10.01.1945
Efri deild: 98. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (4629)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Það hefur verið sagt við umr. um þetta mál, að í samningum um myndun ríkisstj. hafi verið ákveðið, að það skyldi ná fram að ganga, þess vegna væri til lítils um að sakast, þótt fjárfrekt þyki og margt sé á annan veg en æskilegt væri í frv. En út af orðum, sem féllu hjá hv. 1. þm. Eyf., vildi ég minna á. að aðeins var samið um það frv.. sem fyrir lá á þskj. 306, með breytingum til móts við óskir minni hl. í mþn., fulltrúanna frá BSRB. Þannig var samningurinn túlkaður í upphafi, þar sem ég var viðstaddur. Ég mun því telja allar aðrar breyt. frv. svik við samninginn, svik við ríkisstj. og alla þjóðina. Það er skýrt tekið fram á bls. 27 í grg., hvaða atriði það voru, sem minni hl. mþn. gat ekki fellt sig við. Og kröfur, sem þá voru gerðar í því sambandi. voru það eina, sem umsamið er að uppfylla. Þetta kemur fram hér á bls. 27 í aths. nm. Andrésar Þormars og Guðjóns B. Baldvinssonar við nál. frá 3. marz 1944 og er rakið í tveim liðum. Þeir telja „mjög vafasamt, að heimilt sé að færa niður laun heilla starfshópa. sem ákveðin hafa verið af löggjafarvaldi eða framkvæmdarvaldi með þegjandi samþykki löggjafans. Vitað er og, að ýmsir þessara manna hafa árum saman búið við hrakleg launakjör, áður en þeir fengu úrbót þá, er veldur því, að þeir eru nú launahærri en aðrir starfsmenn, sem n. hefur sett í sama launaflokk.“ — Þetta var fyrri aðalástæðan til þess, að þeir gá:u ekki samþ. frv. skilyrðislaust.

Síðari liður aths. er þessi grein: „Meðan unnið var að endurskoðun launakaflans, var eigi vitað. hverjar undirtektir ríkisstj. mundu verða um endurskoðun hins almenna kafla launal., sem vér lögðum áherzlu á, að lokið yrði jafnframt. Hörmum vér þá ráðstöfun, að launamálan. skyldi ekki vera falið að vinna að þeirri endurskoðun, þar sem hún hafði aflað sér ýmissa upplýsinga, sem gagnlegar eru og nauðsynlegar við það starf. Viljum vér enn undirstrika þá skoðun vora og umbjóðenda vorra, BSRB, að eigi er síður brýn þörf á að samræma og kerfisbinda öll þau ákvæði, er lúta að skyldum og réttindum starfsmanna eða því. sem í einu orði er oftast nefnt starfskjör.“

Þetta voru einu ágreiningsatriðin og áherzlan mjög mikil á síðara atriðinu, sem þeir vilja undirstrika. En fjhn. kemur einmitt mjög lítið inn á það mál og gerir ekkert til að uppfylla það samningsatriði. Í staðinn fer hún langt út fyrir samningsgrundvöllinn, sem þarna er lagður, með stórfelldar hækkanir út í bláinn, bæði á einstökum launum og heilum launaflokkum. Þeir, sem stóðu að frv., verða nú undrandi að sjá hækkanir, sem þeim hefði ekki dottið í hug við samningu þess. Hvers vegna hefur fjhn. ekki haldið sér innan þess ramma, sem búið var að setja? Er ekki full ástæða, til að n. athugi frv. að nýju með þá reglu í huga að fara hvergi út fyrir hann?

Allir flokkar áttu fulltrúa í mþn. Af hálfu Alþfl. var Guðjón Guðjónsson skólastjóri í Hafnarfirði, af hálfu Framsfl. Sigurvin Einarsson, af hálfu Sjálfstfl. var Jakob Möller, af hálfu Sósfl. Hlöðver Sigurðsson — og síðar í stað hans Sigurður Thorlacius, — en fyrir BSRB voru A. G. Þormar og G. B. Baldvinsson. Formaður n. var Magnús Gislason skrifstofustjóri í fjmrn.

