29.01.1945
Efri deild: 113. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í B-deild Alþingistíðinda. (4651)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Magnús Jónsson:

Ég skal ekki lengja mikið umr. um þetta mál og ekki tala mikið um það almennt. Ég vil samt að gefnu því tilefni, að bæði hv. frsm. meiri og minni hl. minntust ofur lítið á starfið í n., þá vil ég, form. í n., taka undir það, að n. hefur lagt á sig mikið við þetta mál og ætíð verið reiðubúin til að koma á fundi, jafnvel þegar fundir hafa verið í d. N. hefur unnið að málinu eftir því, sem hún hefur getað, en eins og vant er, þá orkar auðvitað tvímælis um niðurstöðuna.

Ég vil, að það komi fram, sem mér finnst, að sé ekki einskis virði, að n. hefur tekið fyrir öll vandamál, sem fyrir, hafa komið í frv., þó að það hefði verið nokkur freisting að skjóta nokkrum þeirra fram af sér og láta hina d. um að eiga við þau. Ég held því, að þessi d. geti vel skilizt við þetta mál þannig, að n. hafi gert skyldu sína að þessu leyti. Hitt er annað mál, hvernig þær niðurstöður eru, sem að hefur verið komizt. Ég geri ráð fyrir, að fjhn. Nd. finni, ef hún tekur málið verulegum tökum, að það er þó nokkuð vandasamt í því.

Ég skal þá snúa mér að brtt. og aðeins minnast á, brtt. mínar og ekki tala langt mál um þær, því að þær liggja ljós fyrir. Þær eru fluttar á þskj. 975 og eru tvær. Önnur er brtt. við 34. brtt. meiri hl. n. og er viðvíkjandi því mikla vandamáli, sem þar er um rætt. Brtt. n. er um, hvernig fara skuli með innheimtulaun sýslumanna og bæjarfógeta og annarra hliðstæðra embættismanna. Till. n. er um það, — og skal ég þó ekki rifja það upp í löngu máli, — að helmingur þessara innheimtulauna skuli nú renna óskorað í ríkissjóð. Er það mjög stórvægileg breyt. Það hefur þótt óhæfilegt, að tekjurnar rynnu allar til einstakra embættismanna, og þá er það þó lausn út af fyrir sig að lækka þessar tekjur um helming og líta svo á, að þá væri það nokkuð við hóf. Á hinn bóginn er það svo, að till. meiri hl. n. lutu að því að skipta hinum hlutanum í tvo hluta, þar sem hlutaðeigandi embættismaður fær þennan hlutann, en hinn hlutinn rennur í tryggingarsjóð, sem á að standa undir ábyrgð eða áhættu við innheimtu o.fl., og virðist eftir till. þeirra ekki fullkomlega ljóst, hvort þessi fjórði partur teknanna skuli renna í ríkissjóð. Það er um þann hlutann, sem ég geri mína brtt., sem er á þá leið, að þessi fjórði partur innheimtuteknanna verði að vísu tekinn frá og varðveittur af fjmrn., en ekki lagður í sameiginlegan sjóð, eins og helzt gæti virzt vera bent til í brtt. meiri hl. heldur inn á sérstakan reikning fyrir hvert embætti. Þessi hluti skal svo standa undir þeim skakkaföllum, sem hlutaðeigandi embættismaður kann að verða fyrir við innheimtuna, en þegar hann lætur af embætti, annaðhvort fyrir fullt og allt eða flyzt í annað embætti, þá skal það fé, sem kann að verða eftir í slíkum sjóði, verða eign hans.

Það er auðséð, að við þau embætti, sem hafa ekki miklar innheimtutekjur, getur farið svo, að ekkert verði eftir í þessum sjóði, en þess eru dæmi hjá embættismönnum, sem hafa embættisrekstur sinn í ágætu lagi, að óhöpp komi fyrir, t.d. að stimpilmerki tapist eða eitthvað þess konar, sem fljótt getur numið nokkrum þúsundum króna, eða þeim hnuplað frá honum. Getur það orðið til þess, að við embætti hans verði ekki miklar embættistekjur. Það getur farið svo, að þessi fjórði partur nægi naumast til að standa undir því tapi, þó að embættismaðurinn sitji alllengi í embættinu.

