23.02.1945
Neðri deild: 137. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (4707)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Svo stendur á, að enginn er á mælendaskrá og brtt. ekki komnar úr prentun, en ég vil með leyfi hæstv. forseta mæla fyrir þeim till., sem ég er flm. að. Þær eru allar miðaðar við brtt. fjhn. á , þskj. 1206. Hin fyrsta er við brtt. n. L4, þar sem aðalféhirðir og aðalbókari tollstjóra eru í VIII. launaflokki 16600–9000 kr.). Tillaga mín er að bæta þar við deildarstjórum tollstjóra. Þeir deildarstjórar, sem tollstjóri hefur, eru ekki teknir upp í frv. Í bréfi til fjhn. Ed. gerði tollstjóri ýtarlega grein fyrir málinu, og skal ég ekki fara út í þá grg. En í sambandi við þá verkaskipting, sem hann telur nauðsynlega, verður að telja störf deildarstjóranna mjög ábyrgðarmikil. Þarna er aðeins um 2 eða mest 3 embætti að ræða, og skipa þau þeir menn, sem einna lengst hafa unnið í tollstjóraskrifstofunum. Hér er ekki um svo stórt fjárhagsatriði að ræða, að ég telji þörf á að tala um það langt mál. Alþingi getur ekki haft næg kynni af sérhverju starfi í vo fjölmennum stofnunum sem tollstjóraskrifstofan er, og verður þá að kynna sér álit forstöðumannanna og haga sér, vitanlega með allri gát, í samræmi við það.

Þá flyt ég á þskj. 1220 brtt. um að bæta aths. aftan við 1. brtt. n. við 8. gr., að fulltrúa I. fl., samkv. 3. tölulið, sem starfað hafa í 6 ár, megi með samþykki hlutaðeigandi ráðuneytis hækka í VI. launaflokk úr VII. fl. Þarna er um að ræða fulltrúa hjá borgardómara og sakadómara, menn, sem hafa gegnt alllengi störfum sínum og öðlazt þar mikla reynslu. Það er alls ekki eðlilegt, að menn með svo mikla æfingu og reynslu í vandastöðu eigi þess engan kost að komast upp í sömu föst laun og sýslumenn, sem einnig hafa aukatekjur. Þeir menn, sem nú skipa störfin, eru í mjög miklum metum hjá þeim, er til þekkja. Ef dómsmrh. væri veitt þessi heimild, mundi hann neyta hennar þá og því aðeins, er víst væri, að um þá starfsmenn væri að ræða, sem missir þætti að, ef þeir hyrfu til annarra starfa.

Loks er brtt., sem ég flyt með 3 öðrum hv. þm. á þskj. 1222. Hún er um það að nema burt úr frv. póstafgreiðslumenn II. flokks, en láta alla póstafgreiðslumenn í Reykjavík teljast í einum flokki, er komist upp í 7800 kr. laun, þegar tilteknum starfsaldri er náð. Meginrökin fyrir þessu eru þau, sem hv. frsm. minntist á, að frv. gerir ráð fyrir miklum launalækkunum hjá póstmönnum, svo miklum, að varla er nokkur von, að við verði unað. Þeir menn, sem þarna mundu lenda í II. flokk póstafgreiðslumanna, mundu lækka eftir frv. um rúmar 5200 kr. í byrjunarlaunum og um 3700 kr., eftir að komnar eru fullar aldurshækkanir. Auk þess r askast samkv. frv. hlutfallið, sem verið hefur milli I. og II. fl. póstafgreiðslumanna, þannig að launum hinna síðarnefndu er ætlað að lækka miklu meira en hinna. Virðist þetta engan veginn ósanngjarnt, að hlutur þeirra starfsmanna sé ekki skertur svo mjög sem nú horfir, heldur verði póstafgreiðslumenn í Reykjavík allir í einum launaflokki. Ég tek undir það með hv. frsm., að óhjákvæmilegt var að lækka menn í sumum starfsgreinum. En þegar lækkunin er svo stórfelld sem hér ræðir um, er rétt að reyna að hliðra nokkuð til.