Nú mátti ætla, að þessir menn hefðu haft tækifæri til að undirbúa málið mjög vel. Þó hefur það ekki tekizt betur en svo, að fyrrv. fjmrh. treystist ekki til að leggja frv. n., eins og það var úr garði. gert, fyrir þingið. Þeir, sem nú fluttu frv., hafa. sjálfsagt verið ánægðir með það. En þegar þeir fara nú að athuga það, komast þeir að líkri niðurstöðu og fjmrh. hafði komizt að, frv. er svo fullt. af ósamræmi, að því þarf að stórbreyta, og fjhn sér sér ekki duga annað en flytja nærri 50 brtt. við það. Þetta er ekki óskiljanlegt í sjálfu sér. En undarlegt er, að n. skilur hlutverk sitt svo, að það sé að koma einungis með hækkunartill., eina hækkunina á aðra ofan, í því skyni að fá með því jafnvægi í byggingu frv., hvort sem frv. verði þá í jafnvægi við þjóðartekjur eða ekki.

Ég vil fara nokkrum orðum um nál. fjhn. Hún kennir samningi ríkisstj. nokkuð um brtt. sínar. En allar aðfinnslur vildi hún einnig reyna að taka til greina, hugðist að vísu ekki að gera miklar breyt., „hafði allan tímann sterka tilhneigingu til að raska frv. sem minnst. Í rauninni er líka svo, að allur grundvöllur frv. er óhreyfður og sjálfum launastiganum mjög lítið breytt,“ segir n. En brtt., sem n. segir, að feli „ekki í sér stóra fjárhæð samanlagt“, eru bersýnilega stórfelld röskun á frv. og munu fela í sér mjög háar upphæðir. Ef þetta eru minnstu breyt., sem hægt er að gera, hvað væru þá mestu breyt., sem n. kynni að langa til að gera?

Það er engin smábreyt. á grundvelli frv., að lagt er til að fella allt niður, sem er í 30.-36. kafla, eða sjö stofnanir. Það var kannske eitt af meginatriðunum, sem sætt gátu mann við frv., að þessar stofnanir skyldu vera teknar með, svo að samkeppni þeirra sumra við ríkið í launagreiðslum yrði síður að meini en verið hefur. Fjhn. vill sleppa þessum stofnunum af því, að fjárhald þeirra komi ríkinu svo lítið við. Það er ekki rétt. Þó að bankarnir geti vegna skattfrelsis greitt há laun, mega þau laun ekki verða að mælikvarða út í frá og eiga ekki ætíð rétt á sér. Rétt er að gæta þess um leið, að þessar stofnanir hafa miklu meiri tök á starfstíma sinna manna en ríkið hefur yfirleitt á vinnutíma embættismanna sinna, sem vinna margir ekki hvern starfstíma, sem þeim er reiknaður, oft á því mikill brestur. Ég sé hvergi, að fyrir það sé girt með frv., að menn geti haft stórkostlegar aukatekjur af störfum utan embættis. Það er meginvanræksla að setja nú ekki jafnframt launal. löggjöf um skyldur og starfskjör embættismanna, eins og að var vikið.

Í nál. segir, að brtt. feli ekki í sér stóra fjárhæð til hækkunar. Sjálf hefur n. engin gögn um þetta, aðeins fullyrðir. Lofað er einhverjum gögnum við 3. umr., en þau hefðu þurft að vera þegar komin. Einn af nm., hv. 1. þm. Eyf., hefur þó upplýst nokkur atriði. Hann hyggur, að öll hækkunin af samþykkt frv. muni nema nálægt 7 millj. kr., eins og horfir. Ég vildi spyrja hv. frsm. n., hvort þær tölur séu reiknaðar út í bláinn eða hann geti rökstutt aðra reikningsútkomu. Ég held, að hann hafi ekki áttað sig á því fyrr en í dag, að framlag í lífeyrissjóð mundi hækka um 400 þús. kr. á ári, og hefði það einhvern tíma þótt allstór fjárhæð. Þeirri greiðslu er hreint og beint bætt við launin. Ekki mun honum heldur hafa verið ljóst, að hækkunin á kennaralaunum gagnfræðaskóla mundi nema 570 þús. kr. Ef einn nm. getur lesið þetta út úr gögnum n., hvers vegna getur ekki n. öll séð það eða veitt einhver ákveðin svör um það, hverju hækkanirnar nema? Hefði aðeins verið meiningin að verða við helztu óskum BSRB, hefði þessi viðtæka breyting alls ekki verið gerð. Í nál. stendur: „Með stærstu breytingartill., þar sem nokkrir starfshópar, svo sem póstafgreiðslumenn, talsímakonur, tollverðir og ríkislögregluþjónar, eru færðir í hærri launaflokk, er gengið til móts við óskir frá stjórn BSRB“ — Ég vildi gjarnan heyra það á ýmsum flm. frv., t.d. 1. þm. Eyf., sem enn mun ekki vera blindur á þetta mál, hvernig hann lítur á hina stórfelldu röskun frumvarpsins.