Það, sem ég hef aðallega að athuga við brtt. meiri hl., er það, að með því að setja þessar tekjur allar í sameiginlegan sjóð virðist mér vera opin leið fyrir óhlutvanda menn í einhverjum af þessum stöðum að syndga upp á náð þessa sjóðs. beinlínis gera eitthvað það, sem þeir hafa upp úr, en hallinn er svo borinn af þessum sameiginlega sjóði, sem m.a. er aurað í af þeim embættismönnum, sem standa samvizkusamlega í stöðu sinni. Mér finnst dálítið varhugavert að stofna til þess, að eitthvað slíkt gæti fyrir komið. Á hinn bóginn finnst mér, að það sé í raun og veru ekki annað en verðlaun fyrir ýtrustu nákvæmni um alla þessa hluti, sem ríkissjóður á svo mikið undir, að embættismaður, þegar hann yfirgefur embættið, fái það, sem hann með árvekni og samvizkusemi hefur aurað saman í þennan sjóð. Það má náttúrlega segja, eins og hv. 1. þm. Eyf. sagði, að menn eigi að sýna fulla samvizkusemi, án þess að þeir séu hvattir til þess á þennan hátt, og ég veit, að allur þorri þessara manna starfar þannig. En án þess að verið sé að gefa í skyn, að menn vilji ekki vinna vel án sérstakra launa, hefur það jafnan þótt vera skynsamleg tilhögun gagnvart þeim mönnum. sem mikla fjárhagslega ábyrgð hafa, að það sé þeim nokkur fjárhagsleg hvöt að rækja starf sitt með ýtrasta dugnaði og nákvæmni. Ég sé ekki, að sú hliðstæða, sem hv. 1. þm. Eyf. nefndi, sé nokkur hliðstæða, nefnilega innheimta bankanna. Þær eru auðvitað svo margfalt stórkostlegri, vegna þess að bankarnir innheimta hundruð milljóna á ári, og fyrir utan bankastjórnirnar sjálfar, sem ráða útlánum, þá eru bankastofnanirnar allar eitt innheimtukerfi, og þar er búið svo sterklega um með eftirliti og endurskoðun og sérstakri endurskoðunarstofnun, að þar á ekki að geta komið til fjárhagsleg ábyrgð nema sú, sem kemur daglega frá innheimtunni og er því allt öðruvísi og ópersónulegri en hjá hinum dreifðu embættismönnum ríkisins, sem ríkisbúskapnum stendur þó á svo miklu.

Ef maður lítur á þann embættismann, sem nefndur hefur verið í þessu sambandi, tollstjórann í Reykjavík, þá er þetta svo geysilega mikill hluti af öllum tekjum ríkisins, sem hann innheimtir, að það er í raun og veru ekki áhorfsmál um nokkur þúsund krónur, sem rynnu í vasa hans fyrir verulega vel rækt starf á þessu sviði. Hv. 1. þm. Eyf. segir, að ekki sé frekar ástæða til að hafa það á þennan hátt við þessa menn en prófessora við háskólann. Ég held, að það sé ekki sambærilegt. Þar koma ýmsar aðrar ástæður til greina, eins og fræðiiðkanalöngun. Það dregur marga menn í þau embætti, þó að þeir hafi oft lapið dauðann úr bláskel í þeim stöðum.

Ég skal svo ekki fara mikið fleiri orðum um þessa brtt. Hv. þm. hafa vafalaust áttað sig á, hvaða munur er á brtt. minni og till. meiri hl. Hér er í flestum tilfellum um smáupphæðir að ræða hjá hinum einstöku embættismönnum, en getur numið nokkurri upphæð hjá þeim, sem mestar innheimtutekjur hafa.

Hv. 1. þm. Eyf. gerði að umtalsefni í sambandi við þessa till. laun , sýslumanna og bæjarfógeta samkvæmt till. n. Hann fór fram á það við hæstv. forseta, að hann bæri fyrr upp til atkvgr. brtt. við 37. gr. en við 9. gr., um launaákvæðin. Mér finnst þetta í fljótu bragði eðlilegt, því að launaupphæðin breytist mjög eftir því, hvaða till. verður ofan á í þessu efni. Þó vil ég benda hv. dm. á, að suma af þessum embættismönnum, sýslumenn úti um land, skiptir þetta litlu máli, og þau laun, sem ákveðin verða í frv.. verða aðallaun þeirra, því að aukatekjur þeirra eru tiltölulega litlar.

Ef bornir eru saman prófessorar og sýslumenn, þá verð ég að segja, að mér finnst eðlilegt, að sýslumenn hafi einmitt svipuð laun og prófessorar við háskólann. Þótt sýslumenn hafi kannske nokkur þúsund krónum meiri tekjur, sem embættinu fylgja, þá er svo margt. sem dregur menn að þessum að mörgu leyti hugleiknu embættum, prófessorsstöðunum, það er fræðaáhugi og tóm til að sinna þeim, sem dregur menn áreiðanlega langmest að þeim störfum. Þeim fylgir gott tóm yfir sumartímann, sem menn nota þá til fræðiiðkana. Þar að auki vil ég minna hv. 1. þm. Eyf. á þennan sífellt aukna og alkunna straum til Reykjavíkur. Af hverju stafar hann nema því, að menn vilja heldur eiga heima hér, þykir það aðgengilegra en vera úti í kauptúnunum. Það væri naumast nokkur maður, sem gæti valið um prófessorsembætti og sýslumannsembætti, sem mundi fremur taka sýslumannsembættið. Sýslumenn eru fulltrúar ríkisvaldsins hver á sínum stað, og þeir eru látnir þar í öll hugsanleg störf, sem ríkið þarf að láta vinna á þeim stöðum. Þeir eru oddvitar sýslunefnda, og á þeim hvílir að verulegu leyti fjárhagur Íslands. Ég held því, þótt ég telji rétt að bera till. upp eins og hv. þm. mæltist til, ef hæstv. forseti sér sér það fært, að það geri nokkurn mun um ákvarðanir á 9. gr., hvað verður ofan á um 37. gr.

