan var meira en þreföld, en hækkun grunnlaunanna aðeins um 50%. Síðan 1925 hafa sáralitlar breytingar orðið á vísitölunni, án þess að nokkur heildarendurskoðun hafi farið fram, og úrbæturnar hér ekki stórfelldari en það, að launal. hafa hækkað um ein 11%, að viðbættum 25–30%. Á sama tíma fá aðrir starfsmenn 45–120 % hækkun.

Þá er að líta á annað. T.d. er það svo, að 70 kennarastöður standa auðar og nemendum í Kennaraskólanum fækkar stórum. Það er óhjákvæmilegt að gera einhverjar ráðstafanir í því efni. Eins er um presta og hjúkrunarkonur. Horfir þetta til stórvandræða, ef ekki verður að gert.

Hv. þm. Barð. minntist á einstök ákvæði frv. Ég tók fram í fyrri ræðu minni, að ég mundi ekki orðlengja um þau nú, heldur yrðu þau athuguð í n. Margt þarf sjálfsagt að athuga og lagfæra, og við flm. væntum þess, að samkomulag takist, því að hér er um löggjöf að ræða, sem nauðsynlegt er að setja strax.