20.09.1944
Sameinað þing: 45. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í D-deild Alþingistíðinda. (4883)

126. mál, opinberir starfsmenn

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. — Till. þessi fer fram á að fela ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um opinbera starfsmenn, réttindi þeirra og skyldur, og leggja frv. um þetta efni fyrir Alþ., er það kemur næst saman.

Ríkið þarf vegna starfrækslu sinnar að hafa marga starfsmenn í sinni þjónustu, sem kallaðir hafa verið embættismenn og sýslunarmenn og síðar opinberir starfsmenn. Þeim hefur fjölgað mikið á síðari árum, vegna þess að starfsgreinum hefur verið fjölgað, en ákvæði um skyldur þeirra og réttindi og samband við ríkisvaldið eru mjög fá og ófullkomin í íslenzkri löggjöf. Hér er öðru til að dreifa, þegar menn ráða sig í þjónustu einstaklinga eða einstakra félaga og fyrirtækja. Þá er oftast gerður samningur um, hvernig starfa skuli. Þessum reglum er ekki hægt að beita um opinbera starfsmenn, vegna þess að samband opinberra starfsmanna og ríkisins er talsvert með öðrum hætti. Þar er ekki um sérstakan starfssamning að ræða, heldur skipun eða veitingu. Um eðli þessa sambands er allt í óvissu. T.d. hefur verið um það deilt, ef maður er skipaður í opinbert starf, hvort hann hafi tryggingu fyrir því ævilangt, meðan hann ekki brýtur af sér eða verður ófær til starfs fyrir sakir sjúkleika eða aldurs. Spurning er, hvort segja megi honum upp án saka, ef yfirmaður hans óskar eftir að skipta um. Spurning er um skaðabætur, ef manni er vikið frá án saka. Um það eru engar reglur, en nokkrir dómar hafa um það gengið. Ekkert er til um það, hvort setja megi mann inn aftur, ef honum hefur verið vikið úr embætti án saka. Yfirleitt er litið svo á, að það sé ekki, heldur hafi viðkomandi maður rétt til skaðabóta.

Skyldur opinberra starfsmanna eru að ýmsu leyti meiri en starfsmanna við einstaklingsfyrirtæki og öðruvísi háttað. Skal ég nefna dæmi til skýringar. Ef starfsmaður vanrækir störf sín hjá einstaklingi eða einstaklingsfyrirtæki, er það yfirleitt ekki talið refsivert, heldur er honum sagt upp. En ef opinber starfsmaður vanrækir starf sitt, þá getur það ekki eingöngu varðað brottvikningu, heldur einnig refsingu. Eru í 14. kafla hegningarl. ákvæði um slík brot. Þetta sýnir, hversu ólíkt er um aðstöðu opinberra starfsmanna og starfsmanna hjá einstaklingsfyrirtækjum. Af þessu leiðir m.a. það, að þeim reglum, sem viðurkenndar eru um starfsmenn hjá einstaklingsfyrirtækjum, er ekki hægt að beita við opinbera starfsmenn. En móti þessum auknu skyldum koma aftur aukin réttindi, svo sem meiri trygging gegn uppsögn o.s.frv.

