20.02.1945
Neðri deild: 133. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (4691)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. — Það féllu nokkur orð hjá hv. 2. þm. Rang., er nú var að ljúka máli sínu, sem gefa mér ástæðu til að segja hér nokkur orð og gera nokkrar aths. við það, sem hann hefur rætt hér.

Hv. 2. þm. Rang. mælti hér fyrir brtt., sem hann hefur flutt á tveimur þskj., sem hér liggja fyrir. Hann byrjaði á því. að hann lét þess getið mjög framarlega í ræðu sinni, að hann mundi taka þessar brtt. aftur til 3. umr. í þeim tilgangi að athuga þær betur og efni þeirra. En samt sem áður flutti hann nú alllanga ræðu til skýringar á efni þessara brtt. Ég held satt að segja, að það viturlegasta, sem kom fram í ræðu þessa hv. þm., hafi verið sú yfirlýsing, að hann skyldi taka þessar brtt. aftur til 3. umr., því að ég held, að ástæða sé til þess að taka þær til nokkurrar yfirvegunar, a.m.k. ef bak við þær stendur sá skilningur, sem virtist koma fram í ræðu hans. Ég hef veitt því athygli, að eins og frv. liggur nú fyrir, þá er dálítið ósamræmi í ákvæðunum um starfstíma kennara hinna ýmsu skólaflokka. Og ég hafði sjálfur hugsað mér að gera það að umtalsefni, áður en til lokaafgreiðslu málsins kæmi í þessari hv. d., en skal ekki fara langt út í það nú. En ég vildi benda hv. 2. þm. Rang. á það, að ég fæ ekki betur séð en a.m.k. önnur brtt. hans sé óþörf, því að ég fæ ekki betur séð en fjhn. hafi nú þegar lagt til í brtt. þeirri, sem hún flytur sameiginlega, að starfstími gagnfræðaskólakennara og héraðsskólakennara skuli miðast við níu mánuði eða m.ö.o. nákvæmlega það sama, sem vakti fyrir hv. 2. þm. Rang. Að þessu athuguðu væri hyggilegast fyrir hann að taka alveg þá,. brtt. aftur.

En út af þeim skilningi, sem virtist koma fram. hjá honum um starf þeirra kennara, sem ræðir um í 17. og 30. gr. frv., þá vildi ég mega benda hv. þm. og öðrum á það, að í l. um héraðsskóla. er svo ákveðið, að kennarar og skólastjórar skólanna eru fastir starfsmenn skólanna árlangt með fjögurra vikna sumarleyfi. Þeir eru samkv. þeim l., sem um þessar stofnanir fjalla, starfsmenn skólanna árlangt. Og í þeim l. segir enn fremur, að skólan., sem sér um starfsemi slíks skóla, því að þeir eru einkastofnanir að nokkru leyti, skuli „semja um við kennara í samráði við skólastjóra, hvers konar störf þeir skuli inna af hendi við andlega eða líkamlega vinnu hvert vor og sumar, þegar kennsla fer ekki fram í skólanum. — Ég fæ því ekki séð, að það, sem hv. 2. þm. Rang. ræddi hér um starfstíma kennara, fái staðizt, þegar það er borið saman við þau lagaákvæði, sem þeir starfa eftir. Og af því leiðir líka, að sú brtt., sem fyrir liggur frá hv. fjhn. um. að níu komi í stað sjö, þar sem um kennslumánuði er að ræða í slíkum skólum. hefur í raun og veru ekki mikið að segja. En ég vil benda á, það og mun e.t.v. koma með brtt. um það við 3. umr. málsins, að eðlilegra væri, að í staðinn fyrir „9 mánaða kennslutíma“ kæmi: 9 mánaða starfstíma. Virðist þetta rétt, þar sem þessir menn eru bundnir við störf í stofnununum, jafnvel þótt það sé ekki kennsla. Það er formsatriði, sem taka má til athugunar við 3. umr. málsins.

Ég skal nú ekki fara út í mikinn tölulegan samanburð um laun kennara og laun annarra starfsmanna. þótt ræða hv. 2. þm. Rang. gæfi nokkurt tilefni til þess. Það yrði fulllangt mál að fara út í það nú á þessu stigi. En út af því, sem hann sagði um vinnustundir kennara, vildi. ég mega benda honum á, að í því gætir verulegs misskilnings. Það er að vísu rétt, að samkv. þeim l. um skólastarfið, sem kennarar fylgja, er ákveðið, að kennslustundir þeirra í skólanum skuli vera 30 á viku, eða fimm á dag að jafnaði. En það veit hver einasti maður, sem nokkuð þekkir til kennslustarfa, að vinna kennarans er ekki öll fólgin í því að sinna störfum í kennslustundum. Bak við hverja kennslustund liggur mikil undirbúningsvinna, sem enginn kennari kemst hjá að inna af hendi, svo framarlega sem hann vill rækja starf sitt af þeirri skyldurækni, sem honum ber. og það mjög mikil undirbúningsvinna. Og það veit hver einasti kennari og hver maður, sem nokkuð þekkir til kennslustarfa. að kennsla er ekki vel af hendi leyst, nema mikil undirbúningsvinna sé innt af hendi fyrir hvert dagsverk, sem kennari innir af hendi í kennslustofu. Og ég hygg, að það sé álit kennara, sem bezt þekkja til starfans, að fimm stunda vinna í kennslustofu krefjist a.m.k. átta stunda starfs á dag. Þetta vildi ég biðja hv. 2. þm. Rang. að taka til yfirvegunar fyrir 3. umr., á meðan þessar brtt. liggja nú til athugunar hjá honum og öðrum hv. þm. Allir útreikningar, sem sá hv. þm. var hér með um daglegan starfstíma kennara, ef jafnað er ,starfstímanum niður á allt árið, eru því algerlega út í hött og hafa ekki við rök að styðjast. Ég vil t.d. þessu til áréttingar benda hv. þm. á starf heimavistarskóla í sveitum. Þar er ekki. aðeins að ræða um kennslustundir. Kennarar þar taka á sína arma hóp barna á þeim aldri, sem skólaskyldualdur segir til um, jafnvel nokkra tugi barna. Og sums staðar í þessum skólum er það aðeins einn maður, sem á að gæta þessara barna frá morgni til kvölds. Þar eru það ekki aðeins kennslustundirnar, sem baka kennaranum erfiði, heldur allt starfið, frá því er hann rís úr rekkju á morgnana og þar til er börnin ganga til náða á hverju kvöldi. Og ég ætla, að það sé þyngra starf en margir starfsmenn hins opinbera og aðrir vinna, bæði á skrifstofum og við fleira, sem ekki þarf upp að telja. Þegar þetta er athugað, eins og það er í raun og veru, og metið með nokkurri sanngirni. verður það enn ljósara, að þau ummæli, sem um þetta féllu hjá hv. 2. þm. Rang., eru úr lausu lofti gripin.

Að svo stöddu sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, nema eitthvað nýtt komi fram. [Fundarhlé.]