Hv. 1. þm. Eyf. vildi sýna fram á, að innheimtulaun sýslumanna og bæjarfógeta væru nokkurs konar leifar frá þeim tímum, þegar menn tóku embættin á leigu og höfðu svo tekjur af því, er innheimtist. Þótt þetta sé sennilega sögulega rétt, þá má sjá mörg dæmi um það, að alveg nýjar stofnanir taka upp sömu aðferð. Vil ég þar í fyrsta lagi benda á lífeyrissjóð. Þar er farin sú leið, að innheimtumönnum er heitinn fjárhagslegur hagnaður, ef þeir leysa verkið vel af hendi. Og þannig er það með ríkið eins og aðrar stofnanir, að það vill hvetja starfsmenn sína til að rækja störf sín sem bezt og heita þeim nokkurri fjárhagslegri þóknun fyrir, auk hinnar góðu samvizku fyrir að finna, að þeir hafa leyst starf sitt vel af hendi. Ég hef borið fram þessa brtt. beinlínis vegna þess, að ég sé mér ekki fært annað en gera tilraun til þess, að innheimtumenn haldi einhverju af þessum tekjum áfram. Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þessa brtt.

40. gr. frv. var bráðabirgðaákvæði. Greinin var um það, eins og mönnum er kunnugt, að enginn skyldi persónulega lækka í launum við ákvæði launal. Þessi grein var að vísu mjög óákveðin að orðalagi, og lá ekki beint við, hvað í henni fælist. Það varð ekki séð, hvort miðað væri við grunnlaunin og allar uppbætur eða 25–30% að viðbættum smáliðum til einstakra embætta. Ég var með því að fella greinina niður, vegna þess að hún var svo óljós og hæpið, að nokkur starfsmaður hefði gagn af henni. En ég skal játa það hreinskilnislega, að ég hef skipt um skoðun. Eftir að greinin var felld niður, fór ég að verða þess var. að allmargir starfsmenn söknuðu hennar mjög mikið, hvort sem hún hefur nú verið mikils virði fyrir þá eða ekki. Og þetta er nú ástæðan fyrir því, að ég hef skipt um skoðun, þótt ég hins vegar telji, að gr. hafi haft litla þýðingu fyrir þessa menn. Ég hef þó borið hana fram í öðru formi. Í launal. frá 1919 er ákveðið, að þau tækju til þeirra embættismanna, sem þá sátu í embættum, og þeir skyldu sjálfir velja um það, hvort þeir vildu ganga undir launal. þau eða sitja við þau kjör, sem þeir höfðu áður. Með því ætti orsökin til óánægju að vera numin burt. Með þessari tilhögun velur hver maður um þetta upp á eigin ábyrgð. Ég vil taka það fram, að brtt. mín er alveg óháð þeim deilumálum, sem komið hafa upp hér í d. við fyrri umr. um það, hvort Alþ. hafi vald til að lækka laun manna. Mér finnst, að með ákvæði l. frá 1919 og sömuleiðis þessu ákvæði, ef samþ. verður, sé því miklu frekar slegið föstu, að Alþ. hafi þetta vald. En Alþ. hefur þá einnig það vald að ákveða, að launin skuli ekki lækka. Ég hef svo sett inn í brtt., að greiða skuli launin eins og ákveðið er í l., þar til embættismaður segir til um annað, og til þess að óvissa ríki ekki um þetta, verða menn að segja til innan þriggja mánaða, annars er litið svo á, að þeir gangi inn í hin nýju launalög.

Eins og frsm. gat um, er þetta fyrst og fremst gert samkv. tilmælum frá þeim starfsmönnum við símann, sem borgað er eftir kauptaxta iðnaðarmanna. Það er augljóst, að það kostar mikið fyrir símann að halda þessum .mönnum, en það er ekki hægt að gera ráð fyrir, að hann haldi þeim, ef frv. verður samþ. óbreytt, og þá verður síminn að leita til hins almenna vinnumarkaðs. og tæplega verður það sparnaður fyrir ríkissjóð. — Það er ákaflega erfitt að elta þannig uppi hvert einstakt tilfelli. Einfaldasta ráðið er að setja öruggt speldi, þar sem hver maður á það við sjálfan sig, hvort hann gengur undir l. eða ekki. Ég vil benda á það, að ég man ekki eftir því, að nokkurn tíma hafi laun embættismanna verið lækkuð með launal. eða reglum, meðan þeir gegndu störfum. Þetta er vitanlega hægt, en ég óska ekki eftir því, að það sé frekar gert nú með þessum l. Og Alþ. getur nú, eins og 1919, sett þetta ákvæði inn í lögin.