10.11.1944
Sameinað þing: 63. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í D-deild Alþingistíðinda. (5061)

177. mál, rannsóknarstöð á Keldum

Frsm. (Pétur Ottesen):

Ég vil aðeins þakka hæstv. fjmrh. fyrir hans góðu undirtektir undir þetta mál og þá fyrirgreiðslu, sem það hefur fengið hjá honum, síðan fundum Alþ. var frestað. Það er náttúrlega sjálfsagt, eins og hann hefur þegar gert, að koma á framfæri breyttri áætlun um stofnkostnaðinn, því að það er sjálfsagt lagt til grundvallar fyrir fjárveitingu frá þeirri stofnun, sem um er að ræða. Ég vil vænta þess að mega hafa samráð við hæstv. fjmrh. við síðari umr. þessarar till. um breyt. á þeirri upphæð, sem í till. felst.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. fjmrh. sagði um áætlunina, þá getur náttúrlega vel farið svo, að sá kostnaðarauki, sem þar um ræðir, verði að einhverju leyti meiri. Ég dró aðeins fram þær tölur, sem Björn Sigurðsson lagði fyrir n., eða niðurstöður af þeirri áætlun, sem hann lagði fyrir n., en eins og ég tók áðan fram, gat hann þess, að þessi áætlun væri frekar lausleg, og einmitt það, sem milli bar, var sú upphæð, sem ég nefndi.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta, en vænti eftir þessar góðu undirtektir hæstv. fjmrh. og þeirri mikilsverðu fyrirgreiðslu, sem hann hefur veitt þessu máli, að till. fái sams konar undirtektir hér á þingi.