Hér er talað um, að Kvenréttindafél. Ísl. telji hlut kvenna mjög fyrir borð borinn. Ég tel, að aldrei verði svo gert, að einhverjar stéttir þjóðfélagsins telji ekki rétt sinn fyrir borð borinn. Mig stórfurðar á fjhnm., ef þeir hafa þá nokkuð fjallað um þetta mál, að láta frá sér fara sem rök í þessu máli til hækkunar, að einhver fjöldi vilji fá meira samanborið við annan fjölda. Þetta eru frámunalega léleg rök í svona stóru máli, enda skilst mér, að þetta verk allt hafi verið látið hvíla mest á þeim manni í fjhn., sem minnst vit hafði til að greina málið á réttan hátt og engan vilja. Mér skilst hann einn hafi aðallega pælt í þessu til þess að koma fram hækkunum. (MJ: Hver er það?) Framsögumaðurinn. Framsöguræða hans benti til þess, að hann hefði langmest starfað í n. Þá stendur hér, að n. hafi ekki talið fært að gera breyt. á frv. til lækkunar. og þar, sem henni fannst ósamræmi, fannst henni einungis fært að leiðrétta það með hækkunum. — Á 2. síðu hefur n. lagt til í samráði við fræðslumálastjóra, að sá háttur, sem verið hefur, haldist enn um sinn og bæjar- og sveitarfélög greiði ákveðinn hluta af grunnlaunum skólastjóra og barnakennara. Frv. gerði ráð fyrir, að þessi laun væru greidd beint úr ríkissjóði, og mér fannst það eitt ljósasta atriðið í frv., eins og það var.

Það er eftirtektarvert í öllu þessu peningaflóði, að það eru mörg sveitarfélög, sem eiga ákaflega erfitt með að fá nægan tekjustofn. Það eru ekki nema örfáir staðir á landinu, sem hafa fengið, svo að nokkru nemur, af þessum svo kallaða stríðsgróða, eiginlega ekki nema þau sveitarfélög, sem hafa verið svo heppin að hafa eitthvað haft með útgerð að gera. Það er víða orðið svo í seinni tíð, að menn hafa sótt atvinnu til stærri bæjanna og sótt þangað mikla peninga, en orðið að skila öllu útsvari til þeirra staða, sem þeir fengu vinnuna hjá. Mér er kunnugt um, að sums staðar er það svo, að orðið hefur að leggja tvisvar á menn til þess að fá þá upphæð, sem Reykjavík gerði kröfu til af útsvari þeirra. Ég léði máls á þessu, áður en frv. var hér til umr., en nú hefur þetta verið fellt burt. En smærri sveitarfél. eiga ekki heldur marga fulltrúa í fjvn., enda hefur hún ekki leitazt við að sjá fyrir því, að sveitarfél. fái þær tekjur, sem þau þurfa til að standa undir þessum kostnaði.

Hér er einnig í samráði við fræðslumálastjóra gerður greinarmunur á launum farkennara, sem hafa kennararéttindi, og þeirra, sem fræðslumálastjórnin hefur orðið að taka til bráðabirgða vegna erfiðleika á því að fá sérmenntaða kennara. Er ætlazt til, að þeim farkennurum, sem hafa ekki réttindi, verði greiddir 3/4 hlutar af kennaralaunum. Það er einkennileg ráðstöfun, að maður, sem leysir þetta verk vel af hendi, skuli fá lægri laun en annar, sem gerir það kannske engu betur, aðeins vegna þess, að talið er, að hann hafi ekki fengið þá menntun, sem þurfi. Mér er kunnugt um það, að kennarastéttinni ólastaðri, að til eru í þeirri stétt menn, sem ekki geta kennt, þótt hægt hafi verið að klína á þá kennaraskólamenntun. Það er hæpið að taka þessa stefnu í þessu eina tilfelli, að gera upp á milli manna vegna menntunar, þótt þeir stundi sama starf. Það mætti þá eins fara þannig inn á svið fleiri stétta, t.d. embættismannastéttarinnar. Þetta gæti, að því er mér virðist, frekast valdið því, að sveitarstjórnir reyndu að halda sem lengst í menn, sem hefðu minni menntun, til þess að spara hærri laun, þótt kostur væri á vel menntuðum kennara. Flest störf á að launa eftir því, hvernig þau eru leyst af hendi, en ekki eftir því, hve mörg ár viðkomandi maður hefur búið sig undir þau í viðkomandi skóla.

