16.10.1944
Sameinað þing: 55. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í D-deild Alþingistíðinda. (5002)

142. mál, rafveitulán fyrir Keflavíkurhrepp, Njarðvíkurhrepp og Grenjaðarstaða- og Múlahverfi

Jónas Jónsson:

Ég hef leyft mér að flytja viðbótartill. við þessa þáltill., sem ég vil mæla fyrir. Till. er á þskj. 420 og fer fram á að bæta við þessa þáltill. 100 þús. kr. til Grenjaðarstaðar- og Múlahverfis í Suður-Þingeyjarsýslu, í því skyni að leiða rafmagn til 12 heimila frá Laxárvirkjuninni. Rafmagnseftirlitið telur, að það mundi kosta 110 þús. kr. að leiða rafmagn að þessum bæjum, en ég tel ekki ástæðu til að hafa ábyrgð fyrir allri upphæðinni. En á hinn bóginn mælir margt með því, að þetta sé gert.

Þannig er ástatt um Laxárvirkjunina eins og Sogsvirkjunina, að hún liggur í miðju frjósömu héraði, en það er ekki nema einn bær við hvora virkjun, sem hefur fengið rafmagn til afnota, og hafa þessar virkjanir því ekki orðið til þess að bæta úr rafmagnsþörf héraðanna, þar sem veitan er. Það hagar svo til við Laxárvirkjunina, að þar eru 12 býli í samfelldu túni í 1–2 km. fjarlægð frá veitunni. Rafstrengurinn liggur þarna rétt hjá, og hvergi á Íslandi veit ég til, að sé auðveldara um framkvæmd en einmitt á þessum stað. Þarna er sem sagt nærri stórri virkjun tiltölulega mikið þéttbýli. Ég álít því, að fyrir utan það að hjálpa þeim heimilum, sem hér eiga hlut að máli, þá sé hér tækifæri til þess að fá reynslu um það, í fyrsta skipti um hið eiginlega dreifbýli, hversu hægt væri að fullnægja rafmagnsþörfinni í dreifbýlinu og standa undir kostnaðinum. Ég geri ráð fyrir því, að þessi framkvæmd muni verða gerð um leið og Húsavík fær sitt rafmagn frá Laxárvirkjuninni, og það mun væntanlega verða þegar flutningar verða teknir upp við Svíþjóð. Ég vænti þess, að það muni ekki þykja óeðlilegt, þó að þessari till. sé bætt við hina fyrri.