20.02.1945
Neðri deild: 133. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1782 í B-deild Alþingistíðinda. (4687)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Ég flyt brtt. á þskj. 1148 og 1160.

Fyrri brtt. er um það, að síðasta málsgr. 30. gr. falli burt, en hún fjallar um laun skólastjóra og kennara við gagnfræða- og héraðsskóla. Þessi gr. var ekki í upphaflega frv., en var skotið inn í. Nú má deila um, hvort rétt sé að hafa þessa starfsmenn, sem hér um ræðir, skólastjóra og kennara, á launal., en hitt nær ekki nokkurri átt, að fela skólanefndum það, hvort þessir menn skuli lúta launal. eða ekki. Þetta gæti orsakað hið mesta misræmi, því að ein skólan. gæti neitað, en önnur samþ. að láta þetta gilda eða þá látið þetta gilda um einstaka starfsmenn, en ekki aðra,. Og ef þetta atriði á að gilda um kennara við gagnfræða- og héraðsskóla, þá mætti hið sama ákvæði gilda um barnakennara.

Hinar brtt. mínar eru á þskj. 1160 og eru við 16. gr. frv., en þar segir í niðurlagi 16. gr.: „Af grunnlaunum kennara og skólastjóra endurgreiðist ríkissjóði 1/3 hluti úr bæjarsjóði og 1/4 hluti úr sveitarsjóði viðkomandi skólahéraðs.“ Sá háttur hefur lengi verið hafður, að kennarar tækju nokkurn hluta launa sinna úr ríkissjóði og hitt úr sveitarsjóði, þannig að ríkið greiðir þetta fyrst, en á svo aðgang að sveitarsjóði. Ég álít það með öllu óþarft að leggja þennan hagga á ríkissjóð, og það er ekki heldur til hagræðis fyrir kennara, sem hefur þótt þægilegt að taka þennan hluta úr sveitarsjóði, því að ég veit ekki til, að nokkurn tíma hafi orðið vanskil á þessu.

Hin till. er orðabreyt. Skólahérað er ekki til samkv. íslenzkum lögum, og mun hér vera átt við skólahverfi.

Aðrar brtt. flyt ég ekki, en vildi minnast á fáein atriði þessa máls.

Hv. fjhn. hefur flutt brtt. um að lækka laun háskólabókavarðar stórlega. Þegar embætti þetta var stofnað, var það ákveðið, að hann skyldi hafa sömu laun og prófessorar. Mér kemur þetta, því mjög undarlega fyrir sjónir. Fjhn. hefur mikið gert að því að lagfæra launakjör einstakra manna með frv. þessu og hefur hækkað laun þeirra, en þessi ágæti maður hefur aftur á móti verið lækkaður. Hv. frsm. sagði, að háskólaritari væri í þessum launaflokki og væri því rétt, að þessir menn væru í sama launaflokki. En störf þessara manna eru mjög ólík. Háskólabókavörðurinn er bundinn við störf sín allan daginn, en ritarinn er miklu frjálsari og hefur aukastörf, svo að aðstaða þeirra er gerólík. Önnur ástæðan var sú, að þetta starf væri hliðstætt starfi aðstoðarbókavarða á landsbókasafninu. En þetta er nú orðið stórt safn, og þarna er lestrarsalur, sem er svo mikið notaður, að það nálgast lestrarsal landsbókasafnsins. En landsbókavörður hefur fimm aðstoðarmenn, en þessi engan, og hefur hann því meira að gera. Ég vænti því, að þetta verði lagfært og að þessi brtt. verði felld, því að hún brýtur í bága við ákvarðanir Alþ. hér að lútandi. Ég skal og taka það fram í þessu sambandi. að það er vilji háskólans að vanda jafnan val þessa manns, að það verði ávallt viðurkenndur fræðimaður sem nú.

Ég ætla svo ekki að ræða þetta frekar. en þó veldur það undrun minni, í sambandi við 25. gr. frv., að fjhn. skuli ekki enn þá hafa samþ. sameiningu þessara tveggja stofnana, og undrast ég, að n. skuli hafa sofið á þessu í fimm mánuði. (SigfS: Það þarf ekki lög til þess að sameina þær.) Ef svo er ekki, þá hefði n. þó átt að skila áliti.

Ég vil svo loks beina fyrirspurn til hæstv. fjmrh.

Í 33. gr. frv. segir: „Á grunnlaun samkvæmt lögum þessum skal greiða verðlagsuppbót eins og hún er á hverjum tíma samkv. útreikningi kauplagsnefndar.“ — Þetta mun eiga að þýða fulla verðlagsuppbót, en í l. er ákveðið, að verðlagsuppbót skuli eigi greiðast á hærri laun en 650 kr. grunnlaun. Nú vildi ég spyrja n. og hæstv. ráðh., hvort ekki sé rétt að fella það ákvæði úr lögum, svo að þetta stangist ekki á.

Þá hygg ég, að það sé ekki fleira, sem ég þarf að taka fram.