Síðar er vikið að launum lækna og sýslumanna. N. hefur athugað launakjör þeirra í sambandi við ákvæði 16. gr., um aukatekjur þessara embættismanna, og mun leggja fram till. sínar fyrir 3. umr. um þetta atriði. Í sambandi við þetta vildi ég benda á, að margir læknar eru þannig settir, að þeir hafa hærri laun með þeim fríðindum, sem sveitirnar verða að bera þunga af. Þeir hafa t.d. læknisbústað fyrir sama sem enga greiðslu. Ég veit um allmarga lækna, sem hafa 5–6–7 herbergja íbúð og borga 6–900 kr. á ári, og sums staðar er hiti innifalinn. Aðrir læknar borga aftur á móti allt sitt húsnæði. Með núverandi læknaskipan er farið inn á þá braut að byggja yfir þessa menn, sumpart af ríkinu og sumpart af sveitarfélögum. Síðan er það læknafél., sem ákveður, að læknirinn skuli ekki greiða meiri húsaleigu en þetta. Og vegna læknafél. fást ekki læknar í héruð nema því aðeins, að þeim sé ekki gert að skyldu að greiða meira en 900,00 kr. á ári fyrir hús, sem hefur kostað á annað hundrað þúsunda króna. —. N. segist draga það í efa, að ríkið fái staðizt undir þessum útgjöldum til launagreiðslna. En þá þykir mér það því einkennilegra, úr því að hún komst að þessari niðurstöðu, að hún skyldi leggja frv. fram í því formi, sem það er nú.

Þá vildi ég minnast dálítið á sjálfar till. Mér finnst það nokkuð óaðgengilegt, að í frv. skuli ekki vera tekið fram, hvaða embætti fylgi hverjum launaflokki. Þetta er til óhagræðis. Það eru 14 launaflokkar, og maður verður að leita hingað og þangað í frv. til að geta séð, hvaða embætti fylgi hverjum flokki. Ég skil ekki þá nauðsyn n. að hækka laun þeirra hæst launuðu. Ríkisféhirðir er hækkaður úr 10200 upp í 11100 kr. Ég hefði getað skilið þessar hækkanir, ef þær væru til láglaunamanna, því að þá væru þó rök fyrir þeim. Ég á erfitt með að skilja, hvað veldur þessu.

Ég ætla mér ekki að geta um hvert einasta atriði, þótt ýmislegt sé að athuga. Það mundi taka of langan tíma. Ég mun þó ræða nokkur atriði, sem á hefur verið minnzt. Það er þá Skipaútgerð ríkisins. Starfsmenn hennar hafa sent mótmæli gegn því, að þeir verði teknir inn á launalög. Ég skil, að þeir sjá sér hag í því að vera á launum hjá þessari stofnun utan við launalögin. Ég vil benda á, að það er ákaflega handhægt að vera starfsmaður hjá stofnun, sem ekki þarf annað en sækja allt tap í ríkissjóð. Allt tap skipaútgerðarinnar er sótt þangað. Þess vegna er það tvöföld ástæða að skrá laun þessara starfsmanna í launalög ríkisins svo sem sómasamlegt má telja, miðað við það verk, sem afkastað er, og þegar miðað er við stofnun, sem aldrei getur borið sig. Ég vil geta þess, að þetta er ekki mælt í þeim tilgangi, að þessir menn fái ekki þau laun, sem þeir fara fram á. Í framsöguræðu viðurkenndi frsm. rök forstjóra stofnunarinnar um misræmi á launagreiðslum miðað við sjómenn. Ég vil benda á, að laun stýrimanna, sem byggjast mikið á því, hve mikla áhættuþóknun þeir hafa, eru hér engan veginn sambærileg. Það er ekki nema eðlilegt, að skipstjórar og stýrimenn vilji hafa eitthvað fyrir að sigla gegnum tundurdufl og skothríð Þjóðverja. Það var gerð hér árás á Súðina, og einn maður lét lífið. Og það sýnir, hvað fráleit stefna hefur ríkt í n., að hún skuli bera það fram sem rök að gera samanburð á kaupi forstjóra skipaútgerðarinnar og manna, sem stunda hættuleg störf. Það er annað að stunda hin hættulegu störf á hafinu eða sitja á ríkisins kostnað, meðan menn geta tuggið smér. Og þegar menn geta það ekki lengur, þá komast þeir á eftirlaun, þangað til þeir geta ekki lengur dregið andann.

Hv. 1. þm. Eyf. hefur reiknað það út, að miðlungstekjur verkamanna væru 15000 kr. á ári og meðaltekjur bænda 14500 kr. með því framlagi, sem ríkissjóður hefur , greitt til bænda og nú er mjög mikið talað um að fella niður. En í 10. launafl. eru laun 16380 kr. Ef þetta er tilfellið, er það mjög athugavert, hvort laun almennt séu ekki komin miklu hærra með þessum launal. en hægt er að búast við, að mögulegt verði að halda uppi í náinni framtíð. Ég geri ekki ráð fyrir því, að það sé vilji þessara manna, að stuðlað verði að því, að tekjur bænda og verkamanna verði hækkaðar á þessu ári upp í 16000 kr. Fremur hafa komið fram raddir, a.m.k. frá sumum þessara manna, um það, að launin þyrftu fremur að lækka. Þó geri ég ráð fyrir, að þessar stéttir inni meira starf af hendi en þeir, sem komnir eru í 10. flokk. En það eru skipaskoðunarmenn, eftirlitsmaður véla og verksmiðja og fleiri starfsmenn í svipuðum greinum. Ég er ekki viss um, þó að mörgum hafi þótt laun barnakennara of lág áður, að þeir hafi metið það sem skyldi, að þessir menn hafa ekki innt nema 7–9 mán. starf af hendi og hafa átt 3–5 mán. frí á þeim tíma árs, sem langheppilegastur er til að auka atvinnutekjur sínar. Og það er ekki hægt að telja mér trú um það, að þeir hafi nokkuð illt af því að fara í erfiðisvinnu þann tíma og hvíla sig frá öllum setunum. Með því móti geta þeir aukið mikið tekjur sínar. Það þarf að meta það, hvað maðurinn lætur fyrir þau laun, sem hann fær. Ég vildi gjarnan fá það upplýst, hvort greiða eigi orlofsfé ofan á þessi laun samkv. orlofsl. (HG: Það er yfirleitt orlof hjá þessu fólki.)

Ég hef borið fram brtt. á þskj. 714, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Verði lögum þessum síðar breytt í heild eða í einstökum atriðum til launalækkunar, skulu þeir, sem laun taka eftir þessum lögum, færðir niður í þau laun, sem þar verða ákveðin fyrir sama starf.“ — Ég tel, hvernig sem fer um afgreiðslu þessa frv., að nauðsynlegt sé að fella þessa grein inn í, nema ef tekin verður inn í það till. frá hv. þm. S.-Þ., á þskj. 778, þar sem hann leggur til, að lögin gildi aðeins ákveðinn tíma eða til ársloka 1947. Vildi ég þó auðvitað miklu heldur, að till. mín á þskj. 714 yrði samþ., því að e.t.v. kann svo að fara, að öll laun í landinu verði lækkuð innan þess tíma. Það getur ekki skaðað að setja till. mína í l., því að sé það meining n., að þetta skuli vera svona, þá þurfa ekki að ganga dómar um þetta eftir á. Það er nefnilega tekið fram í brtt., að ríkið beri ekki ábyrgð á launum hvers embættismanns til lífstíðar, þótt laun verði lækkuð við sama embætti eða sama starf. Mér virðist, — ef veitt er embætti eftir þessum launal., — að þeir, sem embættin hljóta, haldi launum samkv. þessu frv., ef annað er ekki tekið fram. Ég vil þegar taka það fram, að ég mun ekki sjá mér fært að fylgja neinni till. um þetta mál lengur en til 3. umr., nema þetta sé sett inn í gang málsins, eins og ég mun ekki heldur sjá mér fært að fylgja neinum þeim till., sem koma frá fjhn. á þskj. 692, vegna þess að ég tel, að það séu, eins og ég tók fram áðan, brigðmæli við alla þá, sem fylgja ríkisstj. (BSt: Ég er þá mesti stjórnarstuðningsmaðurinn í n.!) Já, það er einmitt það, sem ég hef haldið fram, þegar mest hefur verið rifizt við mig um framgang málsins, að í mitt skarð hlypi alltaf hv. 1. þm. Eyf. Ég get alveg endað ræðu mína með því að halda því fast fram, að komi þetta mál til með að velta á atkvæði mínu eða hans, þá treysti ég mér ekki til að fylgja því lengra en innan þeirra takmarka, er ég hef þegar lýst.