Lagaákvæði í íslenzkri löggjöf um opinbera starfsmenn eru fá og ófullkomin. Í stjórnarskránni er þess krafizt, að embættismenn hafi íslenzkan ríkisborgararétt. Þar er talað um, að forseti skipi embættismenn og geti vikið þeim frá. Þar er gamalt og úrelt lagaákvæði um íslenzkukunnáttu þeirra. Nokkur ákvæði eru í launal. um réttindi þeirra og skyldur. Þá eru hin margumdeildu l. frá 1915 um verkföll, l. um lífeyrissjóð þeirra, umrædd hegningarl., l. frá 1935 um aldurshámark opinberra starfsmanna, svo að nefnd séu nokkur þau helztu. Um þetta allt vantar nánari ákvæði í íslenzkum l. Víðast í nágrannalöndunum eru ýtarleg ákvæði um réttindi og skyldur þeirra. T.d. vantar alveg í okkar löggjöf reglur um veitingu starfa, t.d. að skylt sé að auglýsa opinber störf, sem menn telja, að eigi að vera meginreglan. Það vantar ákvæði um, að samkeppni skuli fram fara milli umsækjenda, sem mjög oft getur verið ástæða til. Í íslenzkri löggjöf eru engin ákvæði um þetta, en í reglugerð Háskólans eru ákvæði um þessi efni. Einnig þyrfti að setja l. og reglur um veitingavaldið, og ætti þar að vera tekið fram, við hvað ætti að miða veitingu, t.d. kunnáttu og þekkingu umsækjanda og hvernig hann hefur leyst af hendi störf sín áður, enn fremur starfsaldur, sem vitanlega ber að öðru jöfnu að taka til greina o.s.frv. Þetta er ekki eingöngu fyrir starfsmennina, heldur einnig hin mesta nauðsyn fyrir það opinbera sjálft, því að auðvitað er meiri trygging fyrir, að opinberir starfsmenn vandi störf sín, ef þeir hafa tryggingu fyrir og örugga vissu, að þeir gangi fyrir í betri stöður, ef þeir standa sig vel, heldur en ef allt er af handahófi eða gerræði um veitingu starfa. Þá eru ekki heldur til nein ákvæði um uppsagnarrétt eða ef menn eru sjúkir eða slasaðir. Um orlof opinberra starfsmanna hefur einnig ríkt talsvert ósamræmi. Um greiðslu fyrir aukavinnu vantar einnig ákvæði. Aukavinna hefur sums staðar verið greidd, annars staðar ekki. Þetta þarf að samræma og setja reglur þar um. Um aukastörf þarf einnig að setja ákvæði. Það er því miður stundum svo, að á opinbera starfsmenn hafa hlaðizt svo mikil aukastörf, að þeirra fasta starf lendir í undandrætti og lítill tími fer í að sinna því. Er sjálfsagt að setja í l. takmark fyrir, að opinberir starfsmenn megi hafa umsvifamikil aukastörf með höndum.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð þessu til skýringar, en vænti þess, að hv. þm. geti fallizt á, að hér er fyllsta nauðsyn að setja l. bæði til tryggingar rétti opinberra starfsmanna og ekki síður með hagsmuni ríkisvaldsins fyrir augum, m.a. til tryggingar því, að þeir gegni skyldum sínum og opinber störf verði sem bezt af hendi leyst.

Á síðustu árum hafa tvær tilraunir verið gerðar í þessa átt. Árið 1933 flutti þáv. dómsmrh. frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það komst til n., en ekki lengra. Árið eftir samdi mþn. um launal. frv. um laun opinberra starfsmanna. Voru það allýtarleg ákvæði um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það frv. sofnaði líka í n. Það hafa að vísu komið raddir um að fara að eins og 1934 og sameina í einn lagabálk um laun og réttaraðstöðu. Ég tel það ástæðulaust, því að hvort málið gæti orðið hinu til tafar, enda engin nauðsyn að hafa þau samtengd. Ég tel heppilegra, að sitt frv. gildi um hvort atriði.

Um þessa till. um undirbúning löggjafar um opinbera starfsmenn vil ég aðeins segja það, að ég hef enga sérstaka till. gert um kosningu eða skipun n. Hæstv. stj. og dómsmrh. yrðu að ráða, hvort ráðh. sjálfur með aðstoðarmönnum sínum í stjórnarráðinu telur sig geta leyst þetta verk af hendi eða hvort þyrfti að fá til þess aðstoð utan stjórnarráðsins, en ég tel sjálfsagt, að um þetta verði haft fullt samráð við bandalag starfsmanna ríkis og bæja, svo að opinberir starfsmenn geti komið á framfæri sínum sjónarmiðum og óskum.

Ég tel rétt, að fyrri umr. verði frestað og málinu vísað til allshn. til